136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

undirbúningur álversframkvæmda.

[10:48]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Kröfur hafa komið úr röðum þeirra sem einkum hafa sinnt stórum framkvæmdum um að umhverfismatið verði einfaldlega slegið af. Við heyrðum slíkar fullyrðingar í upphafi bankakrísunnar. Ég hef hins vegar tekið undir með þeim sem eru ábyrgir á sviði framkvæmda stóriðju og virkjunar þegar þeir hafa afdráttarlaust sagt að þeir hafi engar óskir um það að menn mundu breyta lögum til að taka umhverfismatið frá.

Ég held að það kerfi sem við höfum búið við undanfarin ár og höfum smám saman verið að bæta sé að mörgu leyti mjög gott. Það er ekki hægt að kenna því um, eins og einstakir þingmenn hafa gert, að við höfum glatað tækifærum. Ég held miklu frekar, og sel mig undir þá sök eins og aðra handhafa framkvæmdarvaldsins, að það skipti máli að ýmiss konar frestir sem veittir eru lögum samkvæmt séu haldnir. Það hefur borið við á undanförnum missirum og árum að þeir frestir hafa tafist langt umfram það sem heimilt er samkvæmt lögunum. Þar hefur mitt ráðuneyti verið selt undir þá sök eins og önnur ráðuneyti. Ég hef gert reka að því að það endurtaki sig ekki í framtíðinni. Við höfum sett upp verkferla hjá okkur sem eiga að tryggja að svo verði ekki.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði og vísaði til fregna í dag eru þær ekki alls kostar réttar. Til dæmis er þar vísað í samtal sem ég átti við forustukonu Alcans í Kanada, Jacynthe Côté, og úr því samtali er haft að hún hafi tilkynnt mér að fyrirtækið hafi hætt við tiltekin áform. Það er hugsanlegt að enskukunnátta mín sé svona slök en ég skildi ekki samtalið á þann veg og þessar upplýsingar voru ekki bornar undir mig til staðfestingar þannig að þær hafa með einhverjum öðrum hætti komist á flot.