136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:54]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það virðist svo miðað við umræður í dag að tekist hafi mjög góð tengsl milli þeirra sem eru í fjárlaganefnd því að þeir keppast við að hrósa ræðum hvers annars og tala um að þarna hafi verið flutt hver tímamótaræðan á fætur annarri. (Gripið fram í: Við biðum eftir þessu.)

Að sjálfsögðu verður að taka undir það að margar góðar ræður hafa verið haldnar, kannski ekki endilega af þeim sem sitja í fjárlaganefnd en samt skal ekkert dregið úr því að vel hafi til tekist hjá mörgum. Meðal annars fylgdist ég af athygli með ræðu hv. þm. og varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, en ég mun víkja að henni á eftir.

En ég verð að taka undir það sem kom fram í umræðum í morgun varðandi frumvarpið sem hér um ræðir áður en það var tekið á dagskrá. Það var í raun byrjað á nokkuð öfugum enda vegna þess að frumvarpið skorti allar forsendur til þess að hægt væri að leggja það fram í því formi sem það er. Það vantar svo gríðarlega mikið af upplýsingum. Þar er í raun ekki við fjárlaganefnd að sakast heldur við ríkisstjórnina sem dregur og hefur dregið að koma með nauðsynlegar upplýsingar til þess að fjárlagavinnan gæti gengið með eðlilegum hætti eins og greinilega kemur fram, að hluta til með vísun til þess sem kemur fram í nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar en þó mun skýrar í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar.

En það er ljóst að við hrun íslenska efnahagskerfisins sem var í raun staðfest með neyðarlögunum sem samþykkt voru á Alþingi 6. október síðastliðinn, þ.e. lög um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, að grípa þyrfti til víðtækra aðgerða í efnahagsmálum og stjórnmálum. Það var ljóst þá þegar og jafnvel nokkrum dögum áður.

Strax í kjölfar þess bauð stjórnarandstaðan fram aðstoð sína, alveg skilyrðislausa aðstoð, til þess að málum yrði komið sem best fyrir fljótt varðandi íslenskan þjóðarhag. Stjórnarandstaðan greiddi fyrir afgreiðslu með öllum hætti sem hugsast gat og bauð upp á að mynduð yrði þjóðstjórn við ríkjandi aðstæður.

Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin upplýsingum og öðrum hlutum hjá sér og kaus að hafa það með sínum hætti án þess að nýta sér það góða boð sem kom frá stjórnarandstöðunni um að veita virka aðstoð við að stuðla að endurreisnarstarfi í þjóðfélaginu.

Þegar efnahagshrunið reið yfir datt mér ekki annað í hug en að gripið yrði til sérstakra og víðtækra ráðstafana af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna þess sem allir gátu séð að taka þyrfti sérstaklega á í ríkisfjármálunum. Það var ljóst þá þegar í lok september og var alla vega staðfest með bankahruninu í byrjun október að efnahagshrunið mundi þýða mjög mikla tekjulækkun ríkissjóðs. Það var ljóst að mjög gildir gjaldendur voru farnir og að gjaldendum almennt mundi fækka. Það var ljóst að það mundi verða atvinnuleysi, því miður, og það var ljóst að tekjur mundu dragast verulega saman hjá stórum hópi fólks.

Í kjölfar þessa var jafnframt ljóst að neysla mundi dragast saman sem ylli því að tekjur af neyslusköttum minnkuðu sem því næmi. Það bar því brýna nauðsyn til að sá aðili sem var með mestu ölvunareinkennin og teygað hafði úr öllum bikurum óráðsíunnar í botn í efnahagsuppsveiflunni svokölluðu, þyrfti að bregðast sérstaklega við. Þar var um tvennt að ræða: Að halda áfram svo sem verið hafði og leitast við að spara eitthvað af handahófi eins og þær tillögur sem koma frá meiri hluta fjárlaganefndar bera greinilega merki um. En ég tek viljann fyrir verkið því að það er alveg ljóst að þeir sem standa þar að eru að gera sitt besta og skal ekkert dregið úr því. Það er samt sem áður ljóst miðað við hvernig ríkisstjórnin stendur að málum og hvernig hún skammtar upplýsingar til fjárlaganefndar að verið er að spara og reyna að stoppa í göt af handahófi af því það er ekki tími til þess að móta nægilega markvissa stefnu.

Ég gat ekki annað séð eða annað heyrt — (Iðnrh.: Þú ert alltaf …) já, þú saknar þess þegar ég er ekki í ræðustól, hæstv. iðnaðarráðherra. Ég gat ekki annað annað heyrt af ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar en að hann væri mér í raun sammála þegar hann fjallaði um þessi atriði.

Leita þurfti víðtækrar sáttar um það milli stjórnmálaflokkanna að móta varanlega leið til sparnaðar í ríkisútgjöldum. Fyrri leiðin var valin, að leitast við að draga úr eyðslu ríkisins að nokkru, en því fór fjarri að nóg væri að gert og má öllum vera ljóst sem sjá það frumvarp sem fjárlaganefnd leggur hér fram. (Iðnrh.: Þú ert að læra þetta.)

Nú skal ekki gert lítið og ítrekað skal ég taka fram að ég geri ekki lítið úr vinnu fjárlaganefndar við að reyna að lagfæra handónýtt fjárlagafrumvarp sem nefndin hafði í höndunum. Miðað við aðstæður má segja að nefndin hafi í sjálfu sér unnið ágætt verk miðað við þær gefnu forsendur og upplýsingar sem nefndin hefur og hafði úr að moða við vinnu sína. Það liggur hins vegar fyrir og hefur verið staðfest í umræðum hér, og þar vísa ég einkum til þess sem þrír hv. þingmenn, þeir Guðjón Arnar Kristjánsson, Jón Bjarnason og Magnús Stefánsson, hafa sagt við þessar umræður en þar kom m.a. fram að forsendur þessa fjárlagafrumvarps sem við erum nú að ræða eru vægast sagt mjög vafasamar. Tölulegar forsendur vantar, eða eins og segir í áliti minni hluta fjárlaganefndar, sem þrír ofangreindir hv. þingmenn standa að, með leyfi forseta:

„Af þeim svörum sem minni hlutinn fékk við spurningum sínum má ráða að ekki liggja fyrir nauðsynlegar forsendur fyrir frumvarpinu eins og það er nú. Ekki er búið að endurmeta þjóðhagsspá sem er einn mikilvægasti grunnur fjárlagagerðarinnar. Ekki liggja fyrir greiðsluáætlanir, engin rekstraráætlun, engin stefnumótun til framtíðar, ekki er búið að meta hvert hagkvæmasta skuldahlutfall ríkissjóðs er, lánakjör liggja ekki fyrir, engin áætlun um mögulega endurfjármögnun lána eða kjör vegna þess. Ekki liggur fyrir áætlun um það hvernig þjóðarbúið vinni sig út úr stöðunni á tveimur til þremur árum, eins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kveður á um. Í rauninni skilar ríkisstjórnin auðu varðandi margar grunnforsendur frumvarpsins.“

Þá spyr maður: Hvað erum við eiginlega að fjalla um þegar fyrir liggur að nauðsynlegar forsendur fyrir frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir eru ekki fyrir hendi? Ekki er búið að endurmeta þjóðhagsspá, greiðsluáætlanir liggja ekki fyrir og engin rekstraráætlun og stefnumótun til framtíðar. Um hvað erum við þá að fjalla? Hvers konar frumvarp er þetta? Er ekki bara um að ræða ákveðið form sem er sett fram til að uppfylla ákveðna lagaskyldu um það að afgreiða fjárlagafrumvörp á tilsettum tíma án þess að innihaldið sé með þeim hætti sem það á að vera, að gefa raunsanna mynd af því með hvaða hætti tekjur og gjöld eiga að þróast og verða á komandi ári, þ.e. árinu 2009? Mér virðist, virðulegi forseti, sem þannig sé staðið að þessum málum, það sé í raun með þeim hætti að fjárlagafrumvarpið byggi ekki einu sinni á sandi.

Hitt er ljóst að fjárlögin eru afgreidd með miklum halla, en þá liggur fyrir að hallinn verður enn meiri þegar upp er staðið ef frumvarpið verður afgreitt frá Alþingi í þeim búningi sem það liggur nú fyrir, m.a. vegna þess að ýmis gjöld eru, eftir því sem ég best get séð, verulega vanáætluð.

Eins og frumvarpið lítur nú út er miðað við að fjárlögin verði afgreidd með um 100 milljarða halla. Fjárlagahallinn heitir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, svo vísað sé í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 395,8 milljarðar kr. sem er 54,6 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður -93,1 milljarður kr. sem er hækkun um -36,2 milljarða kr.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það þýðir að fjárlagahallinn er áætlaður samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir upp á tæpar 100 milljarða, 93,1 milljarð. Fjárlagahalli er alvarlegt mál og á ekki að eiga sér stað nema við mjög svo sérstakar aðstæður, styrjaldir, náttúruhamfarir. Ef til vill má segja að þeim hremmingum sem við erum nú lent í megi jafna til hamfara og það geti réttlætt halla á fjárlögum. En skoðum það örlítið nánar og nú ætla ég að biðja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að hlusta en standa ekki í gaspri við samflokksmenn sína. (KÞJ: Ég geri það ekki.) Hann sagði í ræðu sinni hér fyrr í dag, eftir því sem ég gat best greint, að ekki væri gengið nógu langt til að taka á ríkissjóðshallanum. Ég er honum algjörlega sammála, en ég spyr: Hvað segir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar — (Iðnrh.: Fjármálaráðherra …) Já, á að stokka þannig upp og hvað verður þá um hæstv. iðnaðarráðherra? (Iðnrh.: Eins og allt … sem í heiminum er, … vindi.) Já, það hlaut að koma að því. En ég spyr hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformann fjárlaganefndar: Finnst honum boðlegt að bjóða upp á svona plagg eins og meiri hluti fjárlaganefndar gerir?

Honum finnst það greinilega því að annars stæði hann ekki að meirihlutaálitinu, stæði ekki að því að bera upp slíka tillögu á Alþingi. En ég reikna með að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafi þurft að ná samkomulagi í fjárlaganefnd og æskilegt væri að heyra frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, varaformanni fjárlaganefndar, hvaða útgjöld það eru sem hv. þingmaður telur að skera hefði mátt niður miðað við það orðfæri og orðalag sem hann hafði í ræðu sinni fyrr í dag.

Þegar fjárlög eru afgreidd með halla er um seðlaprentun að ræða, seðlaprentun sem engin innstæða er fyrir. Útgjöldum nútímans er velt yfir á framtíðina, núkynslóðin tekur lán hjá framtíðinni, hjá börnum og barnabörnum. Er það afsakanlegt, eru þær aðstæður uppi í þjóðfélaginu að ríkisstjórnin skuli gefast upp við að ná jöfnuði í ríkisútgjöldin en ákveði að taka lán hjá framtíðinni upp á 100 milljarða svo sem þetta frumvarp til fjárlaga hljóðar upp á?

Prentvélar til að prenta seðla fyrir verðmætum sem ekki eru til, hvaða afleiðingar hefur það? Dregur það úr verðbólgu? Er það líklegt til að við náum sem fyrst tökum á þeim vandamálum sem einkenna nú íslenska þjóðfélagið? Nei, því miður er staðreyndin sú að hallarekstur ríkissjóðs kallar á aukin lán til ríkisins og eykur um leið þrýsting á lánakerfið. Hallarekstur ríkisins þýðir því að verð á peningum fyrir atvinnureksturinn og fólkið í landinu verður hærra en annars mundi vera. Uppgjöf fjárlaganefndar fyrir því verkefni að afgreiða hallalaus fjárlög kallar á verri lánakjör fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. Aukin seðlaprentun vegna hallareksturs ríkissjóðs eykur verðbólguþrýsting í þjóðfélaginu. Verðbólga er nú um 18% og brýnt hefði verið að reyna með öllum ráðum að draga úr henni.

Þetta fjárlagafrumvarp stefnir þó í allt aðra átt. Aðgerðir í ríkisfjármálum, sem boðaðar eru, ýta undir þenslu en varða ekki veginn til farsællar efnahagsstjórnar. Hallarekstur ríkissjóðs býr til fölsk verðmæti, ekkert ósvipað því sem gerðist á íslenska hlutabréfamarkaðnum þegar hann stóð sem hæst. Virði hlutabréfamarkaðarins hér hefur rýrnað um 3.000 milljarða á tæpum tveimur árum. Þar voru skýr dæmi um verðmæti sem aldrei voru til, voru reist á sandi eins og þetta fjárlagafrumvarp en þar voru þó verðmæti sem voru forsenda lána og eyðslu í þjóðfélaginu. Hér er það ríkið sem stendur að því að búa til verðmæti sem engin innstæða er fyrir. Stærsti munurinn á slíkri bólu og bólu verðbréfamarkaðarins er að bóla verðbréfamarkaðarins þýðir tap einstaklinga og fyrirtækja þegar bólan hjaðnar. Hallarekstur ríkissjóðs leiðir hins vegar til aukinnar verðbólgu, aukinnar sóknar í lánsfé og í raun er slíkt dæmi um óábyrga efnahagsstjórn.

Hallarekstur ríkissjóðs eykur vandann en leysir hann ekki.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, segir m.a. undir heitinu Hvetjandi skattaumhverfi:

„Stefnt skal að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar.“ — Hver er síðan raunin? Þvert ofan í fyrirheit ríkisstjórnarinnar á að hækka skatta en ekki lækka. Smjörþefinn af þessu fengum við með hækkunum ríkisstjórnarinnar á brennivíni og olíu sem Alþingi samþykkti með hraði, því miður, á fimmtudaginn var. Aðrar skattahækkanir eru boðaðar þannig að þvert ofan í boðaða stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta á að hækka þá.

Þetta þýðir að hluti hins opinbera eykst og verður sennilega yfir helmingur af þjóðarútgjöldum á næsta ári. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá afrekað það á valdatíma sínum að eiga Evrópumet í hækkun ríkisútgjalda miðað við þjóðarframleiðslu. Og það er töluvert að eiga, að hafa slíkt met í farteskinu fyrir flokk sem vill stefna að samdrætti í ríkisútgjöldum.

En Sjálfstæðisflokkurinn lagði af stað undir allt öðrum formerkjum. Hann lagði af stað undir þeim formerkjum, og fékk stuðning kjósenda til þess að fara með völd til að lækka ríkisútgjöldin, til að draga úr bákninu. Báknið burt var lagt til grundvallar í upphafi vegferðarinnar, en í stað þess að gera það var báknið aukið og það sem verið er að boða með þessu fjárlagafrumvarpi er að enn á að auka báknið. Það á enn að setja fleiri bagga á hvern skattgreiðanda í landinu, það er það sem verið er að boða af hálfu ríkisstjórnarinnar og handverksmanna hennar í meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég spyr vegna þessarar hækkunar: Skyldu menn ekki vera stoltir af því afreki sínu í Valhöll að eiga Evrópumet í hækkun ríkisútgjalda? Og má ekki Samfylkingin brosa út í bæði eins og köttur við rjómaskál yfir að hafa svona viljuga meðreiðarsveina til að koma á Sovét-Íslandi, óskalandinu, eða ýta því a.m.k. nokkuð nær?

Það virðist stefna í að hlutur ríkisins í útgjöldum og tekjum verði yfir 50% af þjóðarframleiðslu á árinu 2009.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, svo að ég haldi nú áfram að vitna í það merka plagg, segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ýtrasta aðhalds sé gætt í rekstri hins opinbera þannig að fjármunir skattgreiðenda séu nýttir sem best.“ — Ýtrasta aðhald. Þá spyr maður: Ber þetta fjárlagafrumvarp merki um að ýtrasta aðhalds sé gætt? Svarið er nei. Það eru margvíslegar sparnaðarleiðir sem hefði mátt fara og sem hefði átt að grípa til ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Það hefði átt að gera það og í raun hefði það líka verið í samræmi við það sem segir í því merka plaggi sem undirritað var af Davíð Oddssyni og Árna M. Mathiesen og sett fram og samþykkt sem tillaga til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem kveðið er á um það með hvaða hætti Íslendingar áforma að láta sjálfvirka sveiflujöfnun í ríkisfjármálum virka til fulls á árinu 2009, eins og segir í hinum merkilega 13. lið þess kafla. Þar segir m.a.:

„Opinber umsvif verða háð ársfjórðungslegu þaki á hreinar lántökur og samkomulag um fjárlög ársins 2009 er lykilskilyrði fyrir lokum á fyrstu endurskoðun á stuðningsfjármögnuninni.“

Þá veltir maður fyrir sér hvað átt sé við með þessu orðalagi. Hvað þýðir þetta?

Síðan segir í 14. lið í fylgiskjalinu með þessari merku þingsályktunartillögu um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum: „Við ætlum okkur að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri áætlun um ríkisfjármálin.“ — Þetta virðist vera fyrsta skrefið í hinni metnaðarfullu áætlun um ríkisfjármálin sem handverksmenn ríkisstjórnarinnar í meiri hluta fjárlaganefndar bera hér á borð fyrir þjóðina. Og hver er þessi metnaðarfulla áætlun um ríkisfjármálin? Jú, hér er boðið upp á það að frumjöfnuður verði orðinn jákvæður á árinu 2011, þ.e. ekki við fjárlagaafgreiðslu næsta árs heldur þarnæsta árs. Með hvaða hætti ætti það að vera miðað við það sem hér liggur fyrir og þau fyrirheit sem eru gefin — það er varla hægt að kalla þetta fyrirheit, þetta er miklu frekar stefnumörkun sem er mótuð í þessu. Ég get ekki séð að þar sé farið að í samræmi við það sem talað er um í þessum punktum sem formaður bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddsson, skrifar undir og fjármálaráðherra. Mér sýnist sem þar sé töluvert annað upp á teningnum.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, sem hefur af stakri prýði reynt að leysa erfitt handverk — ég skal alveg taka undir það og tel að hann sé ekki öfundsverður af því hlutskipti sínu að starfa fyrir jafnvonda og úrræðalausa ríkisstjórn og raun ber vitni, en reynir að gera sitt besta til þess. Í vanda sínum kallar hann hér ítrekað eftir því hvað stjórnarandstaðan hefði fram að færa varðandi sparnaðarleiðir sem ríkisstjórnarflokkarnir koma greinilega ekki auga á. Ég hef fylgst með því í umræðum hér í dag að hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, hefur ítrekað kallað eftir því og jafnan haft minnisbókina sína á lofti og farið í andsvör við þá fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað og innt þá grannt eftir því hvað þeir hefðu fyrir að leggja varðandi sparnaðartillögur.

Það er alltaf spurningin um hvar upphafið sé og hvar við byrjum í málinu en ég kem að því í lok ræðu minnar. Fyrsta skrefið sem hefði þurft að skoða er heildarendurskoðun á launakerfi ríkisins, breyting á launum. Hvaða launum þá helst? Hæstu launum opinberra embættismanna, hvort heldur það eru ráðherrar, þingmenn, forstöðumenn stofnana eða banka o.s.frv. Endurskoðun á eftirlaunum og eftirlaunaskuldbindingum og það að koma æðstu embættismönnum og alþingismönnum í sömu kjör hvað varðar eftirlaun og gilda um almenning í landinu, aðra opinbera starfsmenn. Þar var spurningin um að leggja niður stofnanir með tilliti til aðstæðna vegna þess að allt aðrar aðstæður eru uppi á árinu 2009 en var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Það verður að taka tillit til þess. Það þarf að fara ofan í saumana á þyngstu útgjaldaliðunum og það verður að segja þá sögu eins og hún er, þá er ég að tala um menntamál og félagsmál, og gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru í þeim efnum. Þar talar ríkisstjórnin algjöra tæpitungu.

Þjóð sem veður ekki í peningum upp fyrir mitti þarf að hugsa með öðrum hætti en þjóð sem heldur að hún sé næstríkasta þjóð í heimi, eins og fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna héldu að við værum frá upphafi kjörtímabilsins þar til í byrjun október. Á tímum þrenginga verður að skera niður allan óþarfa. Af hverju ekki að leggja Varnarmálastofnun niður? Hvar er sú ógn sem um er að ræða, hvar er váin? Til hvers erum við með Varnarmálastofnun sem kostar jafnmikið og raun ber vitni? Eigum við að hafa loftrýmiseftirlit? Til hvers? Hvaðan stafar okkur hætta í loftrými landsins? Ég veit það ekki og ég hef aldrei fengið skynsamlega skýringu á því.

Ég legg til að loftrýmiseftirlitið verið aflagt með öllu sem og Varnarmálastofnun.

Af hverju ekki að leggja niður öll sendiráð á Norðurlöndum nema e.t.v. sendiráðið í Kaupmannahöfn? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið í Suður-Afríku? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið í Japan? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið á Indlandi? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið hjá þjóðinni sem beitti okkur hermdarverkalögunum, Bretum? Af hverju ekki að leggja niður sendiráð okkar í Berlín? Af hverju ekki að leggja niður sendiráð okkar í Washington DC og láta sendiskrifstofuna hjá Sameinuðu þjóðunum duga?

Og hugsanlega er hægt að spara enn þá meira en þetta. Hér nefni ég bara nokkur dæmi um sendiráð sem ég tel einsýnt að eigi að leggja niður miðað við það ástand og þær aðstæður sem við erum í í dag.

Ég spyr áfram: Af hverju ekki að taka fyrir eyðslu og bruðl í utanríkisþjónustunni sem er til skammar fyrir fátæka þjóð og hneyksli öllum sómakærum Íslendingum?

Ég spyr áfram formann fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson: Af hverju eru útgjöld til forsetaembættisins ekki skorin meira niður en raun ber vitni? Er þörf á því að forsetaembættið viðhaldi sínum dýra lífsstíl á kostnað þjóðarinnar, m.a. með rekstri gistihúss útlendinga í miðborg Reykjavíkur? Er nokkur hemja í því eins og staðan er í dag?

Ég spyr: Getur Alþingi ekki gert betur en það sem kemur fram í frumvarpinu? Í fyrra var samþykkt að sumir þingmenn mættu ráða til sín aðstoðarmenn í hlutastarf, má ekki í ljósi þrenginga þjóðarinnar hætta því? Höfum við efni á því, eru það útgjöldin sem eru brýnust og ekki hægt að komast af án? Ég er ekki að tala um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka sem ég tel að miðað við aðstöðu ríkisstjórnar sé spurning um að gæta jafnræðis, en ég hef aldrei séð nokkra glóru í því að koma upp því kerfi aðstoðarmanna fyrir þingmenn sem gert var í fyrra og ég verð stoltari með hverjum deginum sem líður af því að hafa verið eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að slík tilhögun skyldi komast á.

Ég spyr einnig: Er ekki rétt í bili að afnema allt sem heitir skúffufé ráðherranna, peninga sem þeir mega ráðstafa að eigin geðþótta? Er nokkur ástæða til að hafa það í því árferði sem við erum að tala um? Má ekki taka algjörlega fyrir allt sem því nemur?

Ég vil nefna eitt enn varðandi styrki og millifærslur. Eins og nú háttar, er viðunandi að viðhalda öllu því styrkjakerfi og millifærslum sem um er að ræða í þjóðfélaginu og kostar gríðarlega peninga? Í sumum tilvikum — og þá vil ég taka fram að við erum sammála um að það beri að hafa velferðarkerfi til að tryggja öllum borgurum þessa lands — (Gripið fram í: … bótakerfi.) velferðarkerfi — viðunandi lífskjör, að sjálfsögðu. Það er nauðsynlegt og það er það sem við verðum að sjá sóma okkar í að uppfylla og framfylgja.

En við erum m.a. með annars konar velferðarkerfi og þegar rýnt er í fjárlög undanfarinna ára og það fjárlagafrumvarp sem hér er um að ræða erum við með velferðarkerfi atvinnuveganna í stórum stíl þar sem lagðir eru til, með millifærslum og alls kyns rannsóknarstyrkjum o.s.frv., alls konar hlutir sem gagnast helst þeim sem minnst þurfa á að halda. Þar kemur til skoðunar hvort ekki eigi í því árferði sem nú er frekar að reyna að lækka skatta, draga úr sköttum og afnema velferðarkerfi atvinnuveganna.

Það sem skiptir mestu máli er að þjóðin sníði sér stakk eftir vexti og það er það sem þarf að gera á hverjum tíma. Því miður er staðan sú að ríkisstjórnina skortir úrræði og vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki haft nein úrræði var hún svo lengi að afgreiða hlutina frá sér til fjárlaganefndar og þess vegna erum við komin í þá hönk sem við erum í, Alþingi Íslendinga, með að geta uppfyllt lagaskilyrði um afgreiðslu fjárlaga tímanlega. Ég lýsi allri ábyrgð á þeim vinnubrögðum á hendur ríkisstjórnarinnar sem hefur ekki staðið sig hvað þetta varðar. Þegar bankahrunið varð og setning neyðarlaganna taldi ég sjálfgefið að ríkisstjórnin mundi grípa til ákveðinna aðgerða. Ég taldi að ríkisstjórnin mundi taka sérstaklega fyrir aðgerðir sem vörðuðu ríkisútgjöldin og gera tillögur til markvissra breytinga. Undanfari slíks hefði í raun verið sá að kalla til sérstaka aðgerðanefnd og/eða nefndir til að fara ofan í alla þætti ríkisfjármálanna, bæði hvað varðar tekju- og útgjaldahliðina með mun ákveðnari hætti en fjárlaganefnd getur gert á stuttum tíma. Þar hefðu verið til skoðunar m.a. breytingar á skattkerfi landsmanna og nú ríður á að skattkerfið sé réttlátt. Það þarf að hækka persónuafslátt, það þarf að athuga kosti þess að hafa eitt virðisaukaskattsþrep og lækka virðisaukaskatt. Það þarf að skoða hvaða tekjur hægt er að fá út úr hátekjuskatti. Það er líka ákveðin leiðrétting og eðlilegt réttlæti að taka upp slíka skattheimtu. Það hefði þurft að taka upp heildarendurskoðun á ríkiskerfinu og launakjörum ríkisins. Eins og ég minntist á áðan hefði þurft að afnema óréttlæti eftirlaunakjara forseta, ráðherra, hæstaréttardómara og alþingismanna og miða við það — sem er aldrei eins mikilvægt og einmitt í þjóðfélagsástandi sem við búum við í dag — að skapa þjóðfélag réttlætis og, sem ætti að vera falleg músík í eyrum hv. formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, að skapa þjóðfélag réttlætis og jöfnuðar.

Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir leggur grunn að auknum ríkisútgjöldum og auknum ríkisafskiptum, hlutfallslega miðað við þjóðartekjur. Það er röng leið og ég er alfarið á móti slíkri stefnumótun. Til að byggja upp þjóðfélagið þarf að byggja upp rekstur einstaklinga og fyrirtækja til að það verði þá nýgróandi þjóðlíf sem fólkið í landinu hefur næga atvinnu af og þarf ekki að óttast um framtíð sína, atvinnu og eignir eins og staðan er því miður í dag. Þó að ég dragi ekki með einum eða neinum hætti úr þeirri ógn og þeim ástæðum sem alþjóðleg fjármálakreppa hefur haft þá seig hún yfir með ákveðnum aðdraganda og hún varð að vísu mun krappari en við bjuggumst við og hrunið kom mjög skyndilega seinni hluta sumars og í haust. Ekki var tekið á málum hér innan lands.

Ég minnist t.d. umræðna hér á Alþingi í vor þegar við héldum því fram nokkrir stjórnarandstæðingar að gæta þyrfti að hlutum vegna þess að kreppueinkenni væru að koma í ljós í þjóðfélaginu. Við bentum á það í umræðum, ég man ekki hvort það var í febrúar eða mars, sennilega í báðum þessum mánuðum — ég talaði um það þá að ljóst væri að kreppa væri að síga yfir. Ég talaði um það þá að líklegt væri að veruleg stöðnun yrði komin eða kul á byggingamarkaðnum strax í haust, þ.e. þá í september eða október. Ég áttaði mig ekki á því að það yrði slíkt alkul á þeim tíma þegar ég sagði þetta, svo sem raun hefur borið vitni. En á öll þessi varnaðarorð, á allt þetta sem við sögðum, stjórnarandstæðingar — skollaeyrum var skellt við því og því var ítrekað haldið fram að hlutirnir væru í hinu besta lagi, þetta væri allt saman í góðu lagi. Maður fór jafnvel að trúa því að ríkisstjórnin hefði ráð undir rifi hverju.

Hvað kom síðan í ljós? Það kom í ljós að ríkisstjórnin hafði engin ráð. Og þegar að kreppir kemur enn betur í ljós að ríkisstjórnin hefur engin ráð. Hún er meira að segja svo ráðalaus, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, að það vantar grunngögn til að hægt sé að koma fram með eðlilegt frumvarp til fjárlaga til 2. umr. og eins og formaður þingflokks Framsóknarflokksins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sagði í umræðum í morgun er þetta bara sýndartillaga, þetta væri eins og hún orðaði það bara fyndið. Ég skal ekki taka undir hvað það varðar af því að mér finnst þetta ekkert fyndið, mér finnst þetta bera vott um vinnubrögð sem eru ekki sæmandi fyrir Alþingi Íslendinga. Þar er fyrst og fremst um að kenna ríkisstjórninni sem hefur haldið upplýsingum fyrir sig og heldur upplýsingum fyrir sig og útvegar jafnvel ekki fjárlaganefnd nægjanleg eða nægjanlega góð gögn til að hún geti unnið vinnuna sína af þeim sóma sem henni ber og sem ég veit að hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, vill gera.

Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir leggur grunn að auknum ríkisútgjöldum og auknum ríkisafskiptum. Það er röng leið. Ég er alfarið á móti slíkri stefnumótun og ég tel einmitt eins og nú háttar til að nauðsyn sé á því að byggja upp rekstur einstaklinga og fyrirtækja til að á ný verði gróandi þjóðlíf þar sem fólkið í landinu hefur næga atvinnu og þarf ekki að óttast um framtíð sína, atvinnu og eignir. Það þarf að byggja upp framleiðsluatvinnuveginn.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að nú erum við í þjóðfélagi óttans. Fólk óttast um framtíð sína og möguleika. Með fjárlagafrumvarpinu er ekki verið að breyta um stefnu, það er verið að valda auknum erfiðleikum og hamla gegn því að raunhæft uppbyggingarstarf geti byrjað.

Forréttindaaðallinn á að halda rétti sínum, kvótagreifarnir þurfa ekki að greiða fyrir aðgang að fiskimiðunum, þjóðin nýtur ekki eðlilegra tekna af auðlindum sínum. Ríkisstjórn sem er ekki tilbúin til að koma á því réttlæti að þjóðin fái að njóta auðlinda sinna og hafa af þeim eðlilegar tekjur er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu heldur forréttindastéttirnar.

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir stenst ekki skoðun. Það eru mun fleiri holur í því en matur. Að því leyti er það eins og svissneskur ostur nema það að það eru þó fleiri matarholur í svissneska ostinum. Hér er gerð tilraun til að halda í þjóðfélag sem er ekki lengur til, þjóðfélag sem er horfið og við getum ekki staðið undir. Meðan sú staðreynd er ekki viðurkennd verður stöðugt erfiðara að hefja endurreisnarstarfið og við missum af fleiri og fleiri tækifærum til þess. Mér finnst fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar sorglegur minnisvarði um tilraun til að halda áfram ofneysluþjóðfélaginu þar sem kolvitlaust er gefið.

Virðulegi forseti. Það er fyrir löngu kominn tími til að stokka upp og bregðast við aðstæðum með djörfum hætti sem gæti verið til þess fallinn að (Forseti hringir.) leiða þjóðina út úr erfiðleikunum á sem stystum tíma.