136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:34]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég finn greinilega í þingsalnum að málflutningur minn hefur komið við kaunin á þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og það er greinilegt að menn eru viðkvæmir fyrir því að bent sé á vankanta í þeirra málflutningi.

Ég get ekki setið undir því að ég gefi mönnum sérstakar einkunnir varðandi ræður þeirra eða framsögu eða leggi það í vana minn. Menn verða hins vegar að þola, þótt þeir séu í stjórnarandstöðu, að þeir séu stundum gagnrýndir og að dregið sé fram að málflutningur þeirra sé kannski ekki ýkja trúverðugur. Þessu fær stjórnin ætíð að sitja undir frá stjórnarandstöðu og stjórnarandstaðan verður að láta sér lynda að það sama komi frá stjórnarþingmönnum.

Varðandi það sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði um samgöngumálin þá boðaði ég það í ræðu minni áðan að þessi mál verði tekin inn á fund nefndarinnar núna í vikunni og rædd þar efnislega bæði með fulltrúum Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins. Þá gefst okkur tækifæri til þess að fara yfir öll þessi mál, niðurskurð í vegamálum, forgangsröðun, Fjarskiptasjóð og fleira.