136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:51]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tillögu okkar þingmanna Frjálslynda flokksins snemma í haust lögðum við til að þorskaflinn væri aukinn um 90 þús. tonn. Við lögðum til að 50 þús. tonn af þeirri aukningu færu ekki inn í aflahlutdeildarkerfið, heldur yrðu boðin út til leigu af ríkinu. Það er ekki nýmæli að leigja afla á Íslandsmiðum, útgerðarmenn sjálfir voru frumkvöðlar að því að fara að leigja fisk og bjuggu til alla þá aðferð. Hún er algjörlega kunn og þeir eru búnir að rækta hana með sjálfum sér með ágætisauðlegðarárangri fyrir sjálfa sig í mörg ár en þeim hefur líka stundum tekist að gera aðra að svo miklum leiguliðum að þeir hafa varla haft fyrir útgerðarkostnaði við að gera út á leigukvótann. Í þeim þrengingum sem ríkið á í núna og þjóðin öll ætti skilyrðislaust að taka hluta af þessum aflaheimildum, setja þær á leigumarkað og afla tekna fyrir þjóðina, alveg skilyrðislaust.

Ég þori svo sem ekki að spá því nákvæmlega hvað muni verða lagt til en ég gæti vel ímyndað mér að fyrstu viðbrögð, ef það á að auka aflann, yrðu þau að leggja til 30–40 þús. tonn í upphafi og síðan mundu menn kannski bíða togararallsins í mars til að ákveða framhaldið. Ég held hins vegar að það sé ekki mikil áhætta tekin með það að auka aflann úr þorskstofninum um hátt í 100 þús. tonn. Það er mín skoðun og ég byggi það einfaldlega á öllum þeim viðtölum sem ég hef átt við skipstjórnarmenn á togurum og trillum og öllu þar á milli, fiskimenn sem stunda bæði veiðar á Íslandsmiðum og Grænlandsmiðum.