136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[13:30]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 fer nú fram við mjög óvenjulegar og í reynd einstæðar aðstæður. Við sem þjóð stöndum í raun frammi fyrir gríðarlega erfiðu og flóknu verkefni við að vinna okkur út úr þeim ótrúlegu aðstæðum sem við erum komin í og svo að ég tali fyrir mig finnst mér að fyrir fram hafi þetta verið óhugsandi aðstæður.

Októbermánuður 2008 mun um ókomna tíð vera ein af lykiltímasetningum í sögu landsins þar sem yfir 80% bankakerfisins féll nánast í einu vetvangi. Íslenska þjóðin og efnahagskerfið urðu fyrir miklu áfalli við þessa atburði og því má halda fram að aldrei í heimssögunni hafa aðrar eins hamfarir átt sér stað í einu landi, ekki síst ef litið er til umfangs efnahagskerfisins. Almenningur stendur nú frammi fyrir auknu atvinnuleysi, minnkandi tekjum, hærri sköttum og álögum, auknum framfærslukostnaði og lækkandi eignavirði ásamt hinu himinháa vaxtastigi og mikilli verðbólgu sem nú geisar. Á sama tíma og skuldir aukast, hvort sem um er að ræða verðtryggðar, óverðtryggðar eða gengistryggðar, fellur kaupmáttur ráðstöfunartekna. Það er, virðulegi forseti, sá ískaldi veruleiki sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.

Undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um aðdraganda þessara atburða. Margir aðilar, innlendir og erlendir, höfðu haft uppi viðvörunarorð til stjórnvalda um að í aðsigi væru mikil vandræði í efnahagsmálum. Því miður lét ríkisstjórnin þessar viðvaranir sem vind um eyru þjóta. Síðustu 12–15 mánuði hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar haft uppi yfirlýsingar um að allt væri í besta standi og fram undan væri betri tíð í efnahagsmálum. Nú hefur komið í ljós að á sama tíma voru ráðherrar ítrekað varaðir við ótryggu ástandi og sagt að þörf væri á því að bregðast við ef ekki ætti illa að fara.

Það er ljóst að stjórnvöld hafa í mörgum tilfellum brugðist skyldum sínum. Það liggur líka fyrir að samskipti innan ríkisstjórnarinnar og í raun innan stjórnsýslunnar hafa verið með þeim hætti að það bauð hættunni heim. Nefna má sem dæmi að enginn kannast við að hafa átt samtöl við seðlabankastjóra sem segist hafa varað ráðherra við yfirvofandi hættu varðandi bankakerfið. Tveir hæstv. ráðherrar virðast hafa átt aðild að einhverjum dýrasta misskilningi sögunnar í samskiptum sínum við fjármálaráðherra Breta í aðdraganda þess að beitt var hryðjuverkalögum á eigur Íslendinga í Bretlandi.

Það má nefna margt fleira sem er gagnrýnisvert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum. Af nógu er að taka sem hefur komið fram í umræðunni en ég ætla ekki að eyða lengri tíma í þau mál. Ég vísa til nefndarálits minni hluta fjárlaganefndar þar sem ýmislegt er dregið fram.

Frumvarp til fjárlaga 2009 var lagt fram í byrjun þings í október og fór til umfjöllunar og vinnslu í fjárlaganefnd eins og lög gera ráð fyrir. En nánast á sama tíma reið fall bankanna yfir og öllum var ljóst að við þá atburði brustu forsendur fjárlaganna. Í framhaldinu mun lítið hafa verið fjallað um frumvarpið í fjárlaganefnd vikum saman. Ég tek fram að ég er nýkominn til starfa í fjárlaganefnd þannig að ég tala út frá því sem ég hef heyrt um. Hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin tóku frumvarpið aftur í sínar hendur með vilja og stuðningi þingmanna stjórnarflokkanna. Fjárlaganefndin fékk breytingartillögur ríkisstjórnarinnar á sitt borð fyrir fjórum dögum, nánast nýtt frumvarp. Um sólarhring síðar afgreiddi meiri hluti fjárlaganefndar frumvarpið úr nefndinni til 2. umr. Í raun og veru var ekkert svigrúm fyrir fjárlaganefnd til að fara eðlilega yfir tillögurnar og meta áhrif þeirra. Við í minni hluta fjárlaganefndar höfum gagnrýnt það og komum því á framfæri þegar meiri hlutinn ákvað að afgreiða málið með þessum hætti úr nefndinni. En áður en það gerðist lagði minni hlutinn fram ýmsar spurningar sem við óskuðum eftir að fá svör við og var þeim beint til fjármálaráðuneytisins. Það verður að segjast, virðulegi forseti, að svör við spurningum okkar voru vægast sagt mjög fátækleg. Ég ætla að nefna örfáar af þeim fjölmörgu spurningum sem minni hlutinn lagði fram.

Við spurðum um nýja þjóðhagsspá. Það væru gerbreyttar aðstæður og því væri þörf á að gera nýja þjóðhagsspá. Við spurðumst fyrir um hvort eitthvað slíkt lægi fyrir núna áður en fjárlög yrðu afgreidd. Svörin voru þau að ný, endurskoðuð þjóðhagsspá verði lögð fram í janúar. Spurt var fyrir síðustu helgi hver yrði væntanleg rekstrarniðurstaða ríkissjóðs árið 2008. Þá var vísað til fjáraukalagafrumvarps sem hafði ekki komið fram en eins og kom fram í umræðum í dag var það lagt fram á Alþingi í morgun. Það er í raun og veru með ólíkindum að meiri hluti fjárlaganefndar skuli hafa ákveðið að afgreiða frumvarpið úr nefndinni á föstudaginn án þess að frumvarp til fjáraukalaga lægi fyrir þannig að menn gætu gert sér grein fyrir stöðu málsins. Við spurðum um áætlaðar vaxtatekjur á síðasta ári. Þá var vísað í tillögur sem eru væntanlegar fyrir 3. umr. fjárlaga. Allt í lagi með það, við munum fjalla um þær þegar þar að kemur.

Eitt af því sem spurt var um var hvernig búvörusamningar við bændur yrðu meðhöndlaðir. Í svari ráðuneytisins var vísað í forsendur upphaflega fjárlagafrumvarpsins um verðlagsuppfærslur upp á 5,7% að meðaltali yfir næsta ár. Við sem höfum fylgst með þróun verðbólgu undanfarið og séð þær spár sem menn hafa verið að velta fyrir sér miðað við næsta ár sjáum að þarna er um verulega skert framlög að ræða.

Það eru auðvitað fjölmargar fleiri spurningar sem væri vert að fara yfir en ég vísa í fylgiskjöl með nefndaráliti minni hlutans þar sem þær koma fram sem og svör ráðuneytisins við þeim. En það er sem sagt ekki búið að endurmeta þjóðhagsspána. Vísað er til þess að hún muni koma fram í janúar en hún er auðvitað ein mikilvægasta forsendan fyrir fjárlögunum. Við höfum ekki endurskoðaða spá og þess vegna teljum við í minni hlutanum að við séum hreinlega ekki í stakk búin til að fjalla um þessar breytingartillögur við frumvarpið eins og það liggur fyrir.

Það eru engar greiðsluáætlanir, engar rekstraráætlanir, engin stefnumótun um ríkisfjármálin og það hafa ekki verið lagðar fram áætlanir um lántökur eða lánsfjárþörf ríkissjóðs á næstu árum eða lánakjör. Við höfum kallað eftir því hvernig menn sjá fyrir sér að þjóðin vinni sig í gegnum vandann á tveimur til þremur árum eins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gerir ráð fyrir. Slíkar upplýsingar hafa ekki komið fram. Það má segja, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, fyrst og fremst þó ríkisstjórnin, skili auðu varðandi margar grundvallarforsendur frumvarpsins. Ég verð að segja að mér finnst aumt að a.m.k. fjármálaráðuneytið skuli ekki sýna neina viðleitni til að reyna að draga fram hvað við erum að tala um þannig að fjárlaganefndin og þingið geti með einhverjum hætti gert sér grein fyrir hvað er í gangi. Við mótmæltum því í minni hlutanum að frumvarpið yrði afgreitt úr nefnd með þeim hætti sem gert var og með þeim rökum sem við höfum farið yfir. En taka ber fram að við gerum ráð fyrir því að fá ýmsar upplýsingar, a.m.k. tillögur, þegar nefndin mun fjalla um frumvarpið fyrir 3. umr. Við verðum auðvitað að lifa í þeirri von — kannski er hún mjög veik — að nefndin fái frekari gögn frá fjármálaráðuneytinu þannig að menn geti áttað sig á því hvað er í gangi. Ég veit að hv. formaður fjárlaganefndar mun ganga eftir því. Ég hef orðið var við það að hann er mjög harður í horn að taka þótt því miður sé árangurinn allt of lítill.

Ég verð að segja að ef ekki koma frekari upplýsingar af þessu tagi er það að mínu mati ábyrgðarlaust að afgreiða fjárlög án þess að þingið viti hvað að baki liggur. Það er hins vegar, eins og við vitum, lögbundið að slíkt skuli gert.

Ég nefni enn einu sinni að frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram í dag og ítreka að mér finnst með ólíkindum að meiri hlutinn skuli hafa ákveðið að afgreiða frumvarpið til 2. umr. án þess að vita í raun og veru hvert stefndi í ríkisrekstrinum á árinu 2008.

Hæstv. forseti. Eins og við vitum stefnir í stórfellda skuldsetningu ríkissjóðs á næstu árum. Við höfum kallað eftir einhverri áætlun um hvaða stærðir geti verið þar að ræða, lánakjör og greiðsluáætlanir, og ég hef þegar farið yfir það. Við í minni hluta fjárlaganefndar reyndum að reyna að átta okkur á því hvert umfangið gæti verið, til og með árinu 2011. Ég ætla að hlaupa yfir nokkrar tölur sem við komumst yfir og ég held að þessi lauslega áætlun okkar sé ekkert vitlausari en hvað annað, að minnsta kosti hefur engin áætlun komið frá fjármálaráðuneytinu.

Samkvæmt upplýsingum sem við fengum í Seðlabankanum voru skuldir ríkissjóðs í lok október sl. 564 milljarðar. Áætlað er að halli fjárlaga 2008 samkvæmt fjáraukafrumvarpinu sem kom fram í morgun sé um 5 milljarðar þannig að skuldir ríkissjóðs verða í upphafi árs 2009 um 570 milljarðar. Við teljum að halli ríkissjóðs samanlagt til og með árinu 2011 geti numið allt að 500 milljörðum eða tæplega fjárlögum eins árs. Þar af teljum við að halli á fjárlögum ársins 2009, þegar upp verður staðið, geti nálgast 200 milljarða. Komið hefur fram að fjármögnun nýju ríkisbankanna sé einhvers staðar nálægt 385 milljörðum en gert er ráð fyrir að ríkissjóður gefi út skuldabréf fyrir því. Við áætlum að endurfjárþörf Seðlabankans gæti numið um 150 milljörðum.

Þá er ég kominn að því máli sem enginn veit hvernig mun enda, þ.e. uppgjör á hinum svonefndu Icesave-innstæðum í Bretlandi og Hollandi. Ýmsar tölur hafa flogið í því sambandi en við teljum að það geti verið allt að 600 milljarðar, vonandi miklu minna en um það ríkir alger óvissa. Samkvæmt þessu lauslega mati okkar erum við að tala um að fjármögnunarþörf ríkissjóðs út árið 2011 geti verið einhvers staðar nálægt 1.700 milljörðum en að sjálfsögðu eru allir fyrirvarar settir við það enda er óvissan mikil og við höfum ekki fengið neinar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um það. Ljóst er að ef lánsfjárþörf ríkisins verður eitthvað með þessum hætti sjáum við fram á gríðarlegan vaxtakostnað ríkissjóðs á næstu árum.

Fram undan eru gríðarlegir erfiðleikar í ríkisfjármálum. Við sjáum fram á mikið tekjufall. Raunar lít ég svo á að tekjuáætlun frumvarpsins sé ófrágengin og ekki fullgerð. Ég á von á því að það komi einhverjar breytingartillögur fyrir 3. umr. um lækkun á tekjuáætlun. Viðskiptabankarnir sem féllu skiluðu um 13 milljörðum í tekjusköttum til ríkissjóðs á þessu ári. Við vitum að miklir erfiðleikar eru í atvinnulífinu og að sjálfsögðu allt útlit fyrir að tekjuskattstekjur af lögaðilum muni falla. Það er því skoðun mín og mat að tekjuáætlun komi endurskoðuð fyrir 3. umr. með lægri tölu. Ég vona að sjálfsögðu að svo verði ekki en ég óttast að það gerist.

Við sjáum fram á að það eru lækkanir á mörkuðum erlendis fyrir íslenskar vörur. Komið hefur fram að heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað. Við höfum upplýsingar um að verð á sérstaklega dýrari sjávarafurðum hafi lækkað og við fengum fréttir af því í morgun að nú hafi þau fyrirtæki sem hafa haft uppi áform um uppbyggingu eða stækkun álveranna slegið því á frest. Það er því ekki beint bjart yfir þessum málum, því miður. En á sama tíma eykst þrýstingur á útgjöld, sérstaklega í velferðarmálum og það stafar auðvitað af versnandi ástandi í þjóðfélaginu almennt.

Áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir því að jafnvægi náist í ríkisfjármálum á tveimur til þremur árum. Það þýðir að sjálfsögðu að ef ná á þeim árangri þarf að ráðast í verulegan niðurskurð á útgjöldum. Ég held að menn hljóti að sjá að það eru ekki margir aðrir möguleikar fyrir hendi. Áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins geri ráð fyrir að fjárlagahallinn á árinu 2009 verði einhvers staðar á bilinu 165–170 milljarðar en eins og ég sagði áðan kæmi mér ekki á óvart að hann yrði meiri og vísa ég m.a. í að það er innbyggður halli í kerfinu og margar stofnanir hafa verið í rekstrarvanda.

Síðan endurtek ég það sem ég sagði áðan, það liggur ekki enn þá fyrir hver vaxtakostnaðurinn er áætlaður á næsta ári. Ég geri ráð fyrir að tillögur um það komi fram fyrir 3. umr. en það er alveg ljóst að við erum að tala þar um tugi milljarða, sennilega eitthvað nálægt 100 milljörðum á næsta ári sem er auðvitað gríðarleg fjárhæð. En við allar þessar aðstæður er auðvitað, má segja, velferðarkerfið í hættu. Ég gagnrýni þau vinnubrögð sem koma fram í breytingartillögum meiri hlutans sem byggja á tillögum ríkisstjórnarinnar, þar er gert ráð fyrir flötum niðurskurði á allar stofnanir þó að við vitum að margar stofnanir hafa verið í rekstrarhalla, þó að í fjáraukalagafrumvarpinu sem liggur fyrir núna sé að hluta til tekið á því hjá nokkrum stofnunum.

Það liggur fyrir að ýmsar heilbrigðisstofnanir eru í miklum rekstrarvanda. Ef ég man rétt kemur fram í áliti minni hluta heilbrigðisnefndar sem byggja á upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu að halli heilbrigðisstofnananna sé einhvers staðar nálægt 2,2 milljörðum. Eins og ég sagði er að einhverju leyti verið að taka á því í fjáraukalagafrumvarpi með fjárlagafrumvarpinu. Það stefnir líka í mikinn halla á Landspítalanum, ef ég man rétt um 2 milljarða, en það eru líka einhverjar tillögur um að taka á því að hluta í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð, svona flatan niðurskurð án þess að menn hafi farið yfir hverja stofnun fyrir sig og reynt að finna út úr því hvernig megi leysa þessi mál og hvernig þetta kemur fyrir. Það væri fróðlegt að heyra hvort forustumenn fjárlaganefndar hafa einhverjar hugmyndir um hvernig á að vinna úr þessu á næsta ári og næstu árum, eða jafnvel fjármálaráðherra sem því miður er ekki við þessa umræðu á þessari stundu. Reyndar vek ég athygli á því, virðulegi forseti, að það er ekki einn einasti ráðherra við 2. umr. um fjárlög sem er meginumræðan um fjárlagafrumvarpið. Þetta er kannski eitt dæmið af mörgum um það hvaða virðingu hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýna Alþingi, eða hitt þó heldur. Að vísu er hæstv. félagsmálaráðherra í hliðarsal.

Í breytingartillögum meiri hlutans er vandanum velt yfir á almenning og sjúklinga og þá sem þurfa á velferðarþjónustunni að halda. Það má nefna hækkun á tekjuskatti sem fellur auðvitað á þá sem eru vinnandi. Það er verið að hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir og það er gert ráð fyrir að auka greiðsluþátttöku vegna lyfja. Fleira mætti nefna. Það er holt og bolt um allt frumvarp verið að skera niður útgjöld. Nefna má rannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun en auðvitað vitum við að í því árferði sem er fram undan er kannski aldrei meiri þörf á að efla nýsköpun og atvinnuþróun. Það er verið að klippa á það eins og annað.

Ef maður rennir yfir þessar tillögur er verið að skera niður stórar og smáar fjárhæðir um allt frumvarpið og að mörgu leyti kemur það illa niður víða úti um landið. Það er alls kyns starfsemi sem verður hnífnum að bráð og ég sé því miður fyrir mér að þetta muni þýða að þó nokkuð margir muni missa atvinnu vegna þess að rekstur stofnana hefur ekki fjárheimildir til að reka sig og þá þarf auðvitað að skera niður starfsemina. Við þekkjum það að í mörgum tilfellum er launakostnaður uppistaðan í útgjöldunum og t.d. í heilbrigðiskerfi má áætla að launakostnaður sé einhvers staðar nálægt 80% af útgjöldunum.

Ég vil líka, virðulegi forseti, koma inn á það að ég lýsi miklum áhyggjum af stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það má segja að þau séu skilin eftir í hálfgerðu uppnámi. Það er ljóst að framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga dragast verulega saman vegna minnkandi skatttekna og í þessum breytingartillögum er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir að jöfnunarsjóður fái aukaframlag frá ríkisstjórninni eins og hefur verið undanfarin ár. Við þekkjum það sem þekkjum til sveitarstjórnarstigsins að þessi framlög frá Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna, að ég tali ekki um aukaframlagið, hafa skipt sköpum fyrir mörg sveitarfélög. Að vísu eru þau misjafnlega sett fjárhagslega en ég óttast að þetta muni koma allillilega niður á mörgum sveitarfélögum ef niðurstaðan verður þessi. Hins vegar ber auðvitað að geta þess að það er gert ráð fyrir því að heimild sveitarfélaga til álagningar útsvars verði hækkuð en ég fullyrði að sú útsvarshækkun muni ekki vega á móti fjármunum sem ýmis sveitarfélög munu tapa af minnkandi framlögum úr jöfnunarsjóði. Ég ítreka að ég lýsi miklum áhyggjum af hagsmunum sveitarfélaganna í landinu svo ég tali ekki um ýmislegt annað sem því tengist.

Það er auðvitað eðli stjórnarandstöðunnar að gagnrýna stjórnarmeirihlutann og finna að því sem gert er og jafnframt hlýtur þá að vera eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn kalli eftir tillögum stjórnarandstöðunnar, hvernig menn vilja vinna málið með öðrum hætti. Ég vil hins vegar segja það, virðulegi forseti, okkur til málsbóta að það er á vissan hátt mjög óeðlilegt að krefja okkur um tillögur við þær aðstæður sem nú eru uppi. Fjárlaganefndin hefur mjög lítið tekið tíma í að fara yfir þessar tillögur og grunnforsendur liggja ekki fyrir. Fjáraukalagafrumvarpið lá ekki fyrir fyrr en í dag þannig að fleira mætti nefna í því sambandi.

Fjárlaganefndin lauk umfjöllun um þessar tillögur á einum sólarhring og ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst í raun og veru miklu eðlilegra að spyrja hvernig í ósköpunum meiri hlutinn lætur sig hafa það að afgreiða málið út úr fjárlaganefnd við þessar aðstæður í stað þess að gefa því lengri tíma. Ég geri mér grein fyrir því að tíminn er ekki ótakmarkaður, það styttist í áramótin og allt það, en þetta eru hins vegar ekki góð vinnubrögð. Ég geri mér þó grein fyrir því, eins og ég tel að allir geri, hver staða mála er sem er til komin, a.m.k. að miklu leyti, vegna aðgerðaleysis eða framgöngu ríkisstjórnarinnar á síðustu mánuðum, því miður. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná jafnvægi, t.d. ef við lítum til samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, verðum við annaðhvort að auka tekjurnar eða skera niður gjöldin. Það er svo einföld regla — nema hvort tveggja sé auðvitað. Ríkisstjórnin verður að hafa einhverja stefnu í þessum málum og ég lít svo á að hún liggi ekki fyrir, hún er ekki til nema stefnan sé sú að hafa ekki stefnu en það er ljóst að það þarf að forgangsraða upp á nýtt í öllum ríkisútgjöldum út frá aðstæðunum. Útlitið gefur ekki tilefni til annars.

Þar sem ég er að tala um stefnu vil ég nefna að vegna þess niðurskurðar sem liggur fyrir í þessum breytingartillögum, þessum flata niðurskurði, er það þannig að heilbrigðiskerfið okkar er á fullu við að sinna sinni góðu þjónustu en ég tel að það vanti algerlega nýja stefnumótun fyrir heilbrigðisþjónustuna á grundvelli breyttra aðstæðna og þrenginga hjá ríkissjóði sem eru fyrir hendi og við sjáum að munu verða á næstu árum. Almenningur hlýtur að gera kröfu til þess að sjá hvernig stjórnvöld ætla sér að leysa þessi verkefni út frá þeim aðstæðum sem upp eru komnar í ríkisfjármálunum. Ég tel, virðulegi forseti, að það verði að fara kerfisbundið yfir nánast hvern einasta útgjaldalið fjárlaga og leita allra leiða til að spara útgjöld. Í því sambandi er mikilvægt að verja það sem við getum sagt að sé lífsnauðsynlegt, þ.e. á sviði heilbrigðis- og velferðarmála en að leita allra leiða til að draga úr fjárheimildum þar sem nokkur kostur er, þ.e. ef við ætlum að vinna okkur út úr þessum vanda og ná jafnvægi í ríkisbúskapinn. Það er það sem við verðum að gera. Við getum ekki leyft okkur að velta þessu máli yfir á komandi kynslóð. Það er bara svo einfalt.

Ég bendi líka á það, virðulegi forseti, að mörg undanfarin ár hafa ýmsar stofnanir ekki nýtt fjárheimildir sínar og meira að segja hefur Ríkisendurskoðun ítrekað gert athugasemdir við það. Ég vísa því til forustu fjárlaganefndarinnar, hv. þingmanna, að nú verði skoðað hvort ekki eru leiðir til að spara útgjöld með því að klippa hreinlega ónýttar fjárheimildir af einhverjum stofnunum. Það getur þess vegna numið einhverjum milljörðum.

Hér hef ég nefnt nokkur atriði sem ég tel að eigi að skoða alvarlega varðandi ríkisútgjöldin. En það er ljóst að fram undan eru miklir erfiðleikar í þjóðarbúskapnum og atvinnulífinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir því að á næsta ári verði samdráttur í þjóðarframleiðslu upp á hátt í 10% og jafnvel enn meira árið 2010. Það er gríðarlegt áfall fyrir okkur ef þetta gengur eftir. Fjármálakerfið er í miklum vanda, byggingarstarfsemin hefur að miklu leyti stöðvast og af þessu öllu saman eru mikil margfeldisáhrif sem valda samdrætti um allt kerfið. Við horfum upp á aukið atvinnuleysi og því miður eru líkur á því að það muni eitthvað aukast frá því sem nú er. Það er gríðarlegt áfall fyrir þjóðina. Þess vegna, virðulegi forseti, verðum við að leita allra leiða til að halda atvinnulífinu gangandi og auka framleiðslu í samfélaginu. Helsta vonin í því er að við nýtum náttúruauðlindir okkar af skynsemi og leitum allra leiða til að auka verðmæti og verðmætasköpun í samfélaginu. Það er grundvallarvelferðarmál að halda atvinnulífinu gangandi og byggja það upp. Þá legg ég áherslu á, eins og ég hef áður sagt, að örva nýsköpun og atvinnuþróun og þá vitna ég m.a. til þess að við eigum margt vel menntað fólki. Við vitum að einhver hópur af vel menntuðu fólki hefur tapað atvinnu sinni og við verðum að gera allt til að koma í veg fyrir að þessi auðlind okkar færist úr landi.

Ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu fyrir nokkrum dögum um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi atvinnufyrirtækjanna. Þar var m.a. nefnd lenging lána, niðurfærsla skulda, breyting lána í eigið fé o.s.frv. Ég vil nefna í þessu sambandi að það getur gengið hratt á eigið fé nýju ríkisbankanna ef mikið verður um slíkar aðgerðir og ég lýsi jafnframt áhyggjum af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gera ekki ráð fyrir því að ríkissjóður hafi mikinn sveigjanleika til að koma bönkunum frekar til aðstoðar.

Það er eitt atriði, virðulegi forseti, sem er vert að nefna í þessu sambandi öllu saman og það er íslenska krónan. Við höfum séð það, bæði í aðdraganda að hruninu og ekki síst núna eftir að það reið yfir, hvað íslenska krónan er veikur gjaldmiðill. Gengi hennar hrundi í kjölfar falls bankanna og það hefur valdið okkur meiri vanda en kannski hefði ella þurft að vera. Ég tel að í ljósi þessarar reynslu þurfi að leita allra möguleika á því að taka upp alvörugjaldmiðil með einhverjum hætti. Ég er ekki endilega að tala um að við eigum að ganga í Evrópusambandið en ýmsar hugmyndir hafa komið fram frá ýmsum sérfræðingum um það með hvaða hætti við getum gert þetta. Það er auðvitað hugsanlegt að niðurstaðan verði sú að Ísland óski eftir aðild að Evrópusambandinu en það er önnur umræða sem ég ætla ekki að fara út í hér. Ég vildi bara nefna þetta lauslega.

Hæstv. forseti. Ég legg fram þá kröfu hér og nú að stjórnarmeirihlutinn sjái til þess að Alþingi hafi með höndum sitt lögboðna hlutverk í stað þess að örfáir einstaklingar í ríkisstjórninni haldi öllum málum í sínum höndum og matreiði þau síðan til afgreiðslu á Alþingi eins og við höfum margoft séð að undanförnu. Hinn fjölmenni meiri hluti stjórnarliðsins hefur þetta á valdi sínu og á í raun og veru að tilkynna ríkisstjórninni að svona geri menn ekki þannig að Alþingi geti sinnt störfum sínum og haft þau verkefni og það hlutverk sem því ber samkvæmt lögum. Ég legg í því sambandi áherslu á eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmd fjárlaga. Það verður að tryggja að fjárlaganefnd hafi grundvöll til að sinna því hlutverki sínu sem er mjög mikilvægt. Ég legg áherslu á það.

Ég vil líka nefna það sem reyndar hefur komið fram í þessari umræðu að ég tel að Alþingi verði að fjalla um fjárlög næsta árs fyrir lok næsta vorþings og vísa þar til þess sem ég hef sagt, og fleiri, um það hve mikið vantar upp á að forsendur þessa frumvarps liggi fyrir. Í svari fjármálaráðuneytisins til minni hluta fjárlaganefndar kom fram að endurskoðuð þjóðhagsáætlun mun liggja fyrir í janúar. Samkvæmt samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er gert ráð fyrir að hann fylgist með framvindu mála, ef ég man rétt ársfjórðungslega, og ég tel að fjárlaganefnd verði að fara í gegnum þetta mál og meta frumvarpið í raun og veru upp á nýtt þegar forsendur liggja fyrir.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, að ég tel að leggja eigi fram ríkisreikninginn endurskoðaðan í febrúar í stað þess að hann sé lagður fram að hausti. Þetta getur verið liður í aðhaldi með framkvæmd fjárlaga. Ég tel einnig að það eigi að leggja fram endurskoðunarskýrslu með ríkisreikningi, helst í febrúar. Ég legg enn fremur áherslu á það og tel mikilvægt að mánaðarlegt uppgjör verði í rekstri ríkisins og það síðan borið saman við áætlanir þannig að menn geti fylgst náið með framvindunni. Þar komi þá fram greiningar og skýringar á hugsanlegum frávikum. Í framhaldi af því verði síðan að sjálfsögðu metið hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða til að fjárlögin haldi.

Annað mál vil ég nefna í ljósi þess hvernig farið hefur fyrir okkur eða allt útlit er fyrir að fari fyrir okkur varðandi innstæðuábyrgðir á þessum Icesave-reikningum sem byggja á samningum um hið Evrópska efnahagssvæði og tilskipun Evrópusambandsins og hefur komið nánast öllum í opna skjöldu. Ég legg til að farið verði skipulega yfir alþjóðlega samninga sem við erum aðilar að til að komast að raun um hvort fleiri svona mál leynast í slíkum samningum þannig að menn séu a.m.k. klárir á því hvað felst í þeim og við getum gert okkur grein fyrir því ef þar er um að ræða einhver slík mál.

Virðulegi forseti. Ég fer að ljúka máli mínu og vil enda á því að segja að þær breytingartillögur sem hér eru til umræðu eru auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Staða efnahagsmála og ríkisfjármála og horfur þeirra til framtíðar eru að langmestu leyti á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að framganga ríkisstjórnarinnar undanfarna 12–15 mánuði í efnahagsmálum er að reynast þessari þjóð okkar dýrkeypt og ábyrgð hennar er mikil.

Það er sorglegt hvernig komið er fyrir okkur sem þjóð ef við horfum á stöðu mála og hvernig þetta hefur allt þróast að undanförnu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst átakanlegt að fjalla um fjárlög ríkisins við þær aðstæður sem nú eru og þær sem við horfum upp á til framtíðar.

Ég vil að lokum taka undir það sem hv. formaður fjárlaganefndar sagði og nefndi í sinni ræðu, að þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf. Ég tel að þrátt fyrir að ég sé aðeins búinn að hnippa í forustu nefndarinnar haldi hún vel utan um starf nefndarinnar og ég þakka henni fyrir það. Ég vil líka að lokum þakka starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir ómetanlega aðstoð við okkur í minni hlutanum um margt af því sem þeir eru að starfa.