136. löggjafarþing — 51. fundur,  11. des. 2008.

tollalög.

193. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 307 frá hv. efnahags- og skattanefnd um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og fleiri lögum.

Í þingskjalinu kemur fram hverjir komu á fund nefndarinnar og hvaða gesti hún fékk og eins er lýsing á frumvarpinu.

Það var almenn samstaða hjá gestum nefndarinnar um breytingar frumvarpsins. Markmið þeirra væri að hagræða í stjórnsýslu tollframkvæmdar og koma ábyrgð á málaflokknum alfarið undir fjármálaráðuneytið.

Nefndin ræddi rökin fyrir því að yfirstjórn tollamála væri færð til tollstjórans í Reykjavík og var því til stuðnings vísað til umfangs starfseminnar auk þess sem embættið hefði í dag með höndum sérstakt hlutverk.

Þá ræddi nefndin hvort frumvarpið mundi hafa í för með sér niðurskurð og fækkun starfa á landsbyggðinni. Kom fram að það stæði ekki til, heldur ætti að efla þjónustu þar sem hennar væri þörf. Frumvarpið mundi auðvelda færslu starfa til landsbyggðarinnar að því gefnu að það væri álitið hagkvæmt og skynsamlegt.

Á fundum nefndarinnar var undirstrikuð þörf fyrir náið samstarf löggæslu og tollgæslu og mikilvægi þess að tryggja virka miðlun upplýsinga milli þessara embætta, samanber 12. og 45. gr. frumvarpsins. Nefndin tekur undir það sjónarmið.

Nefndin fagnar sérstaklega 5. tölulið 8. gr. frumvarpsins og bendir á að hann er í samræmi við áherslur sem fram komu í áliti nefndarinnar frá 4. desember 2007, á 135. löggjafarþingi. Nefndin vill taka af tvímæli um að tollstjóri annist lögskráningu í umdæmi sýslumannsins í Keflavík og leggur til breytingu þess efnis.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem getið er um í nefndarálitinu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson og Katrín Jakobsdóttir gera fyrirvara við álitið. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson, Birkir J. Jónsson, Lúðvík Bergvinsson, Katrín Jakobsdóttir, með fyrirvara, og Rósa Guðbjartsdóttir.