136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

undirbúningur álversframkvæmda.

[10:52]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég kannast ekki við dæmi sem eru þannig að það sé hægt beinlínis að segja að einhverjar tilteknar framkvæmdir hafi skerst eða menn fallið frá þeim eða hætt við að fjárfesta á Íslandi vegna þessa regluverks sem hv. þingmaður nefnir. Það sem menn hafa fett fingur út í er sú staðreynd að andmælendur framkvæmda hafa lögboðinn rétt til að koma andmælum sínum á framfæri. Þannig er lýðræðið. Þannig á lýðræðið að byggjast upp. Það á að byggjast upp á skoðanaskiptum og ef því er að skipta hugmyndalegum átökum á milli þeirra sem vilja ráðast í tilteknar framkvæmdir og svo hinna sem hafa ýmis rök gegn því. Ég tel að þau andmæli sem ýmsir þeir sem hv. þingmaður kallar náttúruverndarsinna hafa komið á framfæri hafi stundum orðið til þess að bæta framkvæmdina þegar upp er staðið. Ég er almennt þeirrar skoðunar að við eigum að nýta orkulindirnar með hóflegum hætti til að byggja upp iðnað, stóriðnað ef því er að skipta. Ég held að við eigum gæta þess hins vegar (Forseti hringir.) að setja ekki öll okkar egg í sömu körfu. Ég hef t.d. verið talsmaður þess að við reyndum að fá annars konar iðnað en bara áliðnað til Íslands. Ég tel að það sé mjög mikilvægt til að dreifa áhættu íslensks efnahagslífs.