136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

Niðurfelling skulda sjávarútvegsfyrirtækja.

[10:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Sjávarútvegsfyrirtæki gerðu, eins og mjög mörg önnur fyrirtæki, framvirka gjaldeyrissamninga á sínum tíma og þegar fall bankanna átti sér stað, í upphafi októbermánaðar, voru þeir samningar í uppnámi. Þessir samningar eru í eigu gömlu bankanna og nú hafa staðið yfir viðræður milli gömlu bankanna og þeirra nýju um verðmæti þessara krafna. Eins og ég hef skilið málið þá hafa bankarnir verið að búa sig undir að gera tilboð í þessar kröfur með það fyrir augum að kaupa þær úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þetta verður að sjálfsögðu gert á hreinum viðskiptalegum forsendum og til grundvallar verður einfaldlega lagt mat á verðmæti þessara krafna. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, sem er fagráðuneyti á sínu sviði, kemur að sjálfsögðu ekki að því að gera þá samninga sem kunna að verða gerðir á milli gömlu og nýju bankanna með aðkomu útgerðarfyrirtækjanna. Þetta verða einfaldlega samningar sem munu eiga sér stað þar sem lagt verður viðskiptalegt mat á verðmæti þessara krafna.

Ekki er í sjálfu sér verið að auka veðsetningu sjávarútvegsfyrirtækjanna með þessum samningum á milli nýju og gömlu bankanna þannig að spurning hv. þingmanns á sér enga stoð í neinum forsendum. Ráðuneytið kemur heldur ekkert að því að ljúka þeim samningum sem kunna að eiga sér stað á milli þessara tveggja bankafyrirtækja og síðan útvegsins. Hér er einfaldlega um að ræða viðskiptalegan gjörning sem ég veit ekki til að hafi farið fram en auðvitað er mér kunnugt um að þessar viðræður hafa staðið yfir.