136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[16:06]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Þetta frumvarp er vissulega til bóta og ég held að hægt sé að mæla með því en þó eru einhver atriði sem mættu kannski betur fara. Það er spurning um séreignarlífeyrissparnaðinn, hvort ekki væri rétt að leyfa fólki á öllum aldri að taka út séreignarsparnaðinn hvort sem það er þrítugt eða 55 ára eða á hvaða aldri sem það er vegna þess sérstaka neyðarástands sem er í þjóðfélaginu núna. Margir eiga töluvert inni í séreignarsparnaði, jafnvel ungir menn og konur sem gætu nýtt hann hreinlega til að bjarga sér frá hörmungum og jafnvel frá gjaldþroti. En sjálfsagt er að þakka þetta mark sem bundið er við það að 60 ára og eldri megi taka út séreignarsparnaðinn í einu lagi og nýta hann og verður það til bóta fyrir marga. En ég er að hugsa um yngra fólkið, fólk sem er búið að vera með séreignarsparnað í 10 ár og á kannski einhverja aura inni sem gætu hjálpað því í þeim hremmingum sem ganga yfir þjóðfélagið núna. Og það er spurning hvort við leggjum ekki fram breytingartillögu um að það fái líka að nýta sér þetta.

Lífeyrissjóðakerfið er auðvitað mjög gott í sjálfu sér þó svo að mörgum finnist sorglegt að borga verulegar upphæðir allan sinn starfsaldur og fá ekki út nema kannski helminginn til baka eins og er í mörgum lífeyrissjóðum. Í mínum lífeyrissjóði, gamla Lífeyrissjóði sjómanna, fara t.d. um 50% af útborguðum greiðslum sjóðsins á hverju ári í örorkubætur, ekknabætur og slysabætur og annað þess háttar þannig að menn sem hafa borgað 20 millj. í sjóðinn á starfsferli sínum fá kannski ekki út í lífeyri til baka framreiknað nema helminginn af þeirri upphæð. Það segir auðvitað hvernig lífeyrissjóðakerfið er byggt upp en menn gleyma því að þegar lífeyrissjóðakerfinu var komið á um 1970 var örorkuþátturinn í flestum lífeyrissjóðum í kringum 10–12% en hann hefur breyst mjög verulega í flestum sjóðum. Fleira fólk hefur orðið öryrkjar og þar af leiðandi fengið greiðslur úr sjóðunum og stundum meira en það hefur raunverulega borgað í þá. Þetta eru samtryggingarsjóðir og þeir sem fá út úr lífeyrissjóði fá meira en þeir hafa kannski lagt í sjóðinn og auðvitað bitnar það á á eftirlaunum fólks þegar um svoleiðis samtryggingarsjóði er að ræða. Ég hef lagt það til í þeim efnum og byrjaði að tala um það fyrir einum 12 árum síðan að nauðsynlegt væri að þessir sjóðir væru fyrst og fremst lífeyrissjóðir og að fólk sem verður öryrkjar eigi auðvitað að fá út úr sjóðnum miðað við þá punkta sem það á í lífeyrissjóðnum en til að ná lágmarkslífeyri eigi Tryggingastofnun ríkisins eða ríkið að koma á móts við þetta fólk þannig að aðrir lífeyrisþegar í sama lífeyrissjóði þurfi ekki að taka á sig þessa sameiginlegu skyldu. Það er auðvitað misjafnt eftir lífeyrissjóðum hvernig reglurnar eru, ekknabætur, makabætur og ýmsar aðrar bætur eru misjafnar eftir sjóðum. Hinir almennu lífeyrissjóðir eru með allt önnur kjör en lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna, að maður tali ekki um eftirlaunakjör alþingismanna. Þetta er allt hvert með sínu lagi. Því er ekki að leyna að þar eru alþingismenn auðvitað best settir, ég tala nú ekki um ráðherrar, hæstaréttardómarar og æðstu embættismenn þjóðarinnar.

Annað atriði sem er mjög sérkennilegt í sambandi við lífeyrissjóðina er þátttaka atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða. Ég byrjaði að tala um það fyrir 12 árum að það væri mjög óeðlilegt að atvinnurekendur séu til helminga við launþega í stjórnum lífeyrissjóða. Í mörgum lífeyrissjóðum og flestum er það þannig að þar eru jafnmargir fulltrúar frá atvinnurekendum og frá launþegahreyfingunni en það er nú einu sinni þannig að launþegarnir eiga þessa lífeyrissjóði. Þeir búa til lífeyrissjóðina, launin þeirra fara í að búa til lífeyrissjóðina. Auðvitað ættu launþegar að vera með meiri hluta í stjórnum lífeyrissjóða en ekki eins og þetta er í dag að það sé helmingaskiptaregla. Síðan hefur verið ákveðin misnotkun á því mikla fjármagni sem er í lífeyrissjóðakerfinu, keyptir hafa verið hlutir í fyrirtækjum og menn sem fara með atkvæði í lífeyrissjóðunum á hverjum tíma hafa verið að tryggja sínum mönnum stjórnarsetu í ákveðnum fyrirtækjum út á eignarhlut lífeyrissjóðanna.

Það er ýmislegt sem þarf að skoða þegar lífeyrissjóðsmál eru rædd almennt. Þau tvö atriði sem mér finnst þurfa að breyta í lífeyrissjóðakerfinu eða lífeyrissjóðunum er í fyrsta lagi hverjir sitja í stjórnum sjóðanna og í öðru lagi örorkuþátturinn í lífeyrissjóðakerfinu þar sem lífeyrissjóðirnir eru að borga og hlífa ríkinu raunverulega við því sem það á að gera. Það má með sanni segja að það sé óeðlilegt að fólk sem borgar allan sinn starfsaldur í lífeyrissjóð fái raunverulega ekki nema helminginn af peningunum til baka en það er það sem mér sýnist vera alla vega hjá hinum almennu lífeyrissjóðum. Ég þekki þetta ekki nægilega vel hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna en ég veit aftur á móti að lífeyrissjóðir alþingismanna og æðstu embættismanna þjóðarinnar eru á algerum sérkjörum.