136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:56]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hefði getað gefið hæstv. forseta merki og fallið frá ræðu minni, sérstaklega eftir síðustu ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og vegna yfirferðar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á fjárlagafrumvarpinu, þeir hafa farið yfir aðdraganda og stöðu málsins. Þrátt fyrir að margt hafi komið fram hef ég samt sem áður ákveðið að létta á hjarta mínu.

Ég skal viðurkenna, hæstv. forseti, að mér er mjög þungt yfir þeirri stöðu sem við erum í nú. Ég er sannfærð um að ég tala fyrir hönd mjög margra sem eru þungir í lund, líður illa, eru reiðir, örvilnaðir og vita í raun ekki hvar þeir standa.

Við erum í 2. umr. um fjárlög fyrir árið 2009. Þau fjárlög eru unnin í skugga hruns íslenska bankakerfisins. Hægt er að segja hruns íslenska bankakerfisins þó að í dag starfi sparisjóðir og nokkrir minni bankar því þrír höfuðbankar landsins féllu á einu bretti og ríkissjóður tók yfir.

Við höfum lifað í mikilli óvissu um stöðu bankanna, um inneignir okkar sem einstaklinga, fyrirtækja, lífeyrissjóða — hvort við fáum út úr bankakerfinu aftur það sem við áttum inni í því. Hvað sé tapað, hvað verði endurgreitt og hvenær það verði endurgreitt. Við erum í raun vanmáttug og skiljum varla hvernig svona getur gerst eftir allan þann mikla darraðardans, dansinn í kringum gullkálfinn, sem staðið hefur yfir á undanförnum árum.

Okkur hefur verið talin trú um að við sem þjóð séum vel menntuð — sem við erum — að ríkissjóður og bankakerfið standi vel, að bankastarfsmenn okkar hafi verið öðrum snjallari og hið íslenska fjármálaundur hafi verið eitthvað sem aðrir gætu lært af, alla vega var það orðin útflutningsgrein hjá okkur.

Almenningur horfði á og hreifst með enda gagnrýndu fáir þetta mikla fjármálaundur þar sem allt varð að peningum, að minnsta kosti í bankakerfinu og hjá fjármálastofnunum. Aftur á móti var erfiðara að fá gott verð fyrir framleiðsluafurðir þar sem íslenska krónan var hátt skráð og þau ár voru erfið fyrir útflutningsgreinarnar.

Í bankakerfinu blómstraði allt og fólkið hreifst með og margir settu sig í skuldir sem auðvelt er að flokka undir óráðsíu eða það að lifa um efni fram. En margir voru líka að koma sér þaki yfir höfuðið og fjárfestu annaðhvort í fasteign eða spöruðu. Sparnaðurinn getur nú verið horfinn og fólk átt í erfiðleikum með að borga af húsnæði sínu og lánum.

Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir í dag. Auk þess er heimskreppa á fjármálamörkuðum sem varð alveg örugglega til þess að við fengum þessa blautu tusku, hrun bankanna, framan í okkur fyrr en búast mátti við. Ekki gat dregist mjög lengi að spilaborgin hryndi, en hún hrundi ekki spil af spili heldur steyptist um koll og kom þar af leiðandi svo flatt upp á okkur.

Við horfum líka á og reynum að skilja hvað gerðist og hvaða afleiðingar það hefur haft fyrir íslenska þjóð að Landsbankinn hafði leyfi til að starfrækja útibú í Bretlandi og Hollandi og víðar og bjóða upp á sparireikninga fyrir einstaklinga, sveitarfélög, fyrirtæki og félög. Við hrun bankans tökum við með einum eða öðrum hætti — að hluta til vegna klúðurs og að hluta til vegna þess að við viljum ekki styggja hugsanlega samstarfsaðila okkar í Evrópusambandinu og hugsanlega vegna þess að við þorðum ekki að standa upprétt sem Íslendingar, sem þjóð, og standa á rétti okkar gagnvart Evrópuþjóðum og Bretum — á okkur alveg svívirðilegar skuldbindingar sem varla er hægt að ætlast til að við getum ráðið við. Talað er um að við höfum fallist á að greiða 600 milljarða kr. vegna Icesave-reikninganna.

Við erum ekki enn farin að undirbúa málsókn á hendur Bretum eða Evrópusambandinu vegna málsins. Við erum heldur ekki farin að undirbúa málsókn gegn Bretum út af hryðjuverkalögunum sem þeir settu á okkur.

Við afgreiðum fjárlagafrumvarp sem í raun og veru er ekki okkar, alla vega ekki Alþingis. Við erum með á pappírum nýtt frumvarp sem kemur frá ríkisstjórninni og er unnið eftir ramma sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett íslenskum stjórnvöldum. Innan rammans er farið inn á þá braut að draga enn frekar úr opinberum framlögum til ríkisstofnana og þeim halla sem sýndur var á fjárlagafrumvarpinu sem var lagt fram í byrjun október. Sá halli var af ýmsum ástæðum en við vorum þá tilbúin til þess að — ríkisstjórnin lagði það frumvarp fram með yfir 200 milljarða kr. halla og sá fram á að með því mætti halda nokkurn veginn óbreyttum rekstri velferðarþjónustunnar og menntakerfisins.

Að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var skorið niður í nýju frumvarpi um heila 45 milljarða kr. og við það situr. Því hv. fjárlaganefnd hafði engin tök á og var ekki í neinni stöðu til að fara yfir tillögurnar sem komu til hennar frá fjármálaráðuneytinu, fjármálaráðherra. Ég lái þeim það ekki. Áhyggjur mínar snúast um þau vinnubrögð og þá stöðu sem við erum í en ekki fjárlaganefnd sem slíka eða þá sem þar sitja og reyna að vinna vinnuna sína. Fjárlaganefnd hefur ekki haft möguleika á að sinna hlutverki sínu í haust, hún hefur hvorki haft fjárlögin á sínu borði né tekið sér það vald að vinna með fjárlögin eins og hefði þurft að gera.

Það sem mér finnst líka vera miður í stöðunni er hvað Alþingi hefur misst ferilinn úr höndum sér. Fjárlög voru lögð fram á Alþingi, á ábyrgð Alþingis og fjárlaganefndar, en þegar talað var fyrir frumvarpinu daginn eftir að því var dreift var ljóst að það væri ónýtt plagg. Fjárlaganefnd hefur hvorki bolmagn né kraft til að geta tekið við og unnið að breytingartillögum. Enda veit ég ekki hvort það sé innan ramma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að fjárlaganefnd Alþingis sinni þessu hlutverki, heldur verður ríkisstjórnin að beygja sig undir það.

Enda eigum við, eins og kom fram í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra, að hlusta á hæstv. fjármálaráðherra. Hann hefur boðað jafnvel enn meiri niðurskurð og aðhald í ríkisútgjöldum en birtust í breytingartillögunum. Það eru hann, forsætisráðherra og rammi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ráða.

Ég er ósammála því að það skili okkur meiri árangri og sé betra fyrir okkur sem þjóð og fyrir ríkissjóð að skila minni fjárlagahalla á næsta ári. Að það muni um þessa 45 milljarða. Ef við skerum svo mikið niður að það hafi áhrif á grunnstoðirnar, sem við höfum byggt upp, eða á alla velferðarþjónustuna og menntakerfið, alveg frá leikskóla og upp úr, og drögum svo mikið saman að það hafi áhrif á stuðning við atvinnufyrirtæki og útflutningsgreinar og við getum ekki stuðlað að frekari nýsköpun eða haldið úti öflugu framhaldsskólastigi, háskólastigi og rannsóknum er ég sannfærð um að við skjótum okkur í fótinn. Það mun skila okkur minnkandi tekjum á næstu árum.

Ef við höfum það mikil áhrif á velferðarþjónustuna að hún veikist og ef við skerðum kjör tekjulágs fólks, námsmanna og þeirra sem háðir eru lífeyrisgreiðslum það mikið að þeir verða háðir stuðningi sveitarfélaganna eða lenda í atvinnuleysi eða slíkum skerðingum, sem hafa áhrif á heilsu þeirra, fáum við til baka meiri útgjöld en á öðrum stöðum og það í velferðarkerfinu. Fólk missir heilsuna vegna langvarandi atvinnuleysis og það kemur þá niður af meiri þunga bæði á velferðarþjónustuna og ekki síður á stuðningsnet sveitarfélaganna. Því er hægt að spara svo mikið eða stuðla það mikið að því að halda niðri halla á ríkissjóði að það verði dýrara þegar upp er staðið.

Ég vil, hæstv. forseti, nú nefna hvers vegna mér er þungt fyrir hjarta út af stöðunni sem við erum í. Mér hefur fundist að við stöndum ekki upprétt sem Íslendingar eða sem stolt þjóð, eða eins og ein kona sagði við mig: Þuríður, mér er eiginlega alveg sama þó að ég hafi misst peningana mína. Mér er sárara um það að missa æruna. Hvers vegna höfum við ekki sent sendiherra Breta heim? Af hverju látum við bjóða okkur þetta?

Mér finnst svo erfitt að fara ekki í mál við þá sem við teljum og erum sannfærð um að kúgi okkur af því við erum svo fá og smá. Þessir vinir okkar í Evrópusambandinu sem nota smæð okkar til að fara gegn okkur. Bretar sem enn hafa ekki aflétt hryðjuverkalögunum af okkur. Hvaða rétt hafa þeir á að beita okkur slíku valdi og nota hryðjuverkalögin í þessu sambandi? Hafa þeir gert sér ljóst að fyrir þeirra tilstilli hrundi Kaupþing í Bretlandi endanlega?

Mér finnst ábyrgð þeirra vera mikil og sárt er að vita til þess að við stöndum ekki upp eins og við gerðum í landhelgisdeilunni. Við létum ekki þessa miklu og stóru þjóð með sín miklu og stóru herskip beygja okkur. Við fórum með litlu varðskipin okkar og unnum það stríð. Þótt við séum fá og smá getum við að minnsta kosti haldið höfði og sýnt að við látum ekki kúga okkur með því óréttmæti og eigum að bera okkar ábyrgð. En til þess þurfum við líka að hafa ábyrga ríkisstjórn, sem lætur ekki glepjast af gullkálfinum og hugsar ekki frekar um að fá tekjur af þeirri starfsemi bankanna sem fór fram erlendis en að huga að því og hlusta á varnaðarorð og setja girðingar þannig að ekki kæmi til þess að ábyrgð af starfsemi bankanna erlendis lenti á íslenska ríkinu.

Við þurfum líka að hafa ríkisstjórn sem er lýðræðislega sinnuð, hlustar á fólk, stendur fyrir opnu stjórnkerfi, styrkir eftirlitsstofnanir sínar og tekur gagnrýni. Það hefur komið í ljós betur og betur með hverjum deginum sem líður að regluverkið sem við áttum að hafa til þess að standa vaktina var mjög veikt og ógegnsætt. Við höfum leyft ótrúlega flóknu fjármála- og fjárfestingarkerfi að þróast, sérstaklega með tilliti til þess að í öllum þessum krosstengingum, þar sem fyrirtæki hafa keypt hvert í öðru, styrkt hvert annað og búið til fjármálaveldi þar sem í raun og veru var bara loft undir, höfum við alveg gleymt að horfa á undirstöðuatvinnugreinarnar sem eru í framleiðslu. Þær skapa okkur gjaldeyri sem er raunverulegur en ekki tilbúin loftbóla eins og verður þar sem sömu einstaklingarnir, sem eru í spámennsku og allt að því fjármálafíkn, skrúfa upp verðmæti í fyrirtækjum sem í raun og veru breyta ekkert eðli sínu eða starfsemi nema hækka í verði og nú er allt hrunið.

Í framhaldi af því sem nú hefur gerst verðum við að standa vörð um velferðarkerfi okkar og menntakerfi og við verðum að verja sérstaklega börn og unglinga, sjúka, aldraða og öryrkja. Við verðum að standa vörð um sveitarfélögin sem munu á komandi árum þurfa að taka á sig meiri félagslega þjónustu. Þau verða að vera það sterka net sem heldur utan um nærþjónustuna, miklu sterkari en hefur verið.

Því miður er í þessu fjárlagafrumvarpi ekki gert ráð fyrir að stefnt verði í þá átt. Í þessu frumvarpi er tiltölulega flatur niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni þar sem má segja að fyrirtæki eða stofnanir á mismunandi sviðum skila langflestar einhverjum halla í lok þessa árs, sumar litlum en aðrar miklum. Mér sýnist það vera þumalfingursregla að í fjáraukalögunum, sem við höfum séð og talað verður fyrir á morgun, sé gert ráð fyrir að koma til móts við þennan halla sem nemur svona eins og tveimur þriðju af hallanum. Þessi halli og um það bil 10% niðurskurður á línuna fylgir stofnununum á næsta ári.

Það er ljóst að langflestar þessara stofnana hafa átt í miklum erfiðleikum. Búið er að spara inn að beini og í þessum daglega rekstri er mjög erfitt að spara meira öðruvísi en að skera niður þjónustu. Með því að fækka fólki eða skera niður þjónustu á öðrum sviðum, eins og hefur verið gripið til, í mat, lyfjum eða einhverju slíku.

Það sem er þó alvarlegast hvað varðar heilbrigðisþjónustuna er að það er augljóst að Landspítalinn og aðrar stofnanir geta ekki komist í gegnum rekstur næsta árs öðruvísi en að fara í verulega uppstokkun og hreinlega loka fyrir eða hætta ákveðinni þjónustu sem ekki hefur komið fram enn þá. Hvað varðar Landspítalann sem er með mesta niðurskurðinn, eðli sínu samkvæmt, blasir við að það verða teknir upp auknir sjúklingaskattar. Hugsanlega munu einnig verða tekin gjöld af fólki sem leggst inn til sjúkrahússdvalar, sem sé sólarhringsvistun eða innlögn, en ekki eingöngu því sem kemur inn á göngudeildir eða er á dagdeildum. Það er heldur ekki ljóst hvernig Landspítalinn ætlar að fara með ákveðna starfsemi sem ekki flokkast undir grunnþjónustu, hvort stofnunin tekur á það ráð að vísa ákveðinni þjónustu frá, bjóða hana út eða með hvaða hætti á að reka ýmsar greinar sem stofnunin sjálf flokkar ekki sem grunnþjónustu.

Við blasir sem sagt veruleg skerðing á Landspítalanum. Hugsanlega er hægt að sameina deildir eða hagræða frekar innan stofnunarinnar en það verður þó aldrei öðruvísi en það komi fram skerðing á þjónustu, lækkun launa, fækkun starfsfólks eða, sem blasir alveg við, auknir sjúklingaskattar.

Hæstv. forseti. Í nefndaráliti minni hlutans er farið mjög vel yfir þá vinnu sem fjárlaganefndin hefur unnið. Hér eru líka birtar spurningar og svör til hæstv. fjármálaráðherra eða fjármálaráðuneytisins. Þær eru mjög áhugaverðar og gefa betri lýsingu á því sem við stöndum nú frammi fyrir og hvernig má í raun og veru sjá fyrir sér aukið atvinnuleysi, lækkandi tekjur og minni opinbera þjónustu á næstu árum — á sviðum þar sem miklar heitstrengingar hafa verið um að bæta, auka og styrkja innviði þjóðfélagsins og draga úr atvinnuleysi.

Ég er ein af þremur nefndarmönnum sem skrifa undir minnihlutaálit heilbrigðisnefndar. Þar förum við líka yfir afstöðu okkar til fjárlagafrumvarpsins eins og það lá fyrir þegar við fengum það í hendurnar eða fengum beiðni um að skrifa nefndarálit um tillögur sem við höfðum þá ekki séð. Þá lá eingöngu fyrir fjárlagafrumvarpið sem var lagt fram 1. október. Vitað var að þar stæði ekki steinn yfir steini og við vissum að forsendur frumvarpsins voru óljósar enda eru þær ekki komnar fram enn. Við höfðum ekki fjáraukalögin og tillögur þar um stuðning við heilbrigðisstofnanir þannig að erfitt var að sjá hvernig þær mundu koma út. Við sjáum þó núna að þær verða margar hverjar með skuldahala og niðurskurðarkröfu á bakinu á næsta ári.

Í nefndarálitinu nefnum við einnig þá stöðu sem er komin upp varðandi nýja stofnun, Sjúkratryggingastofnun, og þann mikla vanda sem blasir við. Þar virðist vera ýmist sambandsleysi eða yfirgangur, eða ég veit ekki hvaða nafn væri helst hægt að gefa þessu, því lögum um Sjúkratryggingastofnun hefur ekki verið framfylgt. Það er ekki það samráð í gangi sem átti að vera. Ekki er búið að skipta þessum stofnunum, Tryggingastofnun og Sjúkratryggingastofnun, upp með samningi eða samkomulagi og þar logar allt í óvissu. Það er mjög bagalegt, hæstv. forseti, því að Sjúkratryggingastofnun virðist stefna á að taka sér miklu meira sjálfstæði, þenjast meira út og verða mannfrekari en gert var ráð fyrir við afgreiðslu frumvarpsins um Sjúkratryggingastofnun.

Ég tel því að mjög mikilvægt sé að gengið verði frá samkomulagi á milli þessara nýju stofnana hið allra fyrsta, að öðrum kosti verði farið til baka og Sjúkratryggingastofnun sett það verkefni eitt að sjá um samninga við sérfræðinga og samningagerð fyrir heilbrigðisráðuneytið. Að minnsta kosti til að byrja með verði verkefni stofnunarinnar bundin við þann hluta einan. Það er ekki hægt að horfa upp á og vita til þess að deilur séu þarna á milli og að þessar tvær stofnanir sem verða að vinna vel saman geti ekki gert það sem skyldi.

Líta má til Sjúkratryggingastofnunar og umfangs hennar ef grípa á til einstakra sparnaðaraðgerða en ég vona að þessi deila leysist áður en til endanlegrar afgreiðslu fjárlaga kemur. Annars má líta til þess að draga úr umfangi stofnunarinnar.

Hæstv. forseti. Ég gæti sagt margt til viðbótar um stöðu þessa máls og hvert við stefnum. Skuldbindingar ríkisins eru mjög miklar og verða það á komandi árum. Það eru skuldbindingar út af lánum og ramma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skuldbindingar sem við tökum á okkur út af Icesave-lánunum og hugsanlega fleiri lánum og lánalínum sem við þurfum að taka til þess að styrkja gjaldeyrissjóð Seðlabankans. Til þess að endurfjármagna lántökur þurfum við að halda áfram að taka lán til þess að greiða hugsanlega þau lán sem við höfum tekið.

Það sem ég sakna sárt í þessari vinnu við að fara yfir frumvarpið er að hafa ekki línurit eða graf til næstu tíu ára til að sjá hvernig lánin sem nú þegar hefur verið ákveðið að taka raðast niður. Hvernig afborganir af lánunum koma til með að verða og ekki síður hvernig vaxtabyrði þessara lána mun dreifast á næstu ár. Vaxtagreiðslur einar sér eru himinháar tölur, 70 til 100 milljarða kr. afborganir. Ef þetta er sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir, að vaxtagreiðslurnar einar sér geti legið á þessu bili, tel ég grafalvarlegt ef við fáum ekki að sjá það alveg skýrt þannig að þjóðin og við hér á hv. Alþingi getum gert okkur grein fyrir frammi fyrir hvaða vanda við stöndum, ekki bara við þessa fjárlagagerð heldur einnig á komandi árum.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það er hugsanlega ekki hallinn á fjárlögum núna sem við þurfum að hafa dýpstar áhyggjur af. Við þurfum að hafa áhyggjur af afborgunum af þeim lánum og skuldbindingum sem við tökum á okkur, að við sjáum fram á að geta komist út úr þessu í framtíðinni. Til þess að það geti orðið verðum við að hlúa að atvinnugreinunum. Við verðum að hlúa að landbúnaðinum til þess að tryggja hér matvælaöryggi og sjávarútveginum svo við höfum þá auðlind sem við eigum að geta byggt á — ef við stefnum ekki inn í Evrópusambandið, hugsanlega með alvarlegum afleiðingum hvað varðar yfirráð yfir landgrunninu og landhelginni.

Við þurfum að horfa til þessara atvinnugreina og vaxtarsprota þannig að við getum með öllum ráðum eflt útflutning og atvinnu og hugað að fullvinnslu á matvörum og útflutningsgreinum á öllum sviðum. Við höfum núna í haust frá því að þessar manngerðu hamfarir skullu á okkur orðið vitni að ótrúlegum krafti í íslensku þjóðinni, hjá þeim sem hafa misst vinnuna. Fólk er fljótt að finna sér nýja atvinnumöguleika á mjög frumlegan hátt, margir birtast núna í sölu á ótrúlegustu hlutum. Maður vonar bara að áfram gangi vel með þessa framleiðslu sem er sjálfsprottin núna á haustdögum og hún geti orðið vísir að stærri útflutningsgreinum.

Það er þetta sem við þurfum að gera til þess að komast út úr þessu efnahagsástandi. Til að geta greitt þetta verðum við að standa vörð um íslenskan iðnað, íslenska framleiðslu og spara á eðlilegan hátt og vera hagsýn. Við verðum að spara eins og við getum en ekki þannig að við skerum niður velferðarþjónustuna og menntakerfið það mikið að við stöndum veikari eftir.