136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ítarlega ræðu en verð þó að lýsa vonbrigðum mínum með að fátt var um viðbótartillögur eða hugmyndir um hvaða upphæðir ætti að glíma við. Margt af því sem var sagt voru hreinir og klárir útúrsnúningar úr því sem þó kemur fram í tillögum meiri hlutans með fjárlögunum.

Sjálfur gagnrýnir hv. þingmaður að ekki liggi fyrir hver vaxtakostnaðurinn sé en í nefndaráliti frá minni hlutanum kemur fram að hann áætlar 300 millj. kr. á þremur árum og í fjárlagafrumvarpinu er einmitt gert ráð fyrir 104 milljörðum kr. árið 2009.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvern hann telur vera eðlilegan halla, við skulum segja í prósentum. Mig langar líka að spyrja — ég á nú eftir að eiga betri orðastað við hann varðandi forgangsröðunina: Er 45 milljarða kr. niðurskurður og um það bil 3% (Forseti hringir.) niðurskurður á einstökum stofnunum eins og mennta- og heilbrigðisstofnunum (Forseti hringir.) of í lagt miðað við horfurnar í efnahagslífinu í dag?