136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vék að því hér áðan hvað það væri mikilvægt að halda vel utan um reksturinn á næsta ári, sérstaklega í ljósi þess ástands sem við stöndum frammi fyrir. Það er mikilvægt að framkvæmd fjárlaga sé með réttum hætti.

Hins vegar er það svo að gengið er inn í vel flestar stofnanir af hálfu ríkisins. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að á mjög mörgum stofnunum verður erfitt að láta enda ná saman eins og víða annars staðar í þjóðfélaginu. Þess vegna skiptir verulegu máli að Alþingi, ráðuneytin og ekki síst fjármálaráðuneytið séu á vaktinni. Ég veit að sveitarstjórnir ætla almennt séð að taka upp áætlunargerð strax á vormánuðum.

Mér finnst það ekki vera eitthvað sem við þurfum að hræðast að frumvarpið og lögin verði tekin upp oftar en hefur verið á undanförnum árum. Við eigum að horfa til þess að nauðsynlegt geti reynst að gera (Forseti hringir.) breytingar.