136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:37]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil nota tækifærið til að lýsa yfir andstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við frumvarpið. Þar er lagt til að heimild til flutnings aflamarks í botnfiski frá einu fiskveiðiári til þess næsta á eftir verði aukin úr 20% í 33%. Við getum ekki fallist á þetta.

Enn fremur er sagt að heimilt verði að veiða 5% umfram aflamark í humri á einu fiskveiðiári sem dregst frá heimildum næsta árs á eftir. Við gerum ekki ágreining um þann lið. Það er hinn fyrri liður sem við gerum alvarlegar athugasemdir við og þær lúta að því að aukinn flutningur aflamarks milli ára er til þess fallinn að draga úr atvinnu í þeirri neyðarstöðu atvinnuleysis og landflótta sem nú ríkir og er alls ekki tímabær lagasetning við þær aðstæður.

Ég leyfi mér, frú forseti, að vísa að öðru leyti til ræðu minnar um frumvarp um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar sem ég flutti fyrr í dag.