136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:26]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009. Í byrjun október var frumvarpið lagt fram af fjármálaráðherra en nokkrum dögum síðar hrundu íslensku bankarnir hver af öðrum og fjármálaástandið hefur síðan gjörbreyst og áætlanir allar riðlast.

Þess vegna hefur verið erfitt að ná utan um verðlags- og gengisspár og nær útilokað að spá nákvæmlega um forsendur fjárlaga hvort heldur eru tekjur eða útgjöld komandi árs.

Óljóst er hvernig verðbólgan þróast en hún ræðst nær eingöngu af gengi íslensku krónunnar og erfitt er að spá um atvinnuleysi á komandi ári en þar ráða útgjöld ríkissjóðs einnig miklu.

Eftir að samkomulag náðist milli íslenska ríkisins, fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka og svo Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um helstu kennitölur á næstu missirum hófst bið eftir ákvörðun sjóðsins um lánveitingar og það þekkja allir þá sögu vel.

Við höfum átt hér nokkra orðræðu um það hvort fjárlög stjórnist af tilskipun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hef sjálfur sagt það frá upphafi að alltaf hafi legið fyrir að ef við þyrftum að leita til alþjóðasamfélagsins um lántökur væri gerð ein krafa. Það var að fyrir lægi áætlun um hvernig við endurgreiddum þau lán og um það snýst samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Reynt er að meta og gera grein fyrir helstu forsendum og gera síðan áætlun um með hvaða hætti og hvenær ríkissjóður getur greitt skuldir sínar. Auðvitað er þetta háð mikilli óvissu og verður að skoðast sem slíkt.

Öll þessi óvissa — auk óvissu um umfang björgunaraðgerða, upphæð á kostnaði við lántökur, skuldbindingar vegna Icesave-reikninga o.fl. — varð til þess í fjárlagavinnunni að það dróst að leggja fram tillögur fyrir 2. umr. fjárlaga. Eins og áður sagði er hér um ófullkomna áætlun að ræða sem verður strax að endurmeta fyrir 3. umr. síðar í vikunni.

Ég hef sagt að við þessar aðstæður sé rétt að reikna með endurskoðun fjárlaga reglulega á næsta ári. Fyrst strax í mars og síðan á þriggja mánaða fresti og aukafjárlög verði unnin til að bregðast við ástandinu sem verður þá. Í þessu umhverfi hefur fjárlaganefnd þingsins starfað og stundum beðið eftir tölum frá hagdeild fjármálaráðuneytisins hvað varðar forsendur.

Það hefur komið fram í umræðunni áður, og í þeim gögnum sem lögð voru fram fyrir fjárlaganefnd, að miðað við óbreyttar forsendur varðandi tekjur og annað hefði stefnt í 214 milljarða halla á ríkissjóði en með tillögum um 45 milljarða leiðréttingu þar sem tekjur eru auknar og útgjöld lækkuð er í endurskoðuðum tillögum reiknað með 165–170 milljarða kr. halla miðað við greiðslugrunn.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að heildarlækkun útgjalda samkvæmt tillögum meiri hlutans miðast við lækkun frá fjárlagafrumvarpi en er ekki lækkun frá fjárlögum yfirstandandi árs, þ.e. ársins 2008. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þar sem fjárlög 2009 gerðu ráð fyrir um það bil 70 milljarða hækkun frá árinu 2008 en eftir breytingar eru fjárlögin eftir sem áður með verulegri krónutöluhækkun frá fjárlögum 2008. Þá er gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum, þ.e. það koma inn þarna, meðal annars er búið að leggja hér fyrir tillögur um hækkun á gjöldum á áfengi og eldsneyti og þó þessar hækkanir vegi töluvert þá eru þær undir verðlagsþróun, þ.e. þessi gjöld fylgja í rauninni ekki verðbólguþróuninni. En vandinn við slíka tekjustofna er auðvitað að þessar hækkanir telja inn í verðbólgu eða verðtrygginguna og þar með hækka húsnæðisskuldir og að þessu leyti er þetta afar vandmeðfarinn tekjustofn. En það er vandséð hvernig hægt er að komast hjá því að láta neysluvörur eins og áfengi ekki fylgja verðlagi.

Í þessum breytingum er einnig reiknað með 1% hækkun tekjuskatts og heimild til þess að hækka útsvar. Á móti þessum tekjuskattshækkunum kemur að áður samþykkt hækkun á persónuafslætti stendur óbreytt og tryggir það að tekjuskatturinn hækkar ekki hjá þeim tekjulægstu andstætt fullyrðingum hv. þm. Jóns Bjarnasonar hér fyrr í umræðunni.

Auðvitað er ástæða til þess að skoða hvernig við tökum okkar skatta. Sjálfur hef ég horft til þess í mörg ár að eðlilegast væri að hafa einhvers konar þrepaskatt, þ.e. að við næðum til hækkunar á tekjum með aukinni skattheimtu og við þær aðstæður sem nú eru hefði það að mörgu leyti verið eðlilegra vegna þess að það er eðlilegt að við reynum að ná til þeirra sem hafa mjög há laun ef þeir draga þau ekki saman í því ástandi sem nú er.

Auk þess sem hér var sagt að framan er rétt að benda á að þær tillögur sem eru lagðar fram í 2. umr. eru fyrst og fremst unnar af ríkisstjórninni en ákveðið var að láta þær fara óbreyttar inn í þingið til að spara tíma. Á milli 2. og 3. umr. verða málin síðan skoðuð betur og farið betur ofan í einstaka liði og gengið frá sundurliðun liða svo sem hinna frægu safnliða.

Allar þær breytingar sem boðaðar eru verður að skoða í samhengi við samþykktir um hækkanir vegna verðlagsbreytinga en inni í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10% hækkun launa frá 2008, eða var það í upphaflega frumvarpinu og er það enn þá. En í tillögum hér í 2. umr. er gert ráð fyrir lækkunum launa, til dæmis þingmanna og þeirra sem heyra undir kjararáð. Á öðrum liðum var í frumvarpinu gert ráð fyrir 13,5% hækkun vegna verðlags. Í frumvarpi til fjárlaga 2009, í upphaflegu útgáfunni á blaðsíðu 216, stendur, með leyfi forseta:

„Til viðbótar þessum launa- og verðlagshækkunum kemur fram talsverð raunaukning útgjalda í frumvarpinu. Þar vega þyngst ákvarðanir um að hrinda í framkvæmd mörgum áformum úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fela í sér ýmsar veigamiklar útgjaldaskuldbindingar. Mest munar um málefni sem snúa að ákvörðunum um uppbyggingu á almannatryggingum, félagslegum bótum og menntamálum auk framkvæmda á vegum ríkisins, sérstaklega í samgöngumálum. Fjármálaráðuneytinu telst til að ný útgjöld sem falla til þegar á árinu 2009 vegna ýmissa slíkra sértækra ákvarðana sem heimfæra má á áform úr stefnuyfirlýsingunni nemi 14 milljörðum kr. á verðlagi ársins 2008. Því til viðbótar eru ýmsar aðrar fyrirliggjandi útgjaldaskuldbindingar sem greindar hafa verið sérstaklega við undirbúning frumvarpsins metnar á rúmlega 6 milljarða kr. þegar jafnframt hefur verið tekið tillit til framlaga til tímabundinna verkefna sem falla niður á næsta ári. Þar er t.d. um að ræða kerfislægan vöxt í skólakerfinu,“ — það er inni í þessari aukningu — „námslánum, sjúkratryggingum, almannatryggingum og í þjónustu við sjúklinga, aldraða og fatlaða einstaklinga.“

Ég les þennan kafla hér upp vegna þess að þegar menn eru að ræða niðurskurð þá er rétt að skoða hvaða aukningar voru boðaðar í frumvarpinu fyrir 2009. Í frumvarpinu námu einmitt hækkanir á bótum almannatrygginga, atvinnuleysisbótum og bótum til fjölskyldna svo sem vegna fæðingarorlofs, barnabóta og vaxtabóta alls um 8 milljörðum kr.

Rétt er að hafa í huga að í öllum breytingum var reynt að hafa að leiðarljósi að verja grunnþjónustuna, velferðarkerfið, þ.e. menntakerfi, heilsugæslu og almannatryggingakerfið og raunar löggæsluna einnig. Að halda því fram, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að niðurskurðurinn hafi verið tilviljanakenndur og ekki byggður á neinum grundvallarhugmyndum um hvar ætti að bera niður er einfaldlega alrangt. Það hefur verið viðleitnin í öllum niðurskurðinum að verja hagsmuni þeirra sem minnst mega sín og þeirra sem hafa lægstar tekjur.

Samhliða breytingum í rekstrinum þurfti að huga að því að draga ekki um of úr framkvæmdum og hindra þannig eftir mætti aukningu atvinnuleysis og loks varð að huga að sveitarfélögunum sem reka stóran hluta grunnþjónustunnar. Horft var frekar til þess að draga úr aðkeyptum fjárfestingum og horft til að halda í störf í landinu. Dæmi um þetta var að hætt er við kaup á nýrri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.

Allt þetta var haft í huga við breytingar á fjárlögunum. Sveiflujöfnuninni var haldið með því að hafa inni mikinn halla, halla sem er einungis réttlætanlegur til að reyna að hindra stóraukið atvinnuleysi. Það er vandhitt á þann niðurskurð sem ekki veldur beinu atvinnuleysi vitandi að við aukið atvinnuleysi hjá opinberum aðilum færist launakostnaðurinn beint frá viðkomandi stofnunum yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð og er þá til lítils sparað ef það fer beint þar á milli.

Ég ætla að skoða sérstaklega í ræðu minni breytingar hjá félagsmálaráðuneytinu og stofnunum þess þar sem ég stýri félags- og tryggingamálanefnd. Ef farið er yfir liði í fjárlagafrumvarpinu og skoðaðir einstakir liðir þá voru í fyrsta lagi áætlaðar 55 millj. kr. til verkefna vegna aðgerðaáætlunar til að styrkja stöðu barna í samfélaginu og 34 millj. kr. til að þjónusta börn með athyglisbrest og ofvirkni. Þessum tölum er haldið inni sem og miklu af þeim upphæðum sem ætlaðar voru í aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna í samfélaginu. Aftur á móti er frestað 20 millj. kr. framlagi til aðgerðar gegn mansali enda liggur áætlun ekki fyrir um þá aðgerð.

Áður samþykkt afnám tekjutengingar vegna launa maka stendur óbreytt sem og hækkun tekjuskerðingarmarka vegna barnabóta og vaxtabóta. Þá stendur hækkun vegna málefna fatlaðra einnig en skerðing er þó á rekstrarframlögum til stofnana fatlaðra sambærileg þeim sem verða yfir heildina eða 2–4,5% lækkun á áætluðum hækkunum til rekstrar. Allur slíkur niðurskurður í rekstri stofnana, meðal annars hjá fötluðum er auðvitað sársaukafullur og á stofnunum sérstaklega sem fyrir er þröngt í rekstri.

Í öðru lagi var í frumvarpinu, ef maður lítur á hlut félags- og tryggingamálaráðuneytisins, reiknað með tvöföldun á framlagi til niðurgreiðslu vaxta af lánum vegna 750 leiguíbúða. Framlagið var 1.100 millj. kr. 2008 og átti að hækka, eða tvöfaldast fara í 2,2 milljarða. Horfið er frá þessari hækkun og miðað við að niðurgreiðslur vaxta vegna lána til 400 leiguíbúða standi eins og árið 2008.

Í þriðja lagi birtast víða í fjárlögum tölur til lækkunar vegna þjónustu við blinda og sjónskerta en öll þessi framlög færast saman í nýjan lið undir félagsmálaráðuneytinu, í lið sem heitir Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Í félags- og tryggingamálanefnd liggur fyrir frumvarp til laga um þessa miðstöð og verður það vonandi að lögum fyrir jól og þar með jólagjöfin til þessa hóps. Í fjárlögum eru nettó 311 millj. kr. til þessa málefnis en ekki er um útgjaldaaukningu að ræða frá frumvarpinu heldur millifærslu á milli liða.

Í fjórða lagi vil ég nefna lið sem fjallar um bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það er liður sem kallaður er heimilisuppbót. Hann lækkar í fjárlögunum um 87 millj. kr., annars vegar um 12 millj. kr. þar sem reglur um tekjutengingar atvinnutekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga eru samræmdar reglum fyrir 60–70 ára. Þetta var þannig að það var ákveðið fyrst að tekjur 70 ára og eldri hefðu ekki áhrif til skerðingar á lífeyri almannatrygginga á neinn hátt. Aftur á móti varðandi 67–70 ára var tekjumarkið 100 þús. kr. Nú er þetta samræmt þannig að það er sama tekjumark fyrir 67 ára og eldri og miðað við 100 þús. kr.

Hins vegar varðandi þennan lið var 75 millj. kr. lækkun vegna breytinga þar sem fjármagnstekjur umfram 90 þús. kr. frítekjumark á ári skulu metnar að fullu til útreiknings á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk og tekjutryggingu. Þessi breyting hefur líka áhrif á aðra liði sem ég nefni hér síðar, bæði frítekjumarkið, þ.e. 100 þús. fyrir þá sem voru 70 ára og eldri og fjármagnstekjurnar umfram 90 þús. kr. Þetta hefur sem sagt áhrif á lífeyristryggingarnar með sama hætti og þarna er um að ræða lækkanir um 156 millj. kr. vegna atvinnuteknanna og fjármagnsteknanna og örorkulífeyrir lækkar um 12 millj. vegna breytinga á liðnum um fjármagnstekjur eins og áður var nefnt. Þess skal þó getið að reiknað er með því að frítekjumarkið hjá öryrkjum, 100 þús. kr. — það er komið frumvarp um að framlengja gildistíma þess. Það átti að renna út um áramót og samhliða átti að verða endurskoðun á lögunum og taka inn starfsendurhæfingu. Þeirri vinnu er ekki lokið og þess vegna er tillaga um að framlengja þetta ákvæði um 100 þús. kr. eitt ár í viðbót.

Það kemur hérna önnur hækkun á þessum lið nr. 07-827 í fjárlögunum. Þar hækka framlög sem heita Sérstök viðbót ellilífeyrisþega frá frumvarpinu um 1.200 millj. kr. og liðurinn Sérstök viðbót örorkulífeyrisþega um 800 millj. kr. Þarna er um að ræða 2 milljarða sem koma til hækkunar í frumvarpinu en hvort tveggja er vegna verðlagsþróunar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka bætur um 9,6%. En við síðari útreikning stefnir í 13% hækkun á árinu 2008 og áætluð verðbólga á næsta ári hækkar þetta enn frekar. Ef fylgja ætti hækkun á lífeyri samkvæmt eldri ákvörðun hefði þurft að hækka lífeyri um tæp 20% nú um áramótin.

Við endurskoðun frumvarpsins var ákveðið að tryggja þeim sem hafa lágmarksbætur eða lægstu bæturnar 19,9% hækkun en öðrum 9,6% hækkun eins og áætlað var upphaflega í fjárlagafrumvarpinu. Full hækkun mun þannig ná til fjórðungs lífeyrisþega en því miður ekki til allra og það er auðvitað meðvituð ákvörðun að reyna að tryggja að þeir sem lægstar bæturnar hafa fái þá að minnsta kosti um það bil 20% hækkun strax um áramót.

Liður sem breytist líka í frumvarpinu er Ábyrgðasjóður launa sem hækkar um 862 millj. kr. þar sem það fer upp í 1.883 millj. kr. eða hækkar sem sagt þarna verulega þar sem reikna má með fleiri gjaldþrotum fyrirtækja. Það er svona varúðarákvörðun eða spá um það sem hugsanlega gæti gerst.

Sömuleiðis hækkar framlagið til Atvinnuleysistryggingasjóðs um rúma 10 milljarða og verður 17,6 milljarðar og þá eru millifærðar inn á Atvinnuleysistryggingasjóð 110 millj. kr. undir liðnum Námskeiðahald og átaksverkefni og önnur úrræði til þess að tryggja að menn geti sinnt betur þessum þáttum í vaxandi atvinnuleysi.

Þá nefna lækkun um 400 millj. kr. til fæðingarorlofssjóðs en sá liður verður 10 milljarðar kr. í stað 10,4 milljarða. 80% hlutfalli af launum er haldið en sett hámark við 400 þús. kr. greiðslu á mánuði. Tekjuviðmiði var breytt á síðasta þingi og fært nær í rauntíma og það verður óbreytt. Þarna er enn eitt dæmið um að menn reyna að hlífa þeim sem hafa lakari tekjurnar en taka örlítið meira af þeim sem hafa betri tekjurnar þar sem er sett tekjuhámark út úr fæðingarorlofssjóðnum við 400 þús. kr. Maður gerir sér grein fyrir því að þetta getur haft áhrif á töku fæðingarorlofs — hugmyndin um að hafa þetta hámark mun hærra var einmitt til þess að tryggja að feður tækju fæðingarorlof og þetta gæti hugsanlega haft einhver áhrif á það en það verður þá að koma í ljós og endurskoða síðar ef menn eru ósáttir við þessa breytingu.

Það eru síðan nokkrar færslur og það hefur verið að þvælast fyrir fólki sem hefur verið að skoða allar þessar breytingartillögur að það er töluvert af færslum á milli liða í frumvarpinu og hefur það valdið töluverðum misskilningi.

Þannig er t.d. breyting til lækkunar á félagsmálum, ýmis starfsemi í liðnum 07-799. Þar er um að ræða lækkun upp á 526 millj. kr. sem reiknast sem lækkun hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu en um er að ræða fyrst og fremst færslu á liðum á milli ráðuneyta þar sem t.d. meðlög sem heyra undir ráðuneyti sveitarstjórnarmála færast yfir til samgönguráðuneytisins og sérstakar ráðstafanir vegna aflasamdráttar færast einnig til samgönguráðuneytisins og skýrir það töluna.

Ég tók þarna aðeins stærstu liðina sem heyra undir ráðuneytið en almennt lækka ríkisstofnanir um 2%–4% jafnvel allt að 4,5% samkvæmt tillögunum. Auðvitað er þetta umtalsverður niðurskurður þó að skoða verði hann í samhengi við tekjurnar. Ef við tökum vaxtagjöldin annars vegar og tekjurýrnunina hins vegar þá minnka ráðstöfunartekjurnar um næstum fjórðung og þá er ekki stórt skorið ef menn geta komist af með að lækka útgjöld um 2%–3%.

Í lokin varðandi félags- og tryggingamálaráðuneytið er mjög mikilvægt að gengið verði sem fyrst frá flutningi málefna aldraðra frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og gengið verði frá þeim tekjubreytingum og gjaldabreytingum sem því fylgja í fjárlagavinnunni. Vonandi hefst það fyrir 3. umr. Eftir umræður á sameiginlegum fundi félags- og tryggingamálanefndar og heilbrigðisnefndar um stöðu Tryggingastofnunar og Sjúkratryggingastofnunar er ljóst að betur þarf að fara yfir skiptin þar á milli og skoða hvort þau hafa einhver áhrif á fjárlagaliði.

Í þessu samhengi er rétt að skoða framlög til öldrunarstofnana og hvernig verkaskiptingin er þar á milli. Það liggur fyrir að öldrunarstofnanirnar eru með töluverðan halla á þessu ári en aðeins lítill hluti er bættur í fjáraukalögum. Spáð hefur verið að halli öldrunarstofnana á landinu sé hálfur til heill milljarður og verði það niðurstaðan getur verið erfitt að skera enn frekar niður á þessum stofnunum þannig að ég áskil mér rétt til að þetta verði skoðað sérstaklega í nefndinni í framhaldinu.

Ég valdi að fjalla fyrst og fremst um félags- og tryggingamálin en ætla aðeins að koma inn á menntamálin. Þar eru stærstu upphæðirnar í tengslum við háskólana þar sem greiðslur til Háskóla Íslands lækka um 833 millj. kr., fyrst og fremst vegna frestunar á 656 millj. kr. framlagi til rannsókna. En framlagið var samkvæmt samningi og var fyrsta greiðslan á árinu og nú er framlagi næsta árs frestað. Auðvitað er mjög erfitt að glíma við það að skera niður rannsóknarsjóðina þótt það sé að sumu leyti réttlætanlegt vegna þess að þar er ekki um að ræða fastlaunaða vinnu. Ef menn hafa ætlað að ná svipuðum árangri hefði þurft að fara í niðurskurð á störfum innan háskólanna. Rannsóknarframlag til annarra háskóla er skorið niður og þetta eru sársaukafullir niðurskurðir þegar efla þyrfti rannsóknir. Þó er reynt að halda framlögum til rannsókna á atvinnuvegum á öðrum liðum.

Þetta ásamt lækkun á greiðslum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru stærstu sparnaðarþættirnir í framlögum til menntamála. Þó verður að taka fram að í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 30% hækkun frá áætlun 2008 til lánasjóðsins eða um 1.785 millj. kr. Þar er m.a. gert ráð fyrir 2 milljarða framlagi í afskriftarsjóð. Við endurskoðun áætlunar fyrir 2009 hvað varðar nemendafjölda telur sjóðurinn sig geta lækkað framlög til LÍN um 469 millj. kr. og þess þarf þó að gæta þegar sú upphæð er nefnd að þá er búið að gera ráð fyrir 200 millj. kr. hækkun vegna breytinga á útlánareglum sjóðsins frá því í nóvember síðastliðnum þar sem reynt var að koma til móts við tillögur Sambands íslenskra námsmanna erlendis og hækka framlög til námsmanna erlendis.

Í frumvarpinu er jafnframt hækkun upp á 109 millj. kr. vegna vaxtastyrks samkvæmt sama samkomulagi en í tillögunni eins og hún er lögð fram hér í 2. umr. fjárlaga er reiknað með að lánasjóðurinn gangi á eigið fé, sem nemur einum milljarði kr., og lækkar þá ríkisframlagið sem því nemur. Ekkert af þessu á að leiða til rýrnunar á kjörum námsmanna umfram verðbólgu, sem skerðir kjör námsmanna eins og annarra, og verður að treysta á að svo verði ekki í ár, þ.e. að niðurskurður á lánasjóðnum gangi einungis tímabundið á eigið fé en verði ekki til skerðingar hjá námsmönnum.

Almennt eru framlög til skóla lækkuð um 3% sem verður að teljast allvel sloppið þegar haft er í huga að fjárlögin gerðu ráð fyrir 10% hækkun á launum og 13,5% á öðrum þáttum, eins og áður sagði, og tekjufall ríkisins er margfalt hærra en þessi 3%.

Nokkur atriði eru í tillögum menntamálaráðuneytisins um niðurskurð eða atriði sem ekki ná inn í fjárlögin sem valda mér töluverðum áhyggjum og vonbrigðum. Ég átti ekki von á að rannsóknarsetur Háskóla Íslands úti á landi yrðu skorin niður. Spara á um 24 millj. kr. á Snæfellsnesi, Hornafirði, Húsavík og Austurlandi eða um 6 millj. á hverjum stað. Allt eru þetta góð verkefni sem stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á þessum svæðum og þetta þarf að skoða á milli 2. og 3. umr.

Það sama gildir um skráningu skjala á vegum Þjóðskjalasafns en skráningin hefur verið í gangi úti á landi og verið hluti af atvinnuátaki. Hér er lækkunin 25 millj. kr. og þetta þarf einnig að skoða milli 2. og 3. umr. Loks má nefna að hætt er við tvö störf sem áttu að koma til í Húnavatnssýslu samkvæmt nýrri áætlun um uppbyggingu atvinnulífs á Norðvesturlandi á svæði sem hefur búið við neikvæðan hagvöxt og var látið gjalda þenslunnar á liðnum árum.

Fyrir liggja skýrslur bæði fyrir Norðausturland og Norðvesturland þar sem átti að bregðast við byggðaþróuninni með því að leggja 200 millj. til uppbyggingar atvinnumála á hvoru svæði og auðvitað þarf að ræða á milli 2. og 3. umr. hvort menn ætli ekki að standa við þessar nýju skýrslur. Erfitt er að að sætta sig við að einn liður sé skorinn út í Húnavatnssýslunum um 17 millj. kr.

Þá batt ég vonir við að menn létu í friði fjárveitingar sem voru samkvæmt Vestfjarðaskýrslu og nýjum áætlunum fyrir svæðið, eins og ég sagði áður, og treysti á að menn skoði þetta betur síðar.

Að venju undanfarinna ára, eins undarlegt og það nú er, virðist fjárlaganefnd hafa haft það hlutverk að bæta alltaf inn upphæðum einhvers staðar á bilinu 7–8 millj. kr. á hverja náttúrustofu. Sem er það framlag sem menn hafa saknað og spurt um hér í 2. umr. og það hlýtur að koma til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og væntanlega verður bætt við náttúrustofurnar.

Auðvitað kalla allar aðgerðirnar á að menn skoði fleiri þætti með hugsanlegan niðurskurð í huga til þess að geta gert þessar leiðréttingar og auðvitað snúa fleiri sársaukafullir þættir sérstaklega að landsbyggðinni. Það er alvarlegt að í þessari umræðu virðast menn líta á atvinnuleysistölur og tala um að atvinnuleysi sé lítið á Vestfjörðum eða á Norðvesturlandi. En staðreyndin er sú að af þessum svæðum hefur fólk flutt jafnóðum og það hefur tapað vinnunni. Við höfum horft á fólksfækkun upp á tugi prósenta og menn mega ekki falla í þá gildru að halda að þess vegna þurfi ekkert að gera á þessum svæðum. Þeim mun frekar þarf að hindra að fólksflóttinn eigi sér stað með því að efla atvinnu á viðkomandi svæðum.

Í menntamálum ætla ég að minnast á landbúnaðarháskólana. En ekki hefur tekist að ljúka yfirfærslu skólanna á Hólum og Hvanneyri frá landbúnaðarráðuneyti yfir í menntamálaráðuneyti með nægri fjárveitingu. Þessir skólar eru báðir orðnir háskólar en hafa ekki fengið fjárveitingu sem slíkir. Að vísu er gert ráð fyrir töluverðri fjárveitingu í fjáraukalögum og þar með gerður upp hali sem hefur fylgt Hólaskóla. Ég átti þátt í gerð skýrslu og tillögusmíð fyrir háskólann á Hólum sem byggði á að skólanum yrði sköpuð þau skilyrði sem lög um háskóla gera ráð fyrir.

Frá stofnun háskólans hafa fjárframlög til hans verið í fjáraukalögum og það er raunar einnig nú. En til að skólinn fái tíma og tækifæri til endurskipulagningar og aðlögunar að almennum háskólalögum samþykkti starfshópur um skólann að leggja ætti skólanum til árlega 115 millj. kr. til viðbótar næstu þrjú árin, að minnsta kosti á meðan væri verið að endurskipuleggja starfið í skólanum og raunar á svæðinu, vegna þess að undir þessum fjárveitingum hafa verið óskýrð mörk á milli sjálfs skólastarfsins og staðarhalds svo eitthvað sé nefnt.

Þessi samþykkt starfshópsins hefur ekki ratað inn í fjárlögin þrátt fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar á tillögu starfshópsins. Þetta tel ég að þurfi að laga því annars mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Hólaskóla nema að menn ætli enn einu sinni að gera út á það að treysta á fjáraukalög á nýju ári.

Þannig er raunar farið með fleiri stofnanir. Þegar ég kom að gerð fjárlaga í fyrsta skipti í fyrra kom mér á óvart að svo virðist sem ákveðnar stofnanir, einkum heilbrigðisstofnanir, gera út á að fá leiðréttingar í fjáraukalögum. Þannig hafa ráðuneyti reynt að veita aðhald með því að áætla heldur naumt en reyna að skera menn niður úr snörunni með fjáraukalögum árið eftir.

Af því að ég nefndi hér nokkur hagsmunamál landsbyggðarinnar sérstaklega get ég ekki yfirgefið ræðustólinn án þess að skora á samgönguráðherra og samgöngunefnd að gæta þess að í 5,5 milljarða niðurskurði á vegaframkvæmdum verði ekki aftur skornir niður sömu vegaspottarnir og voru látnir gjalda þenslunnar fyrir tveimur til þremur árum. Brýnt er að halda áfram framkvæmdum við Vestfjarðaveg 60 á sunnanverðum Vestfjörðum og ég treysti að menn hafi það í huga í framhaldinu.

Auðvitað eru fleiri verkefni sem er sárt að sjá á eftir í þessari fjárlagagerð. Hér eru t.d. tillögur um að fresta byggingu gestastofu í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi og á Látrabjargi. Reiknað er með lokun Hornstrandastofu og Surtseyjarstofu og alls á að spara með þessu um 92 millj. kr. Þetta er í sjálfu sér ekki í samræmi við hugmyndir um að efla ferðamennsku og reyna að færa hana á fleiri svæði út frá Gullfoss- og Geysissvæðinu og Bláa lóninu yfir á fjarlægari svæði. Töluvert hefur verið horft á Snæfellsnesið og jafnvel út á Látrabjarg sem og á fleiri staði. Ég held að menn þurfi að huga að þessu í tengslum við umræðu um ferðaþjónustu.

Ég hef ekkert fjallað um atvinnumálin sem eru veigamikill þáttur í sambandi við fjárlögin þ.e. með hvaða hætti okkur tekst að auka framleiðslu, nýta orku og auka matvælaframleiðslu til að spara okkur gjaldeyri. Hvernig við getum snúið okkur í því að nýta betur það sem íslenskt er? Ég nefndi einhvers staðar í stuttri umræðu utan dagskrár að nú ættum við að nýta okkur íslenska sementið og hætta að flytja sement inn frá Danmörku. Við eigum öfluga sementsverksmiðju sem getur annað allri innanlandsþörf miðað við samdráttinn og hefur framleitt 150 þús. tonn og stefnir í að framleiðslan detti niður fyrir 100 þús. tonn að óbreyttu en stórar steypustöðvar flytja enn inn erlent sement, að því ég best veit. Gengisskráningin ætti að hjálpa okkur að flytja slík viðskipti hingað heim.

Ég hef sjálfur verið óhræddur við að segja að menn eigi að skoða áframhald hvalveiða. En þar verður að vega hagsmunina. Nefnt hefur verið í umræðunni og full ástæða til að benda á að við eigum að nýta okkur ferðamannastrauminn og þá aðstöðu sem til er til að taka á móti ferðamönnum og reyna að auka gjaldeyrinn.

Tíminn leyfir í sjálfu sér ekki að ég fari ítarlegar yfir fjárlögin að öðru leyti. Mikil vinna er eftir við að fínpússa þau. Bæta inn safnliðum og skoða frekar einstaka liði fyrir 3. umr. Ég ítreka þá skoðun mína að fjárlögin og framkvæmd þeirra eigi að vera í stöðugri endurskoðun og skoðast formlega á þriggja mánaða fresti á næsta ári. Þar sem við fótum okkur í nýju umhverfi, þurfum við að geta fylgst með atvinnuástandi, tekið ákvarðanir til að bregðast við varðandi úrræði fyrir heimilin og vegna hugsanlegs verðbólguskots, skoða gengisþróun og fleira í þeim dúr.

Heilmikil vinna er eftir en ljóst að fjárlögin eru gerð við óvenjulegar aðstæður og þess vegna er rétt að við höfum í huga að þau þurfa endurskoðun fljótlega.