136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[17:27]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, sem er 237. mál þingsins á þskj. 332.

Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna sem kynnt var 14. nóvember sl. af formönnum stjórnarflokkanna í umfangsmiklum aðgerðapakka. Þetta var ein af þeim hugmyndum sem kynntar voru þá og kemur núna inn í þingið svo við getum freistað þess að afgreiða það fyrir jól. Hér er um að ræða eitt af mikilvægu málunum sem léttir byrði margra. Því er ætlað er að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem ríður nú yfir heiminn, en í áætluninni kemur m.a. fram að áætlað sé að endurskoða lög um dráttarvexti með það að markmiði að þeir vextir lækki.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu varðandi útreikning dráttarvaxta sem miða að því að lækka dráttarvexti. Breytingarnar eru þríþættar.

Í fyrsta lagi er lagt til að dráttarvextir miðist framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana, en í gildandi lögum er kveðið á um að dráttarvextir eigi að vera samtala gildandi algengustu vaxta skammtímalána Seðlabanka til lánastofnana auk 11% álags, þ.e. verið er að lækka álagið um 4%, úr 11 í 7.

Í öðru lagi er lagt til að heimild Seðlabanka til að ákveða annað vanefndaálag ofan á viðmiðunarvexti verði felld brott, en samkvæmt gildandi lögum hefur Seðlabanki Íslands heimild til að ákveða annað vanefndaálag en 11%, þ.e. frá 7% og upp í 15%

Loks er lagt til að Seðlabankinn birti ákvörðun um dráttarvexti fjórum sinnum á ári í stað tvisvar sinnum nú. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að heimilt verði að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta og um fastan hundraðshluta dráttarvaxta, nema þegar um neytendalán er að ræða.

Eins og ég nefndi áðan er þetta eitt af mörgum málum sem voru kynnt í viðamiklum pakka sem formenn stjórnarflokkanna kynntu um daginn til að létta undir með heimilum í landinu. Margt er að sjálfsögðu enn í vinnslu og skoðun og útfærslu. Sumu er hægt að breyta með einföldum lagabreytingum eins og þessum er hafa strax áhrif, sérstaklega á þá sem eiga í mestu erfiðleikunum núna út af fasteignakaupum og tekjusamdrætti og erfiðum og dýrari lánum og því er þetta aðgerð sem ætti að skipta talsverðu máli.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að dráttarvextir miði framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabanka í stað 11% nú. Auk þess er lagt til að heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag verði felld brott. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni lækka um 674 milljónir á árinu 2009. Hins vegar verður ekki séð að frumvarpið muni hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.