136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur lækki um 36,2 milljarða og verði 395,8 milljarðar í þessu frumvarpi. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. og varða A-hluta fjárlaga nema samtals 18,3 milljörðum til lækkunar á sundurliðun II í frumvarpinu. Hlutfallslega verður mesti samdráttur rekstrargjalda í utanríkisþjónustunni og hjá æðstu stjórn ríkisins en almennt er samdráttur í rekstri ráðuneyta á bilinu 5–7%. Gert er ráð fyrir að gjöld og samningar sem taka breytingum á milli ára samkvæmt verðlagi hækki í samræmi við þær áætlanir sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í byrjun október þar sem verðhækkanir ársins 2008 voru áætlaðar 11,5% en hækkun ársins 2009 var áætluð 5,7%.

Talsverður samdráttur verður í nýframkvæmdum á árinu 2009 frá því sem áður var áformað. Samtals mun lækkun framkvæmda nema 11 milljörðum kr. eða 21% af áætluðum kostnaði við nýframkvæmdir ársins. Þrátt fyrir þessar breytingar verður árið 2009 samt sem áður eitt mesta framkvæmdaár sögunnar með tilliti til fjárveitinga ríkisins að óbreyttum þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þannig eru megindrættir frumvarps að fjárlögum ríkisins sem hér liggja fyrir til 2. umr. og meginspurningin sem hv. alþingismenn standa frammi fyrir er sú hvort þessi áform muni duga til svo unnt sé að hefja endurreisn efnahagslífs landsins. Ég hef ástæðu til að ætla að ekki sé nægilega langt gengið í átt til þess að taka á ríkissjóðshallanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands voru erlendar skuldir Íslands í lok þriðja ársfjórðungs u.þ.b. 12.257 milljarðar kr. og erlendar eignir á sama tíma námu tæplega 10 þúsund milljörðum kr. Alls skuldaði þjóðarbúið því um 2.300 milljörðum meira erlendis en það átti í eignum. Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands kemur fram að tekjuhalli hins opinbera á þriðja ársfjórðungi 2008 nam 15 milljörðum kr. samanborið við um 17 milljarða kr. tekjuafgang á sama tíma fyrir ári síðan.

Á fyrstu níu mánuðum ársins var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 2,2 milljarða kr., sem samsvarar 0,2% af landsframleiðslu, en á sama tíma árið 2007 var tekjuafkoman hins vegar jákvæð um rúmlega 51 milljarð kr. eða 4% af landsframleiðslu. Í Hagtíðindum kemur einnig fram að tekjuafkoma sveitarfélaganna var neikvæð á þriðja ársfjórðungi um 3,9 milljarða kr. og því mun lakari en á sama tíma árið 2007 þegar hún var jákvæð um 1,4 milljarða.

Fyrstu níu mánuði ársins mældist tekjuafkoma sveitarfélaganna neikvæð um 5,2 milljarða kr. samanborið við jákvæða afkomu upp á 6,1 milljarð fyrir sama tímabil árið 2007.

Viðskiptahalli undanfarinna ára hefur verið skýr vísbending um að til umskipta kæmi í rekstri hins opinbera en í kjölfar þessa þriðja ársfjórðungs hrundi íslenska bankakerfið og umskiptin í rekstrinum eru til muna meiri en nokkurn gat órað fyrir. Frá þeim tíma hafa stjórnvöld verið bundin við björgunarstarf og leitað leiða til að hefja endurreisn íslensks efnahagslífs.

Sú gagnrýni sem m.a. hefur komið fram hér í dag á fjárlagaferlið og það sem betur hefði mátt fara í því verki öllu á að mörgu leyti fullan rétt á sér en hafa ber jafnframt í huga að þær aðstæður sem við er að glíma eru með eindæmum erfiðar og á margan hátt afar afbrigðilegar. Þetta ástand kallaði á það að verkefnum yrði forgangsraðað og það sem mestan forgang verður að hafa er gerð áætlana sem miða að lausn þeirra vandamála sem heimili landsins og fyrirtæki verða að takast á við. Jafnframt hefur þurft að vinna að endurreisn bankakerfisins og standa í erfiðum samningum við aðrar þjóðir. Þessi verkefni öll hafa að sjálfsögðu sett mark sitt á vinnu við gerð fjárlaganna og óhjákvæmilegt er að röskun verði á ýmsum verkþáttum í því markaða ferli. Í kjölfar bankahrunsins hefur lánshæfismat íslenska ríkisins lækkað verulega og í því endurspeglast veikari fjárhagsstaða ríkissjóðs en áður var. Skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu aukast mikið, öll fjármögnun verður dýrari, tekjur ríkissjóðs dragast saman og verulegur halli er fyrirsjáanlegur á fjárlögum næstu ára.

Stjórnvöld hafa náð samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að vinna með skipulögðum hætti á heildarvanda efnahagslífsins og sú vinna miðar m.a. að því að ná hér stöðugleika og styrkja stoðir atvinnulífsins og á endanum mun það væntanlega skila sér í því að lánshæfismat okkar styrkist á nýjan leik. Sú efnahagsáætlun sem unnið er eftir með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mun gera kröfu til okkar allra og þá sérstaklega okkar á hinu háa Alþingi við það verk að rétta af rekstur ríkissjóðs.

Í ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, fyrr í dag kom fram að hallinn á ríkissjóði hefði að óbreyttu fjárlagafrumvarpi, sem lagt var fram í byrjun október, stefnt í 215 milljarða. Með þeim tillögum ríkisstjórnarinnar að lækkun útgjalda sem hér liggja fyrir er gert ráð fyrir að hallinn á fjárlögum næsta árs verði á bilinu 160–170 milljarðar kr. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir og í ágætum takti við umræðu undangenginna vikna um fjárhagsstærðir í íslensku efnahagslífi. Þar er um svo stórar upphæðir að ræða að almenningur á erfitt með að skilja og á í vandræðum með að setja þær í samhengi við daglegan veruleika. Fjárlagahalli að upphæð 160–170 milljarðar kr. er hins vegar að mínu mati ekki í neinum takti við þann veruleika sem við blasir í fjármálum ríkissjóðs og ég tel algjörlega nauðsynlegt að taka fastar á og draga enn frekar úr væntum hallarekstri ríkissjóðsins.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar sem lagðar voru fyrir fjárlaganefnd Alþingis fyrir 2. umr. fjárlaga er gert ráð fyrir að sparnaður í rekstrarútgjöldum og tilfærslum nemi u.þ.b. 19 milljörðum kr. eða einungis um 3,7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka. Er bæði um að ræða samdrátt í núverandi rekstri og frestun verkefna sem enn eru ekki komin til framkvæmda. Að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt að stjórnvöld þurfi að skuldsetja ríkissjóð við þessar aðstæður. Gríðarlega umfangsmikill rekstur hins opinbera verður ekki dreginn saman á einu augnabliki og því er mikill hallarekstur óumflýjanlegur um einhvern tíma og við þetta bætast svo skuldbindingar sem ríkissjóður þarf að taka á sig í kjölfar bankahrunsins.

Eins og hér hefur komið fram í dag liggur ekki fyrir ný þjóðhagsspá en Seðlabankinn spáði í nóvember að halli á ríkisfjármálunum yrði um 13% á næsta ári, 12% árið 2010 og 8% árið 2011, og gert er ráð fyrir að afgangur verði á rekstri ríkissjóðs fyrst á árinu 2013. Þegar haft er í huga að því verri sem afkoma ríkissjóðs er þeim mun erfiðari verður afkoma heimilanna í landinu, þá er í mínum huga ljóst að við þessari spá Seðlabankans er ekki nema eitt svar og það er að draga verður meira saman í rekstrinum en tillögur liggja fyrir um. Með þeim eina hætti að tryggja efnahag ríkissjóðs er unnt að standa vörð um þá þjónustu sem almenn sátt er um að sé við lýði í norrænu velferðarþjóðfélagi. Jafnframt er það höfuðnauðsyn fyrir afkomu heimilanna í landinu að afkoma hins sameiginlega sjóðs landsmanna sé með þeim hætti að hann njóti trausts og tryggt sé að hann geti staðið af eigin aflafé undir þeirri þjónustu sem honum er ætlað að kosta. Almenn samstaða er um það í þjóðfélaginu við aðstæður sem þessar að leitað sé allra leiða til að verja ákveðna þætti velferðarmála, heilbrigðiskerfisins, menntamála og löggæslunnar. Þess í stað verði leitað allra leiða til þess að hagræða og ná niður kostnaði í rekstri stjórnsýslustofnana og ráðuneyta. Þessar áherslur koma ágætlega fram í þeim tillögum sem ríkisstjórnin skilaði inn til fjárlaganefndar á fimmtudaginn og koma fram í því frumvarpi sem hér liggur fyrir til umræðu.

Í samræmi við þá vinnureglu sem við hv. formaður fjárlaganefndar höfum unnið eftir gerði hann í framsöguræðu sinni allnokkra grein fyrir meginlínum frumvarpsins varðandi tekju- og gjaldahlið þess. Ég mun aftur á móti gera á eftir grein fyrir helstu gjaldabreytingum einstakra málaflokka milli 1. og 2. umr. fjárlaganna.

Framlög til æðstu stjórnar ríkisins lækka um 298 millj. kr. og þar vegur mest lækkun til Alþingis að fjárhæð um 215 milljónir. Framlög til forsætisráðuneytisins lækka um 133 milljónir. Framlög til menntamálaráðuneytisins lækka um tæpa 4,4 milljarða en framlag til Háskóla Íslands lækkar um tæpar 952 milljónir, Háskólans á Akureyri um 128 milljónir, Háskólans í Reykjavík um rúmlega 154 millj. kr. Þarna er um að ræða áform sem stóð til að veita til nýrra rannsókna á vegum þessara háskóla. Stofnkostnaðarframlag að fjárhæð 300 millj. kr. til Stofnunar Árna Magnússonar er fellt niður og sömuleiðis er gert ráð fyrir að framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 1.360 millj. kr.

Framlög til utanríkisráðuneytisins lækka um tæpa 2,4 milljarða. Þar vegur þyngst lækkun á framlagi til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, 777 millj. kr., til þróunarmála og alþjóðastarfsemi um 546 milljónir, alþjóðastofnanir lækka um tæpar 384 milljónir, Varnarmálastofnun um 257 milljónir og sendiráð Íslands um tæpar 230 milljónir. Framlög til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins lækka um 408 millj. kr. og þar er mest lækkunin til Hafrannsóknastofnunar, tæpar 78 milljónir, og einnig er um að ræða lækkun til Fiskistofu og Matvælastofnunar samtals um rúmlega 92 millj. kr.

Framlög til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins lækka um rúmlega 4,1 milljarð kr. og þar vegur að sjálfsögðu langmest lækkun til Landhelgissjóðs Íslands upp á 2,3 milljarða sem felst í seinkun áformaðra framkvæmda við flugvél og skip. Framlag til fangelsisbygginga lækkar einnig um 350 millj. kr. og Landhelgisgæslunnar um tæpar 300 milljónir og sömuleiðis sóknargjöld í kirkjumálaráðuneytinu um 230 milljónir.

Framlög til félags- og tryggingamálaráðuneytisins hækka um rétt tæpa 11 milljarða. Tilfærslur hækka um 11,4 milljarða og þar vegur þyngst viðbót sem lögð er inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Framlög til rekstrar hækka um 720 milljónir en framlög til viðhalds og stofnkostnaðar lækka um 1,1 milljarð kr. Framlög til heilbrigðisráðuneytisins er ráðgert að lækki um rúmlega 6,9 milljarða, þar af lækka framlög til Landspítalans um tæpa 5 milljarða og til Sjúkrahússins á Akureyri um rúmar 312 millj. kr. Framlag til stofnkostnaðar vegna áforma um byggingu hátæknisjúkrahúss lækkar um 400 millj. kr. úr 800 milljónum. Framlög til fjármálaráðuneytisins lækka um tæpa 1,5 milljarða kr., þar af er gert ráð fyrir lækkun á fjárveitingum til fyrrum varnarsvæðis við Keflavíkurflugvöll um 586 milljónir og Endurhæfingarsjóður um 500 millj. kr.

Ráðgert er að framlög til samgönguráðuneytisins lækki um tæpan 8,1 milljarð, samgönguverkefni lækki um tæpa 6 milljarða, framlög til Umferðarstofu um rúmar 236 milljónir, hafnarframkvæmdir er ráðgert að lækki um rúman hálfan milljarð, 506 millj. kr., flugvellir og flugleiðsöguþjónusta lækkar um 1.250 milljónir og Fjarskiptasjóður um 410 millj. kr.

Framlög til iðnaðarráðuneytisins lækka um 9,1 milljón. Framlög til viðskiptaráðuneytisins lækka um 31,1 milljón. Loks vil ég nefna að framlög til umhverfisráðuneytisins lækka um rúmar 695 millj. kr. en þar vegur mest lækkun til Úrvinnslusjóðs upp á 220 millj. kr. og Umhverfisstofnunar um rúmar 125 millj. kr.

Virðulegi forseti. Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi er forgangsverkefni stjórnvalda að leita allra leiða til að ná jöfnuði í rekstri ríkisins og þeirra stofnana og fyrirtækja sem það ber ábyrgð á. Mistök sem geta orðið á þeirri vegferð munu einungis tefja fyrir nauðsynlegri styrkingu þeirrar velferðarþjónustu sem við öll viljum að landsmenn búi við. Höfuðforsenda þess að ná þeim bata sem allir vilja sjá er sú að takast ákveðið á við þær tímabundnu þrengingar sem óhjákvæmilega eru fram undan. Því er afar brýnt að sem flestir horfist í augu við þann vanda sem þjóðarbúið stendur andspænis og það verða allir að skilja að við vinnum okkur ekki út úr þessum aðstæðum nema allir taki þátt. Það er hvorki einfalt né sársaukalaust verkefni sem bíður þjóðarinnar en því fyrr og þeim mun ákveðnar sem ráðist er til verka þeim mun hraðar mun batinn nást.

Það er ljóst að draga mun úr opinberri þjónustu um skeið. Það er ljóst að kjarabætur eru hvorki á dagskrá á næstunni hjá hinu opinbera né á almennum vinnumarkaði. Það er ljóst að margvísleg og metnaðarfull verkefni sem unnið hefur verið að á undanförnum árum munu þurfa að bíða betri tíma og það er ljóst að skattar munu hækka.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að fyrir 3. umr. um fjárlög næsta árs komi fram enn frekari og nauðsynlegar tillögur til sparnaðar í ríkisútgjöldum.