136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

undirbúningur álversframkvæmda.

[10:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þeir hljóta að gleðjast mikið í dag sem kenna sig við umhverfisvernd á þingi og utan þess. Í okkar huga sem viljum byggja hér upp öflugt atvinnulíf er þetta svartur dagur vegna þeirra frétta sem við fengum í morgun um að slegið hafi verið á frest þeim framkvæmdum sem voru í pípunum við uppbyggingu stóriðju. Þeir gleðjast aftur á móti sem stóðu fyrir því að stækkunin fór ekki í gegn í Straumsvík á sínum tíma og væri farin að skila þjóðarbúinu miklum tekjum og atvinnutækifærum í dag, þeir gleðjast sem stigu stríðsdans þegar Bitra var slegin af, m.a. með þeim afleiðingum að norskt fyrirtæki hætti við að koma til Íslands með starfsemi sína. Þeir gleðjast eflaust yfir því að það gengur illa að fjármagna framkvæmdir í Helguvík og nú yfir þessu sem við heyrum um stækkun skauta í Straumsvík og Alcoa.

Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að greiða götu þeirra fyrirtækja sem vilja standa hér að uppbyggingu atvinnulífs í framtíðinni og þeim auðveldað að koma hingað og hefja starfsemi á landinu. Þróun nokkurra undanfarinna ára hefur verið sú að auka mjög umsvif úttekta og mats umhverfisáhrifa þannig að þetta er orðinn verulega íþyngjandi þáttur í atvinnuuppbyggingu í landinu. Við höfum séð það gerast á Bakka á Húsavík og á fleiri stöðum. Ég held að hér sé mjög nauðsynlegt að spýta í.

Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann taki ekki undir með mér sem tek undir með ályktun af ASÍ-þingi núna síðast um að fara þurfi að einfalda ferla og stytta verkferla í umhverfismati án þess að það sé þó gert með því að kasta einhverri rýrð á náttúruvernd eða mikilvægi þess en markmiðið sé klárlega að greiða frekar leið þeirra fyrirtækja sem vilja hefja starfsemi á Íslandi þannig að við megum byggja hér upp öflugt atvinnulíf byggt á nýtingu náttúruauðlinda landsins.