136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:49]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Svavarsson getur reynt að snúa því á haus sem ég var að segja. Í fyrsta lagi varðandi sendiráðin, þá tel ég að mikilvægustu sendiráðin sem við höfum sé sendiráð okkar í New York, þ.e. fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og sendiráð okkar í Brussel, þ.e. annað sendiráðið, ekki sendiráðið hjá NATO, mér er alveg gersamlega óskiljanlegt af hverju við erum með tvö sendiráð í sömu borginni, í Brussel. Ég talaði líka um hvort það geti verið — og þar er ég bara að velta fyrir mér hlutum, ég tel að það þurfi að skoða það nákvæmlega af því að það er annað stjórnkerfi — hvort það geti verið réttlætanlegt að vera með sendiráð í Peking. Í sjálfu sér eru samskipti okkar við þá þjóð ekki slík að það kalli á eða réttlæti sendiráð. Önnur sendiráð í Asíu er gersamlega út í hött að vera með, og það að stofnað skuli hafa verið til þeirra er að mínu viti algerlega glórulaust, sem og sendiráðið í Afríku sem ég hef aldrei áttað mig á hvaða hlutverki hafi gegnt eða hafi átt að gegna. Og eins og ég sagði, miðað við þær breytingar sem orðnar eru í fjarskiptum, möguleikum til ferðalaga og samskipta þjóða í milli þá á að taka þetta miðaldafyrirkomulag sendiráða til endurskoðunar. Það er grundvallaratriði.

Ég held að hv. þm. Gunnar Svavarsson sé að grínast þegar hann neitar að skilja hvað ég á við með velferðarkerfi atvinnuvega þegar hann leggur það að jöfnu að ég eigi við það eða sé að tala um það að endurgreiða tollvirði af bílum, sem var ekkert nema en sjálfsagt. Ég er að tala um það þegar um er að ræða að ríkissjóður, skattborgararnir borga kostnað sem eðli máls samkvæmt á að heyra undir atvinnurekstur og hann á að greiða eins og margvíslegur kostnaður sem verið er að greiða fyrir kvótagreifana af almenningi í landinu.