136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:30]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilega til of mikils mælst að fara fram á við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þeir segi okkur frá sinni sýn á fjárlagafrumvarpið. Þá liggur það bara fyrir og þeir verða að eiga það við sig.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um stjórnarliðið og stjórnarþingmenn þá stöndum við sem sitjum í fjárlaganefnd og tilheyrum stjórnarflokkunum auðvitað öll að baki þessu fjárlagafrumvarpi. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan er þetta frumvarp unnið við mjög sérkennilegar aðstæður, aðstæður sem enginn hefði kosið að lenda í, en svona er þetta bara. Við stöndum að sjálfsögðu við allar þær tillögur sem þarna eru. Ég lýsti áðan minni sýn á ýmislegt sem lýtur að skattamálum og ég hefði hugsanlega gert öðruvísi ef ég hefði ráðið öllu en þannig er þetta nú bara. (Gripið fram í.) Ég ítreka að þetta er auðvitað frumvarp stjórnarinnar allrar, ríkisstjórnar sem og annarra stjórnarþingmanna.