136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þótti mér hjartanlega vænt um að heyra frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hann gerði sér grein fyrir því að við yrðum að auka framleiðsluna og verðmætasköpunina í landinu til þess að geta staðið undir framtíðarskuldbindingum. Ég hlakka til að eiga við hann skoðanaskipti um það við gott tækifæri og rifja þá upp ýmsar tillögur hans í þeim efnum, m.a. um landbúnaðarmál, sem ég vil gjarnan að við stöndum vörð um saman.

Hann spyr um það hvernig innihaldið í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé varðandi greiðsluafkomu ríkissjóðs og hvenær við getum gert ráð fyrir því að hann eigi að fara að skila afgangi. Ef ég man rétt er gert ráð fyrir því að það gerist á árinu 2012. Það kunna að vera heimildir til þess að víkja eitthvað frá því ef aðstæður á þeirri braut munu skapa okkur svigrúm til þess.

Hitt er annað sem hv. þingmaður kallar eftir varðandi laun og áhrif niðurskurðar og hagræðingar ríkisins á velferðarstörf. Það þarf ekki að spyrja með þessum hætti. Það vita allir að þegar þrengt er að stofnunum, sama hvort það er hjá hinu opinbera eða í einkarekstri, með þeim hætti að skera niður útgjöld til þeirra sem hingað til hafa verið ákveðin þá kemur það niður á launum. Það kemur að sjálfsögðu niður á atvinnu fólks. Það verður reynt að mæta því, vænti ég, með því að reyna að lækka fyrst launastigið áður en til uppsagna kemur. Ég ætla forstöðumönnum ríkisstofnana að vinna með þeim hætti. Síst af öllu viljum við vinna með þeim hætti að senda fólk út á atvinnuleysisskrá. Ég ætlast til þess að forstöðumenn ríkisstofnana vinni þetta með þeim hætti að þeir reyni fyrst að leita leiða til þess að dreifa þessum byrðum innan þeirra stofnana þar sem það á við. Það er að mínu mati það verklag sem mönnum ber að hafa.

En óhjákvæmilegt er í þeim verkefnum sem bíða okkar að umfang ríkisrekstrarins á komandi árum verði allt annað og minna en verið hefur í þeim stöðuga (Forseti hringir.) vexti sem undanfarin ár hefur ríkt.