136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

234. mál
[15:27]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir og fagna því frumvarpi sem hér er komið fram um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu á þetta frumvarp nokkuð langan aðdraganda og eins og hv. þm. Helgi Hjörvar fór hér yfir og rakti sögu hvað varðar kennslu og aðbúnað blindra og daufblindra er fortíðin ekki björt. Allt til 1973 var blindum kennt í einkaskóla og það var ekki markviss kennsla þar til kennslan fór í Álftamýrarskóla og þá í sérdeild, blindradeild.

Eftir að sérdeildin var lögð niður af ýmsum ástæðum þurrkaðist út eða dvínaði sú sérþekking sem þar hafði byggst upp og fylgdi ekki börnum yfir í grunnskólana og framhaldsskólana eins og hefði þurft að vera. Þetta málefni og þjónusta við blinda, sjónskerta og daufblinda hefur verið olnbogabarn í heilbrigðis-, mennta- og félagsþjónustunni og hver hefur vísað þar á annan. Því er það fagnaðarefni að sú vinna sem fór í gang fyrir um tveimur árum, að frumkvæði hæstv. menntamálaráðherra, hafi skilað þeim árangri að hér sé komið fram frumvarp um þekkingarmiðstöð og ég tel að það hafi verið unnið í góðu samráði við neytendur, þá sem málið varðar og hagsmunasamtökin.

Ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi þegar nú er komið fram að þeim degi sem átti að vera síðasti þingdagur fyrir jól að frumvarp sem er meiningin að lögfesta fyrir jól sé unnið í góðri sátt við hagsmunaaðila. Ég tel mikilvægt að hv. félagsmálanefnd sem fær málið til umsagnar gefi sér tíma, þó að fyrirvarinn sé stuttur, til að kalla hagsmunaaðila til sín og þær stofnanir sem eiga að vera uppistaðan í nýrri þjónustumiðstöð og heyra beint frá þeim hvernig þau sjá fyrir sér þetta frumvarp og starfsemi þessarar þjónustumiðstöðvar. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að fá umsögn þessara aðila.

Það er mikilvægt að horfa til þessarar fyrirmyndar og annarra hópa fatlaðra og fötlunar sem er algeng í þjóðfélaginu. Sjónskertir hafa fram til þessa þurft að fara á milli aðila, frá Heródesi til Pílatusar menntamála, félagsmála og heilbrigðismála, til að fá úrlausn og oftar en ekki enga úrlausn vegna þess að enginn einn ber ábyrgð eða hefur heildarsýnina. Það er mjög erfitt að byggja upp sérþekkingu í hverju sveitarfélagi og á hverju sviði. Ég tel miklu farsælla fyrir ákveðna hópa sem búa við fötlun að byggja upp sterka miðstöð þar sem sérþekkingin kemur saman sem er svo hægt að dreifa frá þessari miðstöð út í skólana, til sveitarfélaga og a.m.k. horfa á einstaklingana og viðurkenna rétt þeirra til að geta farið á einn stað og fengið úrlausn sinna mála.

Mér verður hugsað til þeirra sem búa og lifa við heyrnarskerðingu, heyrnarleysi, sem búa við það sama að þurfa að fara á milli, og heyrnarskertra barna sem þurfa oft og tíðum vissa umgjörð í skólaumhverfi sínu til að geta notið sín í skólunum. Oft er þekking ekki til staðar eða ekki nægileg til að leita bestu lausnar. Þekkingarmiðstöð fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa gæti sannarlega orðið þessum aðilum mikill stuðningur.

Ég vil þá nefna líka að í slíkri miðstöð gæti verið sérþekking á erilshávaða sem hefur mikið að segja og truflar mikið þá sem heyrnarskertir eru, að aðstoða kennara við að draga úr erilshávaða í bekkjum og leiðbeina með hjálpartæki. Það mætti einnig nefna lesblinda í þessu sambandi, hvað það er nauðsynlegt að koma upp þjónustumiðstöð fyrir lesblinda þannig að þeir geti farið á einn stað og fengið þar þá þjónustu og þær leiðbeiningar sem á þarf að halda. Þjónusta fyrir lesblinda er mjög dreifð í dag og menn vita varla hvert þeir eiga að fara þannig að ég tel að þetta sé fyrirmynd sem við eigum að horfa til til að koma upp fleiri slíkum.

Hvað varðar blinda og sjónskerta er ljóst að við höfum ekki hugað nægilega vel að endurhæfingu og hjálpartækjum fyrir þá. Það var gleðilegt að fylgjast með því þegar nýir leitarhundar komu núna síðsumars til landsins, vel þjálfaðir hundar sem eru blindum sýn og mjög mikilvæg hjálpartæki.

Auðvitað eigum við að halda áfram að byggja upp þessa þjónustu og nota blindrahunda fyrir þá sem það passar. En þá verðum við líka að gæta þess að þeir einstaklingar sem geta notfært sér blindrahunda sem hjálpartæki fái þá samsvarandi stuðning við það að halda hundana eins og er annars staðar á Norðurlöndunum en þar fá blindir bæði hundana og styrki til að fóðra hundana og til að greiða fyrir dýralækniseftirlit og meðferð á hundunum. Það hallar enn þá töluvert á blinda einstaklinga hér á landi sem nota blindrahunda miðað við þá sem nota blindrahunda annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég er alveg sannfærð um að með stofnun slíkrar þekkingarmiðstöðvar verði ýmis mál af þessum toga skoðuð markvissara en gert hefur verið í dag og það muni þá koma blindum og sjónskertum til góða og að leiðbeiningar bæði fyrir einstaklingana og eins út í umhverfið verði markvissari en er í dag. En ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, að hv. félagsmálanefnd verði gefinn tími til að skoða málið þó að hér eigi að hraða ferð.