136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur fyrir þessa einkunnagjöf hér út og suður en ég verð að segja að það er óttalega leiðinlegt og mikill plagsiður þegar menn koma hér og geta ekki gert annað en verið með palladóma út og suður um það sem aðrir hafa sagt. Ég ætla ekki að falla í þá gryfju né heldur að þakka og kvaka í þúsund ár eins og líka er orðinn plagsiður hér.

Hv. þingmaður sagði að rauði þráðurinn í þessu fjárlagafrumvarpi hefði verið að verja velferðarkerfið. En hún sagði í upphafi eitthvað á þá leið, varðandi sjúklingaskattana sem eru í frumvarpinu, fæðiskostnað eða komugjöld á sjúkrahús að það væri kannski ekki eðlilegt að taka slíkt upp ef um eðlilegar aðstæður væri að ræða.

Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að sjúklingaskattar upp á 1.100 millj. kr. eins og boðaðir eru í þessu frumvarpi eru ekkert smáræði. Og þegar hv. þingmaður gerir síðan lítið úr tillögum og hugmyndum sem hér er bent á eins og að það að skera niður framlög til Varnarmálastofnunar geti skilað 1.500 millj. kr. þá vil ég benda hv. þingmanni á að það mundi duga til þess að koma í veg fyrir hækkun á umræddum sjúklingasköttum. Það mundi líka duga til þess að koma í veg fyrir allan niðurskurð á rannsóknafé til háskólanna fjögurra sem eru þó samningsbundnir og það mundi einnig duga til þess að taka af niðurskurðinn af öllum háskólasetrunum hringinn í kringum landið. Það væri því ýmislegt hægt að gera, hv. þingmaður, í staðinn fyrir að halda uppi þessari tilgangslausu Varnarmálastofnun og þeim 1.500 millj. kr. sem hún kostar.