136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef margsinnis héðan úr ræðustól Alþingis og annars staðar gagnrýnt hagstjórnina á síðasta kjörtímabili og ég fer ekkert að breyta því þó að ég sé komin í ríkisstjórn. Það voru gerð hagstjórnarmistök á því kjörtímabili og við erum að súpa seyðið af því.

Hvað varðar það að menn hafi bent á að blikur væru á lofti er það alveg rétt. Við vissum öll að það voru blikur á lofti en við stóðum andspænis því að við vorum með bankakerfi sem var 10 eða 12 sinnum stærra en hagkerfið okkar, við vorum með gjaldeyrisvarasjóð sem ekki var nægilega sterkur til að standa við bakið á þessu bankakerfi og það var samþykkt hér á þinginu, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin fór fram á það, lánsfjárheimild til ríkisstjórnarinnar til að stækka gjaldeyrisvarasjóðinn vegna þess að allir vissu að það var þó eitthvað sem við urðum að gera. Jafnvel þó að það hefði gengið eftir segir mér svo hugur um að það hefði ekki dugað til að afstýra því hruni sem við stöndum núna andspænis vegna þess að bankakerfið okkar var einfaldlega (Forseti hringir.) orðið allt of stórt miðað við íslenska hagkerfið.