136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fullyrði að nefndarálit meiri hlutans er núll og nix. Það er ekkert í því, það er ótrúlega rýrt. Við erum að fjalla um stefnumótandi skjal og fáum ekkert að vita enda kannski ekki mikið hægt að segja. Þá skulu menn bara viðurkenna það.

Ég heyri að það er smáskilningur á því hjá hv. þm. Gunnari Svavarssyni. Ég vil bara fá það skýrt fram hjá leiðtoga meiri hlutans í fjárlagagerðinni hvort ekki sé rétt skilið hjá mér að taka eigi upp fjárlögin mjög fljótlega eftir að þau hafa verið samþykkt. Það hlýtur þá að þýða að samþykkt verða fjárlög bara til stutts tíma. Við getum ekki samþykkt fjárlög til eins árs. Það er ekki hægt í stöðunni af því við fáum engin gögn. Við vitum ekki hvaða forsendur liggja að baki. Þær eru ekki til.

Þetta hljóta því að verða skammtímafjárlög. Svo vil ég líka segja að það er niðurlægjandi fyrir þingið að fá sendar tillögur frá ríkisstjórninni og hafa engan tíma til þess að skoða þær, (Gripið fram í.) engan tíma til að gera eitthvað við þær. Það er niðurlægjandi staða.