136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:10]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki skilið allt sem ég sagði, en fyrst hún vildi koma hér og nota tækifærið til að gagnrýna samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn fyrir hagstjórn síðustu ára er það hennar mál.

Það sem ég var að tala um er það, og það er ekki umdeilt, að síðustu 12–15 mánuði hafa komið fram ítrekaðar viðvaranir frá ýmsum aðilum, sérfræðingum og stjórnmálamönnum, innlendum og erlendum, um að fram undan væru blikur á lofti í efnahagsmálum. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og snúa út úr því. Það er staðreynd og ég held að hæstv. ráðherra ætti frekar að sjá sóma sinn í að viðurkenna hana.