136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:47]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, hv. þingmönnum. Jóni Bjarnasyni, Atla Gíslasyni, Grétari Mar Jónssyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni.

Það sem mér finnst nauðsynlegt að undirstrika varðandi þetta mál er að það að mega flytja allt að 33% veiðiheimilda á milli ára undirstrikar það að engin sérstök vísindi eru á bak við það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. Það er í raun verið að taka og setja inn þannig að það megi vera geðþóttaákvörðun að veiða svona mikið eða svona lítið innan viðkomandi fiskveiðiárs. Það finnst mér skipta hvað mestu máli varðandi afgreiðslu þessa frumvarps.

Þeir sem samþykkja þetta frumvarp eru í raun að segja að vísindaleg vernd fiskimiðanna, sem jú lögin um stjórn fiskveiða byggja á, að sé í raun nokkuð sem skiptir engu máli vegna þess að þó að Hafrannsóknastofnun ákveði ákveðið hámark sem má veiða innan ákveðins árs þá megi bara hafa það eftir hentugleikum eftir því hvort viðkomandi útgerðaraðili telur rétt að fresta að veiða og gera það á næsta ári og veiða þá enn þá meira næst. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á áðan þá er þarna um að ræða allt að 33% af veiðiheimildum og það eru engin vísindi. Það er ekkert annað en glórulaust hvernig að þessu er staðið og eingöngu er verið að ákvarða eftir hentugleikum hverju sinni.

Þegar við í Frjálslynda flokknum höfum haldið því fram að auka mætti fiskveiðikvótann til dæmis á þessu ári þá hafa ýmsir sagt að þar væri verið að fara út yfir eðlileg mörk. Þá spyr ég: Hvað er þá verið að gera með samþykkt þessa frumvarps? Það hefur verið talað um að hér værum við með yfirboð, sem er rangt. Við vorum eingöngu að tala um þá eðlilegu hluti sem um er að ræða miðað við ástandið og lífríki hafsins. En hér er verið að fara út yfir öll mörk og allt sem skiptir máli hvernig eigi að vernda miðað við þann grundvöll sem lagður er upp. Þess vegna finnst mér ábyrgðarhluti ef það á að afgreiða þetta frumvarp héðan frá hv. Alþingi, en það að gera það sýnir í raun að það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við er handónýtt og styðst ekki við neinn vitrænan grundvöll.