136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Þetta er orðinn hálfgerður plagsiður hjá sumum þingmönnum, m.a. hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, að koma í ræðustól og gefa þingmönnum einkunnir um hvernig málflutningur þeirra skorar í huga hv. þingmanns. Það er alls ekki áhugavert.

Við getum að sjálfsögðu verið sammála eða ósammála eftir atvikum um þau málefni sem hér eru til umfjöllunar og tekist á um þau eins og gefur að skilja en við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sækjum ekki umboð okkar til Samfylkingarinnar eða þingmanna hennar. Við sækjum umboð okkar til þjóðarinnar og það er hún sem segir til um það — og hefur gert það með ýmsum hætti, m.a. í könnunum — hvernig hún metur okkar málflutning.

Burt séð frá því ætla ég að vekja máls á örfáum atriðum úr ræðu hv. þingmanns, eða kannski því sem ekki kom fram hjá hv. þingmanni sem er formaður samgöngunefndar Alþingis. Í umræðum um samgöngur á vettvangi samgöngunefndar kom fram gagnrýni á að ekkert lægi fyrir um sjálfa samgönguáætlunina. Það væri í raun ekki marktækt að fjalla um samgönguhluta fjárlaganna öðruvísi en að samgöngunefnd hefði tækifæri til að fjalla um samgönguáætlun og hvaða hluti væri verið að skera þar burt ef sú væri raunin.

Formaðurinn hafði góð orð um að fundað yrði í samgöngunefnd áður en 2. umr. um fjárlagafrumvarpið færi fram. Það hefur ekki verið gert og ég spyr: Hverju sætir það? Ég vil líka spyrja: Hvað er nákvæmlega verið er að skera niður í samgönguverkefnum upp á 5 milljarða? Það eru m.a. almenningssamgöngurnar, innanlandsflugið, og samningsbundnir liðir þar. Hvað nákvæmlega er í því sem þar er verið að taka niður? Í hafnamálum er verið að taka niður um 260 millj. kr. Eru það samningar eða verður öllu hent út af borðinu nema því sem er bundið í einhverjum samningum? Ég spyr líka um Fjarskiptasjóð, hann er tekinn niður á núll eða 100%. Það er verið að taka mikilvæga liði í samgöngumálum niður frá 25% upp í 100% eins og Fjarskiptasjóð.

Ég spyr: Hverju sætir það og er þetta eitthvað sem formaður samgöngunefndar er ánægð með? (Forseti hringir.) Er tíminn búinn?

(Forseti (KHG): Tíminn er búinn. Klukkan í ræðustólnum mælir ekki réttan tíma en forseti fylgist með því hjá sér þannig að …)

Þá læt ég þetta duga í mínu fyrra andsvari en áskil mér rétt til að koma hingað aftur, herra forseti.

(Forseti (KHG): Þingmaður hefur allan rétt til þess.)