136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:07]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það verður að segja alveg eins og er að það er býsna sérstök tilfinning við býsna sérstakar aðstæður að standa í ræðupúlti á Alþingi Íslendinga í kvöld og ræða fjárlög ríkisins í ljósi efnahagsástandsins sem nú er uppi. Þegar fjárlagafrumvarpið var fyrst lagt fram þann 1. október hvarflaði líklega að fáum að aðeins nokkrum dögum síðar væri allt breytt.

Hin gríðarlega miklu umskipti sem urðu fyrstu dagana í október hafa eðlilega sett mark sitt á fjárlagavinnuna, bæði hjá fjárlaganefnd, ráðuneytum og ríkisstjórn. Ekki er of fast að orði kveðið að segja að allt hafi breyst á einni nóttu og menn hafi þurft að vinna gríðarlega mikið á stuttum tíma. Þar hafa margir lagt nótt við nýtan dag.

Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Gunnari Svavarssyni, fyrir frábært starf við afar erfiðar aðstæður. Hann hefur stýrt nefndinni af festu en þó mildi og sýnt mikinn vilja til að leysa mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það tel ég að skipti afar miklu máli við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Auðvitað eru stjórn og stjórnarandstaða ekki sammála í öllum málum en óhætt er að segja að formaður fjárlaganefndar hafi lagt sitt af mörkum til að fækka vandamálum eins og hægt er milli þessara tveggja hópa.

Því verð ég að segja, hæstv. forseti, eins og er og lýsa yfir vonbrigðum mínum með málflutning hluta stjórnarandstöðunnar í umræðum í dag, a.m.k. eins og hún birtist í morgun í málflutningi hv. þm. Vinstri grænna, Jóns Bjarnasonar. Ég tók eftir því í þeirri umræðu að hv. þingmenn í stjórn kölluðu eftir svörum frá þingmanninum í umræðum um afstöðu hans til ýmissa hluta. Hv. þingmaður átti frekar erfitt með að svara efnislega nema hvað ég hjó eftir því að hann sagði að hann væri á móti komugjöldum sjúklinga á sjúkrahús. Gott og vel, að mörgu leyti er hægt að vera sammála hv. þingmanni í því máli, að það er eðlilegt undir venjulegum kringumstæðum en ég mun einmitt hér á eftir fara ítarlega yfir hvernig reynt er að passa upp á velferðarmálin, jöfnuðinn og heilbrigðismálin í fjárlagafrumvarpinu.

Ekki er nóg að segja bara, eins og þessi hv. þingmaður gerði í morgun, að menn séu á móti, það verður að gera þá kröfu að ef menn eru ósáttir við þær tillögur sem hér eru uppi á borðum kynni þeir aðrar til sögunnar.

Ég tók einnig eftir því að hv. þingmaður sagðist vilja skera niður Varnarmálastofnun og svo var eitthvert óljóst tal um NATO upp á um 1.500 millj. kr. Gott og vel, menn geta haft þær skoðanir en ef ég hef heyrt og skilið þingmanninn rétt vildi hann flytja þessi útgjöld yfir á aðra útgjaldaliði. Hann vildi ekki skera þá burt, hann vill bara flytja 1.500 millj. af Varnarmálastofnun yfir á eitthvað annað.

Í ræðu hv. þingmanns var ekkert minnst á tekjur ríkisins eða einhver afstaða kynnt varðandi þær skattbreytingar sem liggja fyrir í frumvarpinu. Þess vegna er ekki nóg að standa í ræðustól Alþingis og gagnrýna allt sem gert er. Ég geri a.m.k. þá kröfu til stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi að hann setji fram einhverja sýn í málunum.

Gott og vel, þetta er eitthvað sem hv. þingmenn Vinstri grænna verða að eiga við sjálfa sig og ef þeir kjósa að haga málum sínum með þessum hætti verður bara svo að vera. Ég vil hins vegar segja, hæstv. forseti, í þessari umræðu að aðrir þingmenn stjórnarandstöðunnar úr hinum tveimur flokkunum hafa ekki fallið í þennan sama pytt og vinstri grænir í umræðunni og ég vil nota tækifærið og þakka fyrir það. Ég þakka fyrir að menn hafa sýnt hér málefnalegt aðhald, komið með hugmyndir, skýrt sýn sína o.s.frv.

Þá að fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Eins og ég sagði áður er unnið undir miklu álagi og með forsendur sem allar eru breyttar frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram. Það var því ekki auðvelt verk sem stjórnvöld stóðu frammi fyrir við tillögugerð vegna 2. umr. Rauði þráðurinn í þeim áætlunum sem við nú ræðum er að standa vörð um velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið. Þannig er lögð meiri áhersla á hagræðingu í rekstri ráðuneyta og stjórnsýslustofnana auk þess sem nokkuð er dregið úr framkvæmdum sem áformaðar voru sérstaklega í samgöngumálum.

Hér er gerð tillaga um að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1 prósentustig, úr 22,75% í 23,75%. Með því er áætlað að tekjur ríkissjóðs hækki um 7 milljarða en að auki er lagt til að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækki um hálft prósentustig þannig að hámarksútsvar sveitarfélaga sem í dag er 13,03% gæti orðið 13,53%. Ég fagna sérstaklega þessu útspili til handa sveitarfélögunum sem mörg hver standa illa fjárhagslega og hafa lengi farið fram á leiðréttingu tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Þetta mun án efa nýtast þeim til tekjuöflunar á næstunni. Það vakti reyndar athygli mína, hæstv. forseti, að ég sá nýlega haft eftir forseta borgarstjórnar í Reykjavík að hann teldi ekki ástæðu fyrir Reykjavíkurborg til að nýta sér það svigrúm sem þarna er kynnt vegna þess að Reykjavíkurborg stæði svo vel. Nú veit ég svo sem ekki hvað er á bak við það en Reykjavíkurborg er með útsvarsprósentu í 13,03% eins og flest önnur sveitarfélög í landinu en þó eru nokkur sveitarfélög, a.m.k. tvö hér á höfuðborgarsvæðinu, sem nýta sér ekki hámarksútsvarsprósentu eins og hún er skilgreind í lögum núna.

Á næstu missirum, og þess vegna nefni ég þetta með sveitarfélögin og útsvarið, mun reyna mjög mikið á sveitarfélögin í landinu og þjónustuna sem þau veita vegna þess að félagslega þjónustan og fjárhagsaðstoðin er á hendi sveitarfélaganna.

Þegar samgöngunefnd, sem ég veiti formennsku, fjallaði um frumvarp til fjárlaga kom einmitt sá kafli fjárlaga til okkar kasta sem snýr að sveitarfélögunum. Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar sem er fylgigagn með frumvarpinu er bent á fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Í frumvarpinu er nefnilega ekki gert ráð fyrir 1.400 millj. kr. aukaframlagi sem hefur farið í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á undanförnum árum og Samband ísl. sveitarfélaga hefur gagnrýnt það mikið.

Ég hef alltaf verið talskona þess að treysta fjárhag sveitarfélaganna en þó hef ég haft efasemdir um hversu mikið jöfnunarsjóðurinn hefur vaxið. Það getur ekki talist eðlilegt að allt að 30% af tekjum einstakra sveitarfélaga, eins og staðan er í dag, komi frá jöfnunarsjóði og þau eigi í raun tilveru sína undir fjárveitingum þaðan.

Annað sem ég vil nefna hér og ég kom aðeins inn á áðan lýtur að tekjum sveitarfélaganna, útsvarsprósentu. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að mjög tvímælis geti orkað að sum sveitarfélög, eins og þau sem ég nefndi hér áðan, a.m.k. tvö á höfuðborgarsvæðinu, nýti sér ekki fulla útsvarsprósentu en á sama tíma og það er ekki gert snúa þau sér til ríkisins með beiðni um auknar tekjur.

Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að mun heppilegra sé, hvort sem er fyrir ríki eða sveitarfélög, eða ef út í það er farið fyrirtæki, að reyna að auka tekjur sínar með sköttum frekar en með álagningu eða hækkun á þjónustugjöldum. Þannig notum við hina sameiginlegu sjóði til jöfnunar frekar en að innheimta gjöld þar sem framfærslan er þyngst, eins og t.d. af barnafjölskyldum.

Af því að ég er nú farin að tala um skatta í umræðunni er ég þeirrar skoðunar að menn hafi á undanförnum árum gert grundvallarmistök í hagstjórn. Það hefði verið nær, hæstv. forseti, að hækka hér örlítið skatta á góðæristímum, að ég tali ekki um þrepaskiptan skatt eða einhvers konar hátekjuskatt. Ég tel að það hafi verið mikil mistök að hverfa frá því meginprinsippi sem fólst í niðurlagningu hátekjuskattsins á sínum tíma. Auðvitað get ég hins vegar fallist á það að eins og hann var útfærður voru tekjuviðmið hátekjuskattsins e.t.v. of lág þannig að margir lentu í alls kyns jaðaráhrifum vegna þessa og margir sem í dag mundu ekki teljast hátekjufólk voru farnir að borga hátekjuskatta. Ef ég man rétt, hæstv. forseti, miðaðist hann við 450 þús. kr. þegar hann var lagður af á sínum tíma. Ég er ekki alveg viss um að þær tekjur teldust í dag sérstaklega til hárra tekna þótt þetta séu vissulega mun hærri tekjur en lægst launaða fólkið í samfélaginu hefur. Í mínum huga hefði verið nær að skoða einhvers konar þrepaskiptingu í skattkerfinu eða jafnvel hátekjuskatt. Það er mín skoðun þótt niðurstaða ríkisstjórnarinnar, þeirra sem unnu þetta, hafi að þessu sinni verið með þessum hætti.

Eins og ég sagði áður hefur rauði þráðurinn verið að verja velferðarþjónustuna og kjör almennings, sérstaklega þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þess vegna er afar mikilvægt að persónuafslátturinn sem samið var um í síðustu kjarasamningum haldi sér. Þannig er gert ráð fyrir því að lágmarksframfærslutrygging lífeyrisþega hækki um 19,9%, úr 150 þús. kr. í 180 þús. kr. nú um áramótin sem ég tel afar brýnt. Einnig er mjög mikilvægt að standa vörð um vaxtabætur og barnabætur til þeirra sem þess þurfa eins og hér liggur fyrir.

Í sjálfu sér ætla ég ekki að fara nánar út í þessar velferðaraðgerðir ef svo má að orði komast enda gerði hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður félagsmálanefndar, ágætlega grein fyrir þeim tillögum hér í dag.

Hæstv. forseti. Þá vil ég víkja aðeins að samgöngumálum og nýframkvæmdum í fjárlagafrumvarpinu. Eins og staðan er núna er útlit fyrir talsverðan samdrátt í nýframkvæmdum og samtals mun lækkun framkvæmda verða um 11 milljarðar, þ.e. um 21% af áætluðum kostnaði við nýframkvæmdir ársins. Þrátt fyrir þennan mikla niðurskurð munu framkvæmdir næsta árs verða um 41 milljarður sem er aðeins lægri upphæð en var á árinu 2008 og hæstv. samgönguráðherra hefur sagt að framkvæmdastigið miðað við þetta verði með því mesta sem verið hefur í sögunni.

Þegar menn skoða framkvæmdastig hins opinbera þarf auðvitað að hafa sveitarfélögin líka í huga. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er allt útlit fyrir, svo fremi sem sveitarfélögin ná að fjármagna nýframkvæmdir sínar, þó nokkuð hátt framkvæmdastig hjá mörgum sveitarfélögum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og suður með sjó og í Hveragerði svo dæmi sé tekið og víðar á landinu. Þar eru menn með hugmyndir og tillögur um nýframkvæmdir þannig að þetta verður að skoða líka í samhengi við það sem ríkið er að gera. Ég tel þetta afar brýnt og að með þessu leggi opinberir aðilar sitt af mörkum til að halda uppi atvinnustigi og stemma þannig stigu við atvinnuleysinu sem án efa mun aukast mjög í byggingariðnaðinum og þessum geira á næsta ári.

Helmingurinn af sparnaðinum sem kynntur er hér verður í vegagerð. Aðrar einstakar framkvæmdir sem slegið er á frest snúa m.a. að Landhelgisgæslu Íslands vegna nýrrar flugvélar og varðskips. Dregið er úr fjárveitingum til húsbygginga, Árnastofnunar sem og byggingar nýs fangelsis að Litla-Hrauni.

Vegna hinna sérkennilegu aðstæðna sem uppi hafa verið í efnahagslífi þjóðarinnar hefur vinna við fjárlagagerðina verið með nokkrum öðrum hætti en undir venjulegum kringumstæðum, svo vægt sé til orða tekið. Þannig hafa t.d. þær hugmyndir sem nú eru uppi um niðurskurð til vegagerðar ekki enn komið formlega inn á borð samgöngunefndar. Ég hef óskað eftir því og aflað mér upplýsinga um að unnið er að ákveðnum tillögum hjá Vegagerðinni og ráðuneyti og ég vil upplýsa hér að ég hef fullan hug á að kalla þessa aðila á fund samgöngunefndar mjög fljótlega þannig að samgöngunefnd geti komið að þessum málum og sett fingraför sín á þetta. Endanlega samgönguáætlun kemur síðan til kasta þingsins á næsta ári og þá er það auðvitað þingsins að marka þá stefnu sem þar birtist.

Hæstv. forseti. Við Íslendingar lifum á skrýtnum og erfiðum tíma. Efnahagskerfið hrundi nánast í einu vetfangi og enn er ekki komið í ljós hvaða áhrif það mun hafa til langframa. Það er því ekkert sérstaklega einfalt eða léttvægt að takast á við það verkefni að koma saman fjárlögum en til þess þarf ákveðinn kjark og ákveðið pólitískt þor sem mér finnst birtast í þessum tillögum. Síðan geta menn verið ósammála og það er bara allt í lagi, það er eðli stjórnarandstöðu að vera ósammála en eins og ég sagði í upphafi gerir maður auðvitað kröfur um að sú stjórnarandstaða sé málefnaleg, byggi á einhverri sýn og kynni plagg sem er á einhvern hátt öðruvísi en það sem stjórnin talar fyrir.

Í þessari fjárlagagerð birtist einnig pólitísk forgangsröðun í þágu þeirra sem minnst mega sín.

Það kann að vera, eins og margir hv. þingmenn hafa sagt í ræðum í dag, að það þurfi að koma til meiri niðurskurðar í framtíðinni, hugsanlega á næsta ári, án efa á næsta ári og þarnæsta í ríkisrekstrinum.

Hv. þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar, Kristján Þór Júlíusson, fór yfir einstaka liði og nefndi einmitt að hugsanlega þyrfti að ganga enn fastar fram varðandi aðhald í ríkisrekstrinum.

Auðvitað er mjög margt sem hægt væri að nefna hér í þeirri umfangsmiklu umræðu sem fjárlögin eru. Þessa dagana er líka mikið talað um siðbót og ábyrgð. Eins og allir vita hefur Alþingi nú samþykkt lög sem gera ráð fyrir að Kjaradómur eigi að taka upp og lækka laun þingmanna og ráðherra. (Gripið fram í.) Það er auðvitað sjálfsagt mál að við þingmenn tökum á okkur kjaraskerðingu líkt og aðrir landsmenn þessa dagana. Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni hér að ég tel að hið sama eigi að gilda um marga aðra hópa, t.d. æðstu embættismenn ríkisins sem heyra beint undir kjararáð. Það er engin glóra í því að ýmsir forstjórar eða framkvæmdastjórar ríkisstofnana, ríkisfyrirtækja, ráðuneyta eða stofnana sem eru vistaðar í svokölluðum E-hluta fjárlaga, eins og t.d. Landsvirkjun, Flugstoðir — og svona mætti lengi telja, (Gripið fram í.) ríkisbankarnir — að þessir hópar séu undanskildir þessu.

Ég tel að sjálfsögðu að strax á næsta ári eigi að afnema fjárveitingu til aðstoðarmanna landsbyggðarþingmanna. Ekkert á að vera undanskilið í þessum sparnaðaráformum, hversu smátt sem það er. Þess vegna held ég, eins og ég hef sagt hér áður, að nota þurfi tímann vel á næstunni og skoða allar hliðar ríkisrekstrarins. Það hefur verið landlægur siður víða í kerfinu að menn keyri fram úr fjárheimildum, oft aftur og aftur. Til að ná tökum á þessu vandamáli tel ég að gera þurfi ákveðnar grunnbreytingar í fjárlagagerðinni. Vonandi gefst tími til að ræða þær umbætur síðar og ég veit að um þetta mál er þverpólitísk samstaða í fjárlaganefnd.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að þakka starfsfólki fjárlaganefndar fyrir frábær störf. Það er ómetanlegt fyrir okkur sem störfum í nefndinni að hafa á að skipa svo góðu starfsfólki, sem á undanförnum dögum hefur unnið þrekvirki við mjög erfiðar aðstæður og fyrir það ber að þakka.

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti, að ég vona að umræðan hér í kvöld og nótt og fram á morgun verði málefnaleg og uppbyggileg og ég vona að okkur gangi vel að vinna eftir þessum skrýtnu fjárlögum sem við setjum að þessu sinni við mjög skrýtnar og erfiðar aðstæður.