136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ákvarðanir Breta um að beita hryðjuverkalögum gagnvart Landsbanka Íslands og Kaupþingi var stjórnsýsluathöfn. Hún er kæranleg innan þriggja mánaða. Fresturinn rennur út 7. janúar. In defence hópurinn hefur varið hagsmuni okkar mjög dyggilega erlendis en komið að tómum kofum ríkisstjórnarinnar. Kæra er afar mikilvægt vopn eða áríðandi innlegg í samningum okkar um ábyrgð á Icesave-reikningunum. Þetta eru samtengd mál. Þetta er ákvörðun skilanefndar, skilanefndirnar starfa í umboði Fjármálaeftirlitsins, Fjármálaeftirlitið er undir yfirstjórn hæstv. viðskiptaráðherra þannig að ákvörðunin er í raun ríkisstjórnarinnar þótt aðildin sé í höndum bankanna.

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, sá virti fræðimaður, hefur lýst því yfir að gerðir hafi verið nauðungarsamningar sem séu ógildanlegir að landslögum og alþjóðarétti. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Ætlar hún að beita því innleggi sem sterkast er í samningaviðræðum við Breta vegna þess að það tjón sem blasir við út af Icesave-reikningunum og út af Kaupþingi má að töluverðu og miklu leyti rekja til þess að NATO-þjóðin Bretar beitti okkur hryðjuverkalögum?

Þetta er árás Breta á aðra NATO-þjóð, Íslendinga, efnahagsleg árás. Og hvað hyggst ríkisstjórnin og utanríkismálanefnd gera í því sambandi, varðandi NATO-aðildina? Af hverju er því vopni ekki beitt að við drögum okkur út úr því samstarfi, rétt eins og við létum liggja í loftinu þegar við stóðum í landhelgisdeilunni á sínum tíma? Þetta er mun alvarlegra mál. Við erum að taka á okkur 100 milljarða í skuldbindingar á ári árið 2010, einn fjórða af fjárlögum sem þýðir niðurskurð í öllu okkar kerfi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi og alls staðar. Hvað ætlið þið að (Forseti hringir.) gera? Við viljum fá skýr svör. Ætlið þið að kæra eða ætlið þið ekki að kæra? Ákvörðun verður að liggja fyrir í dag.