136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er aldrei gott að skoða heiminn úr mjög þröngu músarholusjónarhorni. Mér finnst hæstv. ráðherra gera það. Hann spyr: Hvar vill hv. þingmaður skera niður? (Iðnrh.: Það er ekki spurningin.) Nú, spurði hann ekki að því? (Iðnrh.: Nei, það var ekki spurningin.) Ég heyrði ekki betur en að sú væri spurningin. (Gripið fram í.) Það sem málflutningur minn byggir á er að horfa — já, hvers vegna er það þá ekki gert? Hvers vegna er ekki Varnarmálastofnun skorin niður? (Gripið fram í.)

Ég er að hvetja til þess að við horfum á heildarskuldbindingar okkar, þ.e. skuldbindingar sem ríkisstjórnin, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, eru að setja á herðar okkar með lántökum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, með lántökum annars staðar, með því að undirgangast fyrirskipanir og þvinganir Evrópusambandsins, Breta fyrst og síðan Evrópusambandsins. (Gripið fram í.) Þetta er ávísun á fjárlagahalla komandi ára og er miklu stærra mál en það sem við erum að glíma við núna. Þess vegna segi ég að í stað þess að horfa á fjárlagahallann núna er stóra málið að reyna að skyggnast inn í framtíðina og gera ekkert sem veldur því að skuldirnar yrðu meiri en þær gætu ella orðið ef við héldum betur á málum. Það er þarna sem ég hef tekið undir með stöku manni úr stjórnarmeirihlutanum. Ég vísaði t.d. á ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals í þessu efni.

Ríkisstjórnin hefur því miður kiknað í þessu máli en einblínir núna á þau úrræði sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni, þ.e. fjárlögin og hvernig hægt verði að skera niður í útgjöldum ríkisins núna. (Forseti hringir.) Ég sakna þess þá að sjá ekki þær staðhæfingar sem við heyrðum frá hæstv. iðnaðarráðherra um niðurskurð. Ég veit ekki (Forseti hringir.) betur en hæstv. forsætisráðherra hafi hótað því í dag (Forseti hringir.) að hann mundi mæta í næstu viku með frekari niðurskurð.

(Forseti (ÁRJ): Ég bið menn að virða ræðutímann.)