136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

undirbúningur álversframkvæmda.

[10:50]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég treysti enskukunnáttu hæstv. iðnaðarráðherra mjög vel. Ég vona að hann tali hér rétt og þetta sé kannski ekki eins alvarlegt og það lítur út fyrir að vera. En það er þannig að náttúruvernd á Íslandi mun alltaf þurfa að bera keim af því að vera samspil milli verndar og nýtingar. Þessi þjóð hefur ekki efni á öðru en að nýta auðlindir sínar og það sem skiptir okkur öllu máli er hvernig við ætlum að standa að þeirri nýtingu í framtíðinni til að byggja upp mannvænlegt samfélag áfram.

Það regluverk sem við höfum byggt upp í kringum umhverfismat þykir orðið mjög þungt, og aðilum sem koma að þessum málum á vinnumarkaðnum þykir það orðið þungt. Samtök iðnaðarins hafa haft orð á þessu í gegnum tíðina og nú síðast var þetta ályktun á ASÍ-þingi um að það þyrfti að fara í þessa vinnu, einfalda þetta regluverk, þó án þess að skerða markmið þess en einfalda það með þeim hætti að atvinnuuppbygging og nýting náttúruauðlinda (Forseti hringir.) ætti greiðari leið inn í íslenskt samfélag.