136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

framhaldsfræðsla.

216. mál
[15:15]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um framhaldsfræðslu. Með framhaldsfræðslu er vísað til þeirrar starfsemi sem gjarnan hefur verið kölluð fullorðinsfræðsla, þ.e. nám fólks á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið prófi á framhaldsskólastigi. Með framhaldsfræðslu í frumvarpinu er átt við, eins og segir í 3. gr. frumvarpsins: „Hvers konar menntun sem ætlað er að mæta þörfum einstaklinga með stutta formlega skólagöngu að baki og ekki er skipulögð á grundvelli laga um framhaldsskóla og háskóla.“

Frumvarpi þessu er ætlað að styrkja lagalegan grundvöll þeirrar margháttuðu og umfangsmiklu framhaldsfræðslu sem þegar fer fram í landinu, jafnframt því sem lagður er grunnur að frekari eflingu þeirrar starfsemi. Þá er frumvarpinu ætlað að leysa af hólmi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu, nr. 19/1992.

Íslenskt menntakerfi hefur eflst og dafnað á síðustu árum. Nýlega hafa verið samþykkt á Alþingi lög um skólastigin fjögur; um leik-, grunn-, framhalds- og háskóla, en verði frumvarp þetta að lögum bætist við fimmta grunnstoð menntakerfisins: framhaldsfræðsla, sem yrði hliðsett öðrum stoðum þess. Frumvarpið markar lokaáfanga í heildarendurskoðun á lagaumhverfi hins íslenska menntakerfis sem staðið hefur yfir undanfarin tvö ár með það að leiðarljósi að skapa einstaklingum tækifæri til náms alla ævi. Nám alla ævi snýst því um að horft sé á menntakerfið sem eina heild frá leikskóla til háskóla, til framhaldsfræðslu en ekki síður til óformlegrar menntunar sem fer fram utan skólakerfisins, þeirrar hæfni og færni sem einstaklingurinn tileinkar sér í lífi og starfi.

Frú forseti. Nú á tímum skiptir afar miklu máli að þættir eins og þekking, hæfni, færni og reynsla verði metnir hjá því fólki sem ekki hefur mikla grunnmenntun að baki.

Meðal áhersluatriða í frumvarpinu er eftirfarandi:

1. Ábyrgð og hlutverk menntamálaráðuneytis er skilgreint betur en verið hefur.

2. Framhaldsfræðsla er lögfest sem viðurkennt menntunarkerfi til hliðar við formlegar námsbrautir í framhaldsskóla.

3. Skilgreindar eru þær kröfur sem gerðar eru til fræðsluaðila.

4. Hlutverk aðila vinnumarkaðarins varðandi menntun og fræðslu er undirstrikað, m.a. með því að veittar eru heimildir til handa ráðherra til að fela félögum eða stofnunum á þeirra vegum ábyrgð á tilteknum þáttum er varða framkvæmd laga þessara. Byggir sú heimildarveiting á farsælli reynslu af starfsemi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

5. Stofnaður verður sérstakur Fræðslusjóður, þar sem sitja fulltrúar launþega og launagreiðenda á almennum og opinberum vinnumarkaði, sem hefur það hlutverk að:

a. veita fé til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald,

b. veita fé til að mæta kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf og

c. veita styrki til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu.

6. Mat á einstaklingsbundinni raunfærni mun opna leið fyrir einstaklinga án framhaldsskólamenntunar að hinu formlega framhaldsskólakerfi og brúa svonefnt þekkingarbil á vinnumarkaðinum. Þetta tel ég afar mikilvægt atriði, sérstaklega nú á tímum.

Með frumvarpi þessu er skapað mikilsvert úrræði fyrir einstaklinga sem hafa hætt námi að loknum grunnskóla eða á framhaldsskólastigi og hefðbundið nám í framhaldsskóla er ekki raunhæfur kostur. Af þeirri ástæðu er brýnt að skapa hentug námsúrræði sem eru þannig byggð upp að þau geti opnað leiðir til formlegs náms og til brautskráningar úr framhaldsskóla. Frumvarpinu er ætlað að styrkja samstarf þeirra sem sinna framhaldsfræðslu og framhaldsskóla, t.d. með mati á einingabæru námi og gagnkvæmri viðurkenningu þess, og stuðla þannig að aukinni viðurkenningu á gildi menntunar sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis.

Varðandi einstaka greinar frumvarpsins má nefna að í 8. gr. er fjallað um raunfærnimat og einstaklingsbundna námsráðgjöf fyrir þá sem hyggjast leggja stund á nám sem uppfyllir skilyrði frumvarpsins. Þeir sem leggja stund á framhaldsfræðslu skulu eiga rétt á að einstaklingsbundin raunfærni þeirra sé metin. Mat á einstaklingsbundinni raunfærni, þar sem reynsla einstaklinga í atvinnulífinu er metin með formlegum hætti, mun opna leið fyrir einstaklinga án framhaldsskólamenntunar að hinu formlega framhaldsskólakerfi og brúa þannig svonefnt þekkingarbil á vinnumarkaðinum. Sérstaklega er mikilvægt að draga fram að þetta eykur sveigjanleikann í menntakerfi okkar og aðlagar það enn frekar að þeim sem hyggja á nám. Hér er um að ræða mjög mikilvægt úrræði að mínu mati.

Gert er ráð fyrir því að ráðherra geti viðurkennt fræðsluaðila. Í slíkri viðurkenningu felst að fræðsluaðilum er heimilt að annast framhaldsfræðslu en viðurkenningin er forsenda fyrir fjárstuðningi úr Fræðslusjóði. Við mat á því hvort viðurkenning skuli veitt er horft til aðstöðu fræðsluaðila til kennslu og námskeiðahalds, skipulags náms og umsjónar með því, námskráa eða námslýsinga, fjárhagsmálefna, trygginga og gæðakerfis fræðsluaðila.

Varðandi fjárveitingar, þá skiptast opinberar fjárveitingar til framhaldsfræðslu í tvennt í meginatriðum, svo sem greinir í 9. gr:

a. Framlög til að mæta kostnaði við viðfangsefni og umsýslu er tengist framhaldsfræðslu með almennum hætti samkvæmt lögum þessum, en þar eru meðtalin reglubundin rekstrarframlög til aðila sem sinna framhaldsfræðslu, og sérstökum viðfangsefnum er varða menntunarmál fullorðinna.

b. Framlög í Fræðslusjóð. Fræðslusjóður hefur m.a. það hlutverk að veita fé til kennslu og námskeiðahalds, raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar.

Þau viðfangsefni og umsýsla sem vikið er að í a-lið að ofan eru einkum þau verkefni sem unnin hafa verið af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið. Einnig falla hér undir bein rekstrarframlög sem ákveðin eru á fjárlögum ár hvert til símenntunarmiðstöðva. Undir þennan lið geta einnig fallið útgjöld til ýmissa viðfangsefna sem geta verið viðvarandi eða tímabundin og menntamálaráðherra ber ábyrgð á. Útgjöld til þessara verkefna eru á fjárlögum.

Opinber framlög sem falla undir skilgreiningu um framhaldsfræðslu samkvæmt frumvarpi þessu hafa í heild sinni aukist verulega undanfarin ár. Til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og SA um framlengingu kjarasamninga hefur ríkisstjórnin ítrekað samþykkt aukin framlög til framhaldsfræðslu á síðastliðnum árum. Samkvæmt fjárlögum ársins 2008 renna rúmlega 163,8 millj. kr. til grunnreksturs símenntunarmiðstöðva, 72,1 millj. kr. til grunnþjónustu Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og 222,3 millj. kr. til námskeiðahalds ásamt náms- og starfsráðgjöf símenntunarmiðstöðva. Í febrúar sl. lýsti ríkisstjórnin því yfir í tengslum við framlengingu kjarasamninga að framlög til framhaldsfræðslu mundu stigaukast á næstu tveimur árum. Umfram þessar ákvarðanir sem teknar hafa verið á fyrri stigum mun samþykkt þessa frumvarps ekki fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Miðað er við að framlög til starfsmenntamála á vegum annarra ráðuneyta færist til menntamálaráðuneytis og renni til þeirra viðfangsefna sem unnin verða samkvæmt frumvarpi þessu. Ber þar hæst 60 millj. kr. fjárveitingu til starfsmenntaráðs sem heyrði undir félagsmálaráðuneytið.

Hér er um að ræða tilfærslu á verkefnum, við erum að einfalda kerfið og samræma alla framhaldsfræðslu sem hefur verið víða í kerfinu, þó sérstaklega í félagsmálaráðuneytinu og í menntamálaráðuneytinu. Það er verið er að setja þessi mál undir einn hatt, allir koma að borðinu, t.d. verður fulltrúi frá félagsmálaráðuneytinu í stjórn Fræðslusjóðs. Það er mjög mikilvægt að bæði hinn almenni og hinn opinberi markaður sameinist um að koma upp öflugri framhaldsfræðslu.

Við undirbúning frumvarpsins hefur fyrirkomulag framhaldsfræðslu í nágrannalöndunum, til dæmis á Norðurlöndum og í Hollandi, verið skoðað. Niðurstaða þeirrar athugunar hefur leitt í ljós að við getum ýmislegt lært af nágrannaþjóðum okkar. Hins vegar er um að ræða mismunandi kerfi og í sumum tilfellum er fyrirkomulagið mun flóknara en hér á landi og aðlagað að annars konar aðstæðum og þörfum. Aðstæður hér á landi eru sérstakar að því leyti að náið og árangursríkt samstarf Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í fræðslumálum, samskipti þeirra við stjórnvöld og rekstur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins á sér vart hliðstæðu í þeim löndum sem Íslendingar bera sig helst saman við. Frumvarpið byggir því m.a. á því fyrirkomulagi sem hér hefur verið þróað síðustu árin og hefur að mati aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda reynst vel. Jafnframt hefur verið litið til þess hvernig starfsemi símenntunarmiðstöðva hefur þróast á liðnum árum, en æskilegt er að tryggðar verði stöðugri undirstöður fyrir það mikilvæga starf sem fram fer á þeirra vegum. Með starfsemi símenntunarmiðstöðvanna hefur áunnist mikilvæg reynsla sem er um margt undirstaða framhaldsfræðslustarfs í landinu og stefnumótunar á því sviði, sem birtist m.a. í frumvarpi þessu.

Virðulegi forseti. Samkvæmt skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem byggir á tölulegum gögnum frá Hagstofu Íslands, höfðu 31% Íslendinga á aldrinum 25–64 ára ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám árið 2005. Sú staðreynd var höfð í huga við undirbúning áðurnefndrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um stöðugleika í efnahagsmálum sem gefin var út 17. febrúar 2008 í því skyni að greiða fyrir gerð kjarasamninga milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að stefnt verði að því að ekki verði fleiri en sem nemur 10% fólks á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar árið 2020. Samkvæmt yfirlýsingunni skal unnið að því að skapa tækifæri og hvata til menntunar fyrir fólk sem er á vinnumarkaði og hefur takmarkaða menntun. Yfirlýsing ríkisstjórnar er metnaðarfull og miðar frumvarpið m.a. að því að framangreindu markmiði verði náð. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar mikill árangur að nást í framkvæmd laganna.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf., FA, var stofnuð af ASÍ og SA á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 13. desember 2001. Hlutverk hennar er að vera samstarfsvettvangur stofnaðilanna um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtaka ASÍ og SA. Markmiðið er að veita starfsmönnum á almennum vinnumarkaði, sem ekki hafa lokið prófi frá framhaldsskóla, tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Starfsemin byggist á samþykktum félagsins og þjónustusamningi sem gerður hefur verið við menntamálaráðuneytið. Gert er ráð fyrir þeirri skipan að FA annist áfram margvísleg verkefni samkvæmt þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið, enda hefur samstarf stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins á þeim vettvangi verið farsælt. Verði frumvarp þetta samþykkt er ljóst að endurskoða verður fjárveitingar og framlög til verkefna sem unnin eru samkvæmt þjónustusamningi menntamálaráðuneytisins og FA, enda yrði framlögum til þeirra verkefna sem unnin eru samkvæmt samningnum ætlað að nýtast fleirum en nú er, þ.e. félagsmönnum BSRB og þeim sem ekki eru stéttarfélagsbundnir.

Viðræður eru í gangi milli forsvarsmanna ASÍ, SA og BSRB um að samtök launþega og vinnuveitenda á opinberum vinnumarkaði öðlist aðild að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem er í eigu SA og ASÍ. Eru bundnar vonir við að samkomulag náist um það á næstu dögum. Hefur þá náðst mikilvægur áfangi í að sameina krafta aðila vinnumarkaðarins í þágu framhaldsfræðslu.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir þessu frumvarpi. Brýnt er að brúa bilið milli reynslu og menntunar einstaklinga á vinnumarkaði án framhaldsmenntunar og hins formlega framhalds- og háskólakerfis. Frumvarpi um framhaldsfræðslu er ætlað að skjóta styrkum lagastoðum undir mikilvæga starfsemi í menntakerfi okkar þannig að fleiri ljúki námi á framhaldsskólastigi og menntunarstig í landinu aukist.

Frú forseti. Að umræðu lokinni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.