136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er auðvitað geysilega mikilvægt að fá það staðfest að ríkisstjórnin átti sig á því að þegar þrír mánuðir eru liðnir frá 7. október er kominn 7. janúar. Það er mjög mikilvægt að það skuli vera á hreinu að ríkisstjórnin hafi gert sér þetta ljóst.

Bæði utanríkismálanefnd og viðskiptanefnd hafa fjallað um þessi mál og báðar nefndir hafa lagt á það mikla áherslu að mál verði höfðað. Formanni viðskiptanefndar var á fundi sem ég sat þar sem ég hljóp í skarðið, beinlínis falið það verkefni að koma þeirri afstöðu nefndarinnar á framfæri við stjórnvöld. Pólitískt og siðferðilega er beiting hryðjuverkalaganna miklu verri hlutur og snýr að þáttum sem ekki verða bættir með fé, orðstír Íslands og stöðu okkar. Þess vegna á að höfða það mál, jafnvel þótt líkur séu tvísýnar, til að koma því fyrir dómstóla, komast í aðstöðu til að flytja okkar mál, draga athygli fjölmiðla að því og reyna að rétta þar okkar hlut. Þetta mál verður Landsbankinn gamli að höfða vegna þess að það er augljóst mál að möguleikar ríkisins til að koma slíku máli að dómstólum eru mjög takmarkaðir. Landsbankinn gamli verður að höfða það mál. Kaupþing gamla verður síðan að höfða málið vegna kyrrsetningar eða yfirtöku eigna Kaupþings og lögfræðingar meta stöðuna í því máli þannig að vinningslíkur séu góðar. Þar varð gríðarlegt tjón, það snýst um mjög mikla fjármuni sem þar fóru í súginn, það snýst um að stærsta fyrirtæki landsins var knésett eftir að hér var búið að taka um það pólitíska ákvörðun að reyna að bjarga því og styðja það, þar á meðal með lánum úr Seðlabankanum. Málskostnaður hér er innan skekkjumarka, hann er aukastafir í þeim ósköpum sem við tölum um þessa dagana og erum með í höndunum þar sem enginn nennir að tala lengur um minna en 10 og 20 og 100 og 1.000 milljarða þannig að einhver málskostnaður, þótt breskir lögfræðingar hafi hátt kaup, skiptir ekki neinu máli í þessum efnum. Það má líta á það sem nauðsynlegan fórnarkostnað til að (Forseti hringir.) reyna að rétta við afstöðu Íslands. Og það er hálfur sigur bara að koma málunum fyrir dómstóla.