136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrrverandi formanni fjárlaganefndar, Magnúsi Stefánssyni, fyrir þessar tvær spurningar. Fyrri spurningin fjallaði um hvort hægt hefði verið að afgreiða þessar tillögur út úr nefndinni eins og komið var varðandi þær upplýsingar sem við höfðum. Ég get svarað því svo að meiri hlutanum þótti það greinilega því að tillögurnar eru komnar til umræðu núna. Það liggur því alveg skýrt fyrir.

Hins vegar vil ég ítreka það sem ég sagði áðan í andsvari mínu að ég hefði viljað hafa rýmri tíma. Ég hefði líka viljað hafa enn betri upplýsingar og geri ráð fyrir að það eigi við um alla í fjárlaganefndinni.

Þess vegna var tekin sú ákvörðun að tillögur ríkisstjórnarinnar sem komu fram í síðustu viku væru einungis til umfjöllunar við 2. umr. en ekki þær tillögur aðrar sem væntanlega verða teknar upp við 3. umr. í ljósi þess að fleiri upplýsingar eiga eftir að berast okkur. Það er svarið við síðari spurningunni, virðulegi forseti, það er tiltrú mín að þessar upplýsingar muni berast og ég mun einfaldlega leggjast á bæn og biðja þess að þær berist nú á næstu dögum, sérstaklega í ljósi þess að fjáraukalagafrumvarpið verður lagt fram í dag.