136. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2008.

olíugjald og kílómetragjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og bifreiðagjald.

233. mál
[18:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru, í samræmi við forsendur í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2009, lagðar til hækkanir á tilgreindum gjöldum á ökutæki og eldsneyti. Um er að ræða 12,5% hækkun á bifreiðagjaldi, vörugjaldi af bensíni, olíugjaldi og kílómetragjaldi.

Í upphaflegu frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 kemur fram að reiknað sé með 11,5% hækkun á framangreindum gjöldum. Var sú hækkun áætluð í samræmi við áætlaða hækkun á vísitölu neysluverðs milli ársmeðaltala 2007 og 2008. Samkvæmt breytingum á tekjuáætlun fjárlagafrumvarps 2009 er nú gert ráð fyrir að þessi hækkun sé 12,5% og er því í frumvarpinu lagt til að umrædd gjöld hækki um 12,5%.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er sú hækkun sem hér er lögð til vel innan þeirra marka sem umrædd gjöld hafa rýrnað að verðgildi, ef miðað er við þróun á vísitölu neysluverðs frá því umrædd gjöld voru síðast hækkuð.

Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeirri hækkun sem frumvarp þetta kveður á um eru áætlaðar samtals um 2.275 millj. kr. á ársgrundvelli.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.