136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

219. mál
[16:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið sem er hér til 1. umr. og á eftir að fara til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd þingsins þar sem ég á reyndar sæti. Við munum fara rækilega yfir málið.

Ég vil aðeins segja um það atriði sem kom hér síðast til umræðu, heimildir til að taka út úr séreignarsparnaði. Í frumvarpinu eru rýmkaðar heimildir til þess við 60 ára aldur. En síðan hafa menn verið að ræða hvort æskilegt væri að rýmka þetta enn meir í ljósi hins bága efnahagsástands sem við búum við og aðsteðjandi vanda hjá mörgum heimilum og einstaklingum sem eru að missa heimili sitt, hvort eigi að rýmka þetta enn meira.

Ég er því mjög fylgjandi fyrir mitt leyti að það verði skoðað. Ég held að fólk muni ekki gera þetta nema mjög brýn nauðsyn knýi. Ég held að enginn leiki sér að því að taka áhættu í þessum efnum eða fara með féð út í neyslu heldur geri fólk þetta einvörðungu til að bjarga sér. Ég er hlynntur því í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru að þetta verði skoðað mjög alvarlega.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að rýmka um fyrir lífeyrissjóðunum varðandi fjárfestingarstefnu. Þetta er nokkuð sem þarf að gera. Lífeyrissjóðirnir þurfa að ýmsu leyti að breyta um kúrs. Ég er því mjög fylgjandi að lífeyrissjóðirnir beini fjármagni sínu núna í eins ríkum mæli og unnt er til uppbyggingar hjá ríki og sveitarfélögum.

Menn hafa verið með þá spurningu uppi hvort yfirleitt sé hægt að geyma peninga. Þeir hafa reynst hafa óþægilega mikið til síns máls sem haft hafa efasemdir um að það væri hægt. Einfaldlega vegna þess að þú setur ekki lífeyrissparnað í sparigrísinn uppi í hillu og tekur hann niður þegar þú þarft á honum að halda. Efnahagslífið í heild sinni þarf að vera í stakk búið til að geta miðlað þegar þar að kemur. Síðan höfum við séð hvernig farið hefur með þann sparnað sem við höfum sett til hliðar og það er enginn smásparnaður.

Einstaklingur hjá hinu opinbera sem nýtir sér auk lögbundins sparnaðar upp á 15,5%, ef hann er í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, möguleika í séreignarsparnaði upp á 4% er að leggja til hliðar í lífeyrissjóð tæp 20%, sem er fimmtungur af launum hans. Það er fimmti hver dagur. Það er einn vinnudagur í viku. Einn vinnudag í viku er hann að vinna fyrir lífeyrissjóðnum sínum og setur peninga til hliðar.

Nú erum við að átta okkur á því að lífeyrissjóðirnir kunna að hafa tapað á bilinu 15–25% af eignum sínum í fjármálakreppunni. Reyndar eru það oft og tíðum vafasamar tölur sem menn henda á milli sín. Þannig má nefna að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins var með í hlutabréfum fyrir um 5–6 árum, nú þori ég ekki alveg að fara með þessar tölur, um 8 milljarða. Þeir voru komnir með 50 milljarða í árslok 2007 eða 2008 en höfðu einvörðungu lagt inn 3–4 milljarða á því tímabili til viðbótar. Hitt var bara bóla. Þegar hún fer niður er ekki þar með sagt að lífeyrissjóðirnir hafi tapað öllum þeim fjármunum. Ekki er því allt sem sýnist í þessum efnum, aldeilis ekki, og ekki er séð fyrir endann á því hver niðurstaða nefndarinnar verður.

Eitt er ég sannfærður um og það er að þeir peningar sem eru vel notaðar eru vel geymdir. Vel notaðir peningar eru peningar sem notaðir eru til að styrkja innviði samfélagsins, til að styrkja velferðarþjónustuna, til að styrkja starfsemi á vegum sveitarfélaga og ríkisins. Ég er því mjög fylgjandi að fjármagni lífeyrissjóðanna verði í auknum mæli, og í eins ríkum mæli og unnt er, beint til uppbyggingar hjá ríkinu og hjá sveitarfélögunum á komandi mánuðum og menn fari mjög varlega í fjárfestingar á öðrum sviðum.