136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[17:31]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er hægt að fagna frumvarpinu sem hér liggur fyrir þar sem það miðar að því að lækka dráttarvexti. Við skulum þó gera okkur grein fyrir því að dráttarvextir eru vextir sem leggjast á vegna vanskila og að sjálfsögðu skiptir máli fyrir þá sem vilja komast út úr vanskilum að ekki leggist óhóflegir vextir á þá vanskilaskuld sem um er að ræða. Meginatriði í einu þjóðfélagi er samt sem áður að þjóðfélagsþegnar lendi ekki í vanskilum og komist þannig hjá því að greiða dráttarvexti.

Fyrst verið var að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu hefði ég vænst þess og viljað sjá þann skilning hjá ríkisstjórninni á þeim vanda sem við er að etja hjá flestum fjölskyldum í landinu, og sérstaklega yngra fólkinu, sem hefur þurft að taka verðtryggð lán og aðrar skuldbindingar og verður nú jafnvel að horfa fram á að lánin hækki og verði meiri en þau verðmæti sem keypt voru fyrir viðkomandi lán og það er óviðunandi.

Þá er líka um það að ræða að við búum við Evrópumet í stýrivöxtum Seðlabanka og æskilegt hefði verið, og raunverulega forsenda þess að hér geti risið öflugt atvinnulíf í landinu, að þeir stýrivextir lækki mjög hratt sem allra fyrst og í kjölfar fylgi vaxtalækkun til einstaklinga og fyrirtækja. Það eru forsendur þess að um sé að ræða að eitthvert réttlæti verði í þessu þjóðfélagi. Ég bíð, virðulegi forseti, eftir slíku frumvarpi og vænti þess að ríkisstjórnin muni leggja það fram áður en þetta þing lýkur störfum fyrir næstkomandi áramót því að það er það sem á þarf að halda.

Hér er um að ræða lítið skref í rétta átt hvað það varðar að koma til móts við þá sem eiga í verulegum fjárhagserfiðleikum, þ.e. þá sem lentir eru í vanskilum, en meira þarf að koma til. Frumatriðið er að hér geti búið bjargálna þjóð og að sem flestir geti verið eignafólk. Til þess að það geti orðið verður að vera eðlilegt vaxtaumhverfi, það verður að vera lánaumhverfi sem er í samræmi við það sem gengur og gerist í okkar heimshluta. Það er gjörsamlega útilokað að við getum haldið uppi lífskjörum, staðið undir eðlilegu þjóðfélagi, ef hér eiga að gilda allt önnur lögmál og sjónarmið hvað varðar vexti — og hafa svo verðtryggingu ofan á — en aðrar þjóðir í okkar heimshluta.