136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

uppbygging orkufrekra fyrirtækja.

[11:01]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar svona spurningaflaumur dynur á manni er kannski alveg óþarfi að svara því að fyrirspyrjandinn er búinn að gefa sér allar niðurstöður fyrir fram. Þetta heita „hlaðnar spurningar“ á erlendum tungumálum.

Ég skal fara yfir þær, hæstv. forseti. Vegna uppbyggingar álvers í Helguvík hefur frá því snemma á þessu ári allt legið fyrir, öll leyfi sem þarf að hafa. Það er þá fyrirtækisins að klára þær fyrirætlanir ef það ætlar að klára þær þannig að það er engin fyrirstaða í því efni eins og hv. fyrirspyrjandi heldur fram.

Hvað varðar Rio Tinto Alcan í Straumsvík fæ ég að vitna í svar hæstv. iðnaðarráðherra til annars fyrirspyrjanda áðan þar sem dregið var til baka það sem fram kom í blöðunum í dag. Það er í raun og veru ekki um neitt slíkt að ræða eins og hv. fyrirspyrjandi heldur fram.

Hvað varðar Bakka eru þau mál algjörlega á sínum stað. Ef menn hafa einhvern áhuga á því að reisa álver á Bakka — Alcoa hefur einhvern áhuga á því — gera þeir það. Við skulum muna eftir því að það var Alcoa sem vildi fá viljayfirlýsingu til þriggja ára en ekki 15 mánaða eins og varð niðurstaðan. Það segir kannski þingmönnum eitthvað um áhuga þess fyrirtækis að þeirri uppbyggingu.

Og hvað varðar norska fyrirtækið REC Group sem hv. þingmaður talaði um er það einfaldlega ósatt að það hafi verið umhverfismat sem hafi komið í veg fyrir framkvæmdir þess. Þeir ágætu menn ákváðu að fara til Kanada þegar ekki var hægt að tryggja orkuöflun til 2. áfanga og orkan í Kanada var ódýrari en á Íslandi.

Að síðustu mótmæli ég því sem hv. þingmaður heldur fram, að ég hafi sérstaklega barist gegn uppbyggingu gagnavera hér á landi. Það hef ég ekki gert. Við höfum unnið þetta saman, við hæstv. iðnaðarráðherra, og það stendur ekkert í vegi þess að byggja upp slík gagnaver hér sé orka fyrir hendi.