136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[16:14]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður nefndi eitt atriði sérstaklega sem ég vildi nefna og það er um séreignarsjóðina, hvort það ætti almennt að vera heimilt og alla vega tímabundið núna vegna ástandsins að taka út úr þeim sjóðum, þá vil ég segja að mér finnst það alls ekki fráleit hugmynd því að það getur vel verið að það gæti hjálpað einhverjum sem eru í erfiðri stöðu. En hins vegar geta verið vandamál þessu tengd. Það fer eftir því hvort sá hópur sem á í erfiðleikum er stór innan þess hóps sem á séreignarsparnað. Ef hann er lítill skiptir þetta ekki miklu máli, þá ætti ekki að vera mikið vandamál að fá greitt úr sjóðunum. Sé þessi hópur hins vegar stór gæti verið erfitt að greiða honum út en öðrum aðilum í sjóðnum væri ekki heimilt að fá sína inneign út. Það mundi leiða til þess að auðseljanlegustu bréfin og kannski verðmætustu bréfin yrðu seld út úr sjóðunum en eftir sætu bréf sem væru torseldari og jafnvel ekki eins verðmæt nú um stundir og þannig væri verið að mismuna á milli þeirra sem eiga aðild að sjóðunum. Það gæti leitt til þess að eina leiðin til að gæta jafnræðis væri að leysa sjóðina upp og það geta líka verið ákveðin vandamál í því.

Þetta er samt sem áður eins og ég sagði ekki fráleit hugmynd og við erum að skoða hana. Ég lít ekki svo á að þetta sé eitthvað sem þurfi að ákveða einn, tveir og þrír. Við erum þegar búnir að setja löggjöf um greiðslujöfnun, hún á að létta á fólki fyrsta kastið og við höfum tíma til að skoða þetta vandlega áður en við tökum ákvörðun.