136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls mín taka undir þau sjónarmið sem komu fram síðast hjá hv. þm. Atla Gíslasyni, að með þessu er verið að stíga mikilvægt skref til að efla eftirlitshlutverk Alþingis og verið að fara með vissum hætti inn á nýjar brautir og er mikilvægt að það verði gert. Ég fagna því líka hve góð samvinna og samstarf hefur verið milli þeirra flokka á þinginu sem að þessu standa, allra flokka sem eiga fulltrúa á Alþingi.

Það hefur verið afar mikilvægt í störfum allsherjarnefndar að þrátt fyrir áherslumun og í sumum tilvikum mismunandi nálgun og jafnvel skiptar skoðanir innan nefndarinnar hafa allir lagt sitt af mörkum til að ná samstöðu um niðurstöðuna og þess vegna náðum við málinu út úr nefndinni með sameiginlegu nefndaráliti og sameiginlegum breytingartillögum sem allir eru sáttir við. Vissulega var áherslumunur fyrir hendi, eins og kannski hefur birst aðeins í umræðunni í dag, en samstaðan um meginniðurstöðurnar, um nefndarálitið og sjálfar breytingartillögurnar, var mjög góð.

Ég vildi rétt aðeins árétta og taka undir það sem fram kom hjá mörgum hv. þingmönnum sem hér hafa talað, ekki síst Ellerti B. Schram og Atla Gíslasyni, að við erum auðvitað að bregðast við óvenjulegum tímum og óvenjulegum aðstæðum með aðgerðum sem eru á vissan hátt óvenjulegar. Atburðirnir, fall íslensku bankanna og þær efnahagslegu afleiðingar sem eru komnar fram og eiga eftir að koma fram skapa okkur Íslendingum auðvitað gríðarlega erfiða stöðu að mörgu leyti og þess vegna verðum við að fara í ákveðið ferli, ákveðna vinnu til að bregðast við, bæði til að gera upp fortíðina og eins til að læra af svo við getum gert betur í framtíðinni.

Það er mikilvægt í sambandi við mál af þessu tagi, rannsóknarnefnd, að taka fram að enginn sem að þessu máli hefur komið lætur að sér hvarfla að hér geti eða eigi að vera um einhvern hvítþvott fyrir einhvern einstakling eða stofnanir að ræða. Enginn stefnir að því, þvert á móti eru allir sammála um að staðreyndir mála, sannleikurinn eftir því sem hann verður fundinn komi í ljós, allar upplýsingar sem máli skipta komi í ljós og allar staðreyndir verði settar í samhengi eftir því sem nokkur kostur er. Um leið og þetta á ekki að vera hvítþvottur verðum við að gæta þess líka að ekki sé um einhvers konar galdraofsóknir að ræða. Þetta þarf líka að vera yfirveguð, fagleg og vönduð vinna þar sem byggt er á málefnalegum sjónarmiðum og enginn er dæmdur fyrir fram.

Við erum að leitast við að finna leið til að fást við erfið mál með skipulögðum og vitrænum hætti, koma málum í einhvern farveg, koma uppgjöri sem þarf að eiga sér stað í einhvern farveg og vinna vinnu sem getur síðan nýst okkur til framtíðar til að bæta það sem þarf að bæta í samfélaginu.

Taka þarf á mörgum þáttum eins og hefur komið fram í umræðunni. Það eru þjóðhagslegir þættir, það þarf að horfa til þess hvaða áhrif alþjóðlegt umhverfi hafði, efnahagslegir þættir innlendir, hver voru áhrif fjármálakreppunnar, hverjir voru veikleikar íslenska hagkerfisins. Skoða þarf rekstrarlega þætti sem varða starfsemi fjármálafyrirtækjanna, eignarhald, fjármögnun, skuldastöðu og hvers konar atriði önnur sem geta skipt máli í sambandi við fall bankanna. Það þarf að skoða lagalega þætti, lagaumgjörð fjármálamarkaðarins, lagaumgjörð eftirlitskerfisins o.s.frv. Spyrja þarf spurninga um hvort lagaumhverfið hafi brugðist og hvernig og hvernig þurfi að endurskoða það.

Síðan eru það ekki síst þættir sem snúa að stjórnsýslu og stjórnmálum, þar með talið hvernig eftirlitsstofnanir og stjórnsýslan almennt höguðu störfum sínum varðandi fjármálamarkaðinn. Hvort ákvarðanir eða hugsanleg vanræksla af hálfu ráðherra, ráðuneyta, eftirlitsstofnana eða annarra undirstofnana ráðuneyta þeirra hafi átt þátt í því að svo fór sem fór og svo má lengi telja. Þarna undir eru spurningar um starfslega ábyrgð, pólitíska ábyrgð og hvers konar ábyrgð eins og fram hefur komið hér í umræðunni.

Við útfærsluna á þessu verkefni hefur margt skipt máli. Í fyrsta lagi það sem margir ræðumenn hafa vikið að hér, að nefndin verður að vera skipuð með trúverðugum hætti og við í allsherjarnefnd erum á því að sú niðurstaða sem hér liggur fyrir tryggi það. Það er líka mikilvægt atriði sem nefnt hefur verið að fjölbreytt menntun og sérhæfing nýtist við mat á hinum ólíku þáttum í viðfangsefnum nefndarinnar. Við teljum að það sé líka tryggt. Það er líka mikilvægt að tryggja að rannsóknarnefndin hafi möguleika á að afla nauðsynlegra upplýsinga um allt sem máli skiptir, þess vegna eru heimildir hennar mjög rúmar en um leið höfum við haft í huga að gæta verði þess að gætt sé grundvallarsjónarmiða réttarríkisins og mannréttinda. Við teljum að það sé líka gert og gerum raunar, eins og fram hefur komið, ákveðnar breytingartillögur til að undirstrika það enn frekar.

Við teljum því, allsherjarnefndarmenn, að gott frumvarp hafi tekið jákvæðum breytingum í meðförum okkar og teljum að með þessu móti sé þannig gengið frá málum að sú mikilvæga rannsóknarnefnd sem frumvarpið fjallar um geti eftir því sem nokkur möguleiki er unnið starf sitt þannig að það skili þeim árangri sem markmið frumvarpsins gera ráð fyrir.