136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er af sérstakri væntumþykju um þennan þingmann og virðingu við hans glæsta feril og því af prinsippástæðum að ég segi aldrei að hann haldi vitlausar ræður. Ég ætla ekki að segja að þessi ræða hafi verið vitlaus en málefnaleg var hún ekki og víðs fjarri sannleikanum í ákaflega mörgum atriðum var hún.

Það er algjörlega rangt hjá hv. þingmanni að það sé verið, eins og hann sagði, að níðast á þeim sem verst eru settir. Þeir sem reynt er að verja í þessu frumvarpi eru þeir sem lakast eru settir. Það er staðreyndin. Þar sér hv. þingmaður stað þeirrar jafnaðarstefnu sem við höfum reynt að færa inn í þessa ríkisstjórn.

Þegar hv. þingmaður belgir sig út um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og segir að hér sé farið með duld og leynd um mál vísa ég hv. þingmanni á það þingskjal sem hér lá frammi, sem honum var sagt frá, alveg eins og formanni hans var sagt frá löngu á undan öllum öðrum þingmönnum hér, a.m.k. í stjórnarandstöðunni. Þar komu þessi skilyrði fram og það er rangt hjá hv. þingmanni að því hafi verið haldið fram af okkur að engin skilyrði fylgdu. Við sögðum alveg skýrt löngu fyrir fram að það væri skilyrði hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir liðsinninu að hækka vexti. Sömuleiðis greindum við frá því að hann gerði ákveðin skilyrði árið 2010 um niðurskurð á gjöldum ríkissjóðs. Það skiptir kannski ekki máli. En þegar hv. þingmaður spyr hvort það geti verið að vaxtagjöld ríkissjóðs verði 2–3 háskólasjúkrahús eftir einhver ár er það ekki ríkari ástæða en ella til að skera niður?

Hv. þingmaður, ég er þeirrar skoðunar að við höfum ekki gengið nógu langt í niðurskurði. Ég var þeirrar skoðunar að það mætti skera lengra niður. Hv. þingmaður nefndi hluti eins og Sjúkratryggingastofnun og stjórnsýslukostnað, ég er honum sammála um það, eins og Varnarmálastofnun, ég er honum sammála um það. Við tókum t.d. út loftrýmiseftirlitið eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) vildi hér áður.

Hv. þingmaður kemur hér og talar um hátekjuskatt. Hvar á að setja hann? Hann hefur einungis symbólskt gildi. Hvert tekjuskattsstig skilar 7 milljörðum en hvað ætlar hv. þingmaður að geta tekið út úr hátekjuskatti? Og hvar ætlar hann að setja mörkin? Segi hann mér það, þá skal ég hugsanlega taka undir það ef hann getur útfært það.