136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:19]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli það sé ekki rétt að hefja þetta andsvar á því að þakka fyrir auðsýnda samúð í minn garð (Gripið fram í.) en ég tel litla þörf á að við stöndum í slíku. Þetta eru nauðsynleg verkefni. Ekki auðveld, langur vegur frá, en einhverjir verða að taka að sér að vinna okkur niður til lausnar í þessum efnum. Veruleikinn sem við okkur blasir er einfaldlega sá, hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það, að ríkissjóður hefur ekki efni á að standa við óbreytta þjónustu eins og hún birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 eins og það var lagt fram í byrjun október sl. Þannig að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að reyna að forgangsraða og reyna að ramma útgjöld okkar innan hæfilegra marka þannig að við getum séð að ríkissjóður geti staðið við þær skuldbindingar sem honum er ætlað að standa undir.

Ég hef ekki haldið því fram að unnt sé að verja alla þá þjónustu sem ríkið hefur staðið í óbreytta. Ég hef ekki haldið því fram að hægt sé að verja atvinnustigið í landinu á kostnað ríkissjóðs. Ég hef haldið því fram að ríkissjóður þurfi að ráðast í endurgerð þeirrar þjónustu sem hann er að veita hverju sinni og hefur veitt á undanförnum árum og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að í þeim tillögum sem hér liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar felist von um og áform um að á því verði tekið. Ég geri mér fullljóst að það mun taka lengri tíma en menn hafa haft til verka hér og nú að breyta því kerfi sem við höfum byggt upp á umliðnum árum. Það verður sársaukafullt. Það er erfitt og það verður þungt í framkvæmd en engu að síður er nauðsynlegt að hefja það verk.