136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

Ríkisútvarpið ohf.

218. mál
[14:49]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef að einhverju leyti ákveðinn fyrirvara við frumvarpið sem hér er til umræðu. Hér er í rauninni verið að koma á nýrri tegund af kvótakerfi. Kvótakerfi sem gengur út á að selja takmarkaðan aðgang að neytendum á Íslandi. Engum blöðum er um það að fletta að það er hagur íslenskra neytenda og það er hagur íslenskra fyrirtækja að hægt sé að koma upplýsingum til viðskiptavina með eins hagkvæmum hætti og mögulegt er.

Kvótakerfið eins og það er teiknað upp í frumvarpinu mun draga úr samkeppni milli fyrirtækja á Íslandi og verða til þess að ýta enn frekar undir samþjöppun en orðið er í ljósi þess að breytingarnar munu þrýsta auglýsingaverði upp, ekki bara á RÚV heldur í fjölmiðlum almennt. Þar með verður þröskuldur lítilla og meðalstórra fyrirtækja hærri og gerir það þeim mun erfiðara fyrir í samkeppninni.

Íslenski fjölmiðlamarkaðurinn er mjög samþjappaður þannig að færa má rök fyrir því að þetta veiti frjálsu fjölmiðlunum, sem að stærstum hluta eru í eigu sama aðila, ákveðna einokunaraðstöðu eða yfirburðastöðu gagnvart auglýsendum. Ég spái því að gjaldskrá einkareknu fjölmiðlanna, og þá sérstaklega ljósvakamiðlanna, eigi eftir að hækka umtalsvert í framtíðinni og enn og aftur komum við því að samkeppnisstöðunni.

Þá er ekki fyrirséð hvaða áhrif frumvarp þetta hefur á íslenska auglýsingagerð. Hætt er við að þessi takmörkun á birtingu í ríkissjónvarpinu dragi úr umfangi þess geira en þar vinnur mjög margt hæfileikaríkt fólk sem á allt sitt undir því að þessi geiri blómstri. Þar er veruleg hart í ári um þessar mundir.

Ég vil hins vegar taka undir með þeim sem bent hafa á erfiða samkeppnisstöðu einkareknu stöðvanna. Ég get tekið undir það að ég tel að efla þurfi samkeppni á auglýsingamarkaði. En ég held að samkeppni ljósvakamiðlanna verði fyrst og fremst tryggð með því að selja Ríkisútvarpið og Rás 2. Ég er tilbúinn til að taka þátt í því og verja síðan blessuðum nefskattinum í að bjóða út gerð á íslensku sjónvarps- og fréttaefni.

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti. Í kjölfar bankahrunsins er mikilvægt að hefja strax endurreisn í íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Til að það sé mögulegt á sem stystum tíma verður að ríkja öflug samkeppni hér á landi. Því miður er mikil hætta á að ríkjandi ástand, ekki bara á fjölmiðlamarkaði heldur almennt, ýti undir samþjöppun og hún verði enn meiri en við höfum upplifað á undanförnum árum. Slíkt getur dregið mjög úr hraða endurreisnarinnar þar sem frumkvæði og framtakssemi þjóðarinnar nær ekki fullum skriðþunga. Ég treysti því að hv. menntamálanefnd horfi sérstaklega til þeirra þátta sem ég hef reifað hér þegar frumvarpið verður tekið til meðferðar milli 1. og 2. umr.