136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

framhaldsfræðsla.

216. mál
[15:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og aðrir sem hér hafa talað, fagna þessu frumvarpi um framhaldsfræðslu. Þetta skemmtilega orð, framhaldsfræðsla, sýnist mér vera nýtt í málinu. Ég veit ekki hvort það hefur mikið verið notað en það er þá búið að öðlast alveg ákveðna merkingu og notað í stað þess sem oft hefur verið kallað fullorðinsfræðsla. Ég held að þetta sé gott orð og lýsi mjög vel því sem verið er að fjalla um. Þetta nær utan um þá fræðslu eða það nám sem menn stunda í framhaldi af einhverju öðru, grunnskólanámi eða öðru.

Margar ástæður eru fyrir því að fólk hættir í skóla, oft ungt. Það geta verið barneignir, eitthvert ástand í atvinnulífinu, það geta verið félagslegar aðstæður sem valda því að fólk hættir allt of snemma í skóla og vill gjarnan komast aftur í viðbótarnám, öðlast möguleika á að fara aftur inn í skólakerfið. Það getur reynst erfitt að setjast á skólabekk með framhaldsskólanemum sem eru töluvert yngri. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa þessa leið opna og sem allra besta og formlegasta svo menn geti snúið til baka, sótt sér viðbótarmenntun og öðlast viðbótarfræðslu á þeim sviðum sem þeir hafa áhuga á.

Sömuleiðis er mjög mikilvægt að þegar við lítum til menntunar sé ekki eingöngu talað um skólagöngu. Það sem kemur fram í þessu frumvarpi er að áhersla er lögð á að hægt sé að meta færni fólks. Það er kallað raunfærnimat. Reynt er að meta þá kunnáttu og reynslu sem fólk hefur fengið úti á vinnumarkaði eða í lífinu þegar það kemur aftur inn í skólastarfið og það jafnvel metið til jafns við skólagöngu, því eins og allir vita er skólaganga og menntun ekki endilega það sama þótt það tengist.

Skilgreind meginmarkmið frumvarpsins birtast í 2. gr. Þar segir að markmið framhaldsfræðslunnar sé að veita einstaklingum á vinnumarkaði með stutta formlega skólagöngu að baki viðeigandi tækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju. Það er talað um að efla starfshæfni þeirra sem hafa jafnvel lokið einhverri skólagöngu, þeirra sem vilja skipta um starfsvettvang eða bæta við sig færni og eiga þá kost á því án þess að setjast endilega inn í formlega skólakerfið. Í c-lið 2. gr. eru nefnd úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins þar sem einmitt er brugðist við breyttum aðstæðum á vinnumarkaði. Við sjáum hvernig þróunin hefur verið mjög hröð á liðnum árum í atvinnulífinu og krafist er nýrra tækifæra og nýrrar tækni. Fólk sem hafði í upphafi öðlast ágæta menntun þarf að sækja sér viðbótarmenntun. Þess vegna er mjög mikilvægt að fólk eigi kost á framhaldsfræðslu og námi í þessum nýju greinum.

Síðan kemur að þeim markmiðum í e-liðnum að afla viðurkenningar á gildi náms sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis. Það er í rauninni megintilgangurinn með lögunum í heild, að undirstrika að það er eitt skólastig til viðbótar við leikskólann, grunnskólann, framhaldsskólann og háskólann, þ.e. þetta framhaldsfræðslustig, og viðurkenna það sem sjálfstætt skólastig þar sem er í raun og veru hægt að sinna einstaklingum sem hafa ekki áhuga eða tækifæri til að fara inn í hin formlegu skólastig. Undir þennan lið fellur líka að stuðla að því að nám og reynsla sem aflað er utan hins formlega skólakerfis verði metin að verðleikum. Það er þetta raunfærnimat, það að viðurkenna að mjög margir geta haft t.d. gríðarlega góða tungumálakunnáttu án þess að þeir hafi aflað sér prófa og þá eigi að vera möguleiki á að meta það nám, prófa fólkið og meta raunfærni þannig að viðkomandi geti jafnvel nýtt sér það í formlegu námi, hvort sem er í framhaldsskóla eða háskóla. Almennt er markmiðið líka að efla menntunarstigið í landinu og íslenskt menntakerfi.

Það er ánægjulegt að öll þessi atriði skuli koma inn í þessi lög og með því reynt að ná utan um þetta skref í heildina. Einnig er lögð áhersla á að hægt sé að stunda þessi námsúrræði samhliða atvinnulífsþátttöku. Við getum einmitt horft til þess að úrræðin sem hér er verið að kynna, sem eru auðvitað í gangi í dag og búið er að formgera undir þessum framhaldsfræðslulögum, eru mjög mikilvæg á þessum tíma sem er núna með auknu atvinnuleysi. Nú er einmitt mikilvægt að fólk geti samhliða t.d. hlutaatvinnu eða samhliða einhverjum samdrætti stundað nám í símenntunarmiðstöðvum eða á öðrum stöðum þar sem boðið er upp á viðkomandi framhaldsfræðslu.

Aðkoma ríkisins að þessari fræðslu er fyrst og fremst annars vegar í gegnum formlegar fjárveitingar til bæði ýmissa viðfangsefna og umsýslu í gegnum fjárveitingar til símenntunarmiðstöðva en ekki síst með framlögum til Fræðslusjóðs sem síðan mun deila út peningum eftir umsóknum til þeirra verkefna sem þessir aðilar koma með og hafa tilboð um.

Auðvitað er mikilvægt í þessari fræðslu að horfa ekki eingöngu til þess að fólk geti farið inn í framhaldsfræðslu til að afla sér eininga heldur veitir þetta líka almenna þekkingu og fræðslu sem þarf ekki endilega að telja sem einingar. Það er jafnmikilvægt að boðið sé upp á formlegt nám sem telst til eininga og að bjóða upp á ýmislegt nám sem í raunveruleikanum hefur meiri áhrif á almenna líðan og möguleika á því að styrkja sjálfsmynd eða njóta sín í hinu daglega lífi.

Það er engin ástæða til að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Mjög jákvætt er að það hefur verið lagt fram. Ég tek undir það sem kom fram fyrr í umræðunni að ýmsir aðilar sinna þessari þjónustu í dag. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, sem er samstarfsverkefni ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, er öflug og gegnir mikilvægu hlutverki. Úti á landi eru símenntunarmiðstöðvar, þekkingarnet og þekkingarsetur sem við þurfum að standa vörð um og tryggja að séu vel starfandi og geti boðið upp á góða framhaldsfræðslu. Fræðslumiðstöðvar iðngreina, Mímir símenntun og fleira er nefnt í greinargerð með þessu frumvarpi.

Ég tel þó ástæðu til að nefna að mér finnst mikilvægt að framhaldsskólarnir — þótt það verði ekki með formlegum hætti, þ.e. ekki með formlegu framhalds- og eininganámi — eigi líka kost á að bjóða upp á framhaldsfræðslu. Þar er góð aðstaða til þess. Þótt það verði í samstarfi við þekkingar- eða símenntunarmiðstöðvar finnst mér mikilvægt að framhaldsskólarnir geti líka haft hlutverk hvað þetta varðar. Ég veit að sumir skólar hafa einmitt verið að bjóða ákveðnum starfsstéttum upp á framhaldsnám, ekki endilega einingabært en nám sem er stundað utan vinnutíma eða samhliða fullri atvinnu eða hlutastarfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við nýtum þessar skólaeiningar, þó að þetta frumvarp fjalli meira um það sem fellur utan formlega skólakerfisins, að við aðskiljum þetta ekki með öllu heldur nýtum háskólana og framhaldsskólana í okkar framhaldsfræðslu.

Þetta frumvarp kemur til menntamálanefndar og eins og þeir sem hér töluðu á undan mér fagna ég því að fá tækifæri til að fjalla um það frekar og skoða betur með hvaða hætti við stöndum að hugsanlegum breytingum á þessu frumvarpi ef einhverjar þarf að gera. Ég óska menntamálaráðherra til hamingju með að vera komin með þetta inn í þingið og hlakka til að takast á við að vinna enn þá betra frumvarp úr þessu.