136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

aukatekjur ríkissjóðs.

226. mál
[16:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.

Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi lagt til að ákvæðum laganna um þinglýsingargjald verði breytt á þann hátt að ekki skuli greiða þinglýsingargjald vegna skilmálabreytinga á verðtryggðum fasteignaveðlánum sem koma til vegna greiðslujafnaðar samkvæmt lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

Í öðru lagi er lagt til að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu leyfisbréfs til leikskólakennara til samræmis við það sem gert er við útgáfu leyfisbréfs til grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Í þriðja lagi er lagt til að Fjármálaeftirlitið fái heimild til gjaldtöku vegna útgáfu innheimtuleyfis á grundvelli innheimtulaga, nr. 95/2008, og í fjórða lagi eru lagðar til breytingar á 17. gr. laganna um gjaldtöku af ljósritum, endurritum og eftirgerðum af gögnum sem afhent eru með rafrænum hætti.

Frú forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.