136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

neyðarráð embættismanna og sameining Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.

[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Sundurlausar spurningar af þessu tagi þjóna ekki miklum tilgangi, sýnist mér. En svo ég svari fyrri spurningunni sem fram kom hjá hv. þingmanni talar hann enn um neyðarráð, ég er nýbúinn að segja að það er ekkert til í okkar kerfi sem heitir neyðarráð. Það er hér samráðshópur undir stjórn ráðuneytisstjórans í forsætisráðuneytinu. Hann heitir Bolli Þór Bollason, ef hv. þingmanni finnst það skipta máli.

Varðandi það hverjir mæta á einstaka fundi ráðherra með bankastjórn Seðlabankans eða öðrum aðilum eru það auðvitað yfirleitt formenn stjórnarflokkanna sem koma sér saman um hverjir mæta þar og hverjir mæta ekki. Þannig er það. Það er ekki endilega alltaf sama fólkið eða sömu ráðherrarnir sem mæta til slíkra funda. Það fer eftir efni máls, aðstæðum og umræðuefni.