136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir nefndarálitið sem hún gekk frá í allsherjarnefndinni á sínum tíma. Mjög mikilvægar upplýsingar komu þar fram og ég held að samhljómur sé gagnvart þeim málum sem lúta að fangelsismálum landsins og ég fann fyrir slíku og hef fundið fyrir slíku í umræðu þingmanna.

Hvað varðar vinnubrögðin þá hef ég sagt að ég ber auðvitað fulla ábyrgð á þeim vinnubrögðum sem lagt er upp með í fjárlaganefndinni og um leið hefði ég viljað hafa það með öðrum hætti en að tillögur ríkisstjórnarinnar kæmu inn 11. desember.

Hins vegar var það mat mitt eftir að hafa rætt við fjárlaganefndina að taka tillögurnar til umræðu á þinginu eins og þær lágu fyrir og þess vegna lítur þingskjalið út eins og það gerir. Það eru eingöngu tillögur ríkisstjórnarinnar og síðan tillögur forsætisnefndar sem lúta að rekstri þingsins. Engar aðrar tillögur eru hér til umræðu.

Ég hefði vissulega viljað hafa rýmri tíma og held að það sama gildi um alla í fjárlaganefndinni. Ég held að tímamörkin sem við settum okkur varðandi afgreiðsluna og undirbúninginn séu engum til eftirbreytni. En ég ber fulla ábyrgð á að hafa gert þetta með þessum hætti og vil um leið segja að gott samstarf hefur verið í fjárlaganefndinni um það að taka í burtu fjölmargar aðrar tillögur sem koma þá til umræðu við 3. umr. Ég vil sérstaklega þakka fjárlaganefndarmönnum fyrir þá afgreiðslu eða í raun og veru niðurstöðu sem við náðum fram á fundi í síðustu viku.