136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

Sjúkratryggingastofnun.

[10:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í morgun var efnt til sameiginlegs fundar félagsmálanefndar Alþingis og heilbrigðis- og trygginganefndar þingsins. Umfjöllunarefnið var ágreiningur innan Stjórnarráðsins og óvissa um nýja stofnun sem ákveðið hefur verið að setja á laggirnar, Sjúkratryggingastofnun. Tilurð hennar hefur það í för með sér að starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins verður klofin í herðar niður. Þessi aðgreining innan stjórnsýslunnar kemur til með að kosta skattborgara 250 millj. kr. á ári, fjórðung úr milljarði. En ekki er nóg með að verið sé að skrifa reikninga á skattborgara. Um þessa aðgreiningu og um framtíð þessara stofnana er mikil óvissa og miklar deilur innan Stjórnarráðsins.

Hæstv. forsætisráðherra var spurður í síðustu viku hvað hann hygðist gera í þessu máli til að setja niður deilurnar og draga úr óvissunni sem starfsmenn þessara stofnana búa við. Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvernig hann líti á þessi mál og þann alvarlega ágreining sem uppi er og var öllum ljós sem sátu sameiginlegan fund félagsmálanefndar og heilbrigðis- og trygginganefndar í morgun.