136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er genginn í salinn hæstv. forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, og þá ber vel í veiði. Ég spyr: Hversu lengi hafa menn hugsað sér að halda þessari umræðu áfram? Nú er nokkuð liðið á kvöld, klukkuna vantar átta mínútur í ellefu og ekki nema rúmur klukkutími eftir af þessum sólarhring. Enn munu átta manns vera á mælendaskrá og sú sem hér stendur er ein af þeim.

Svo vill til, herra forseti, að þingmenn þurfa á nætursvefni að halda. Boðaðir hafa verið nefndafundir í fyrramálið og dagskrá fram eftir kvöldi annað kvöld, bæði vegna atkvæðagreiðslna og umræðna um fjáraukalög. Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta: Hvenær fá þingmenn nætursvefn í kvöld?