136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hlutverk varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, var ekki öfundsvert, að lesa upp niðurskurðartillögurnar. Ég hafði vissa samúð með honum í þeim efnum. Vissulega er þetta mikið niðurskurðarfrumvarp og í máli sínu skoðaði hv. þingmaður enn frekari niðurskurðartillögur við seinni umfjöllun fjárlagafrumvarpsins.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeim gríðarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum en mig langar þó að spyrja hv. þingmann hvað liggi að baki þessum niðurskurðartillögum. Hvað liggur að baki í forgangsröðun? Hvað liggur að baki í skilgreiningu á þjónustustigi? Í aðra röndina er sagt að halda eigi uppi og verja þjónustustigið, verja heilbrigðisþjónustuna o.s.frv., og svo er líka sagt að verja eigi atvinnustigið. Ég spyr: Hvernig er það skilgreint? Hvar á að setja mörkin? Við hvað er miðað þegar verið er að leggja fram svona gildislægt mat? Og síðan kemur bara niðurskurður.

Ég velti því fyrir mér hvort mat hafi verið lagt á það hvaða áhrif niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu hefur á þjónustustigið. Hvaða áhrif hefur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu á fjölda starfa? Að langmestu leyti er um laun að ræða og ef skera á niður fleiri milljarða í heilbrigðiskerfinu hlýtur það að koma niður í launum og störfum. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hversu mörg störf er verið að skera niður?